02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller:

Mjer þótti vænt um, að hæstv. fjrh. (JÞ) fjelst á brtt. mína, en jeg tók það fram áðan, að hv. sjútvn. væri óánægð með brtt. mína að því leyti, að hún væri of lág, enda hefði fjvn. álitið, að þessi upphæð mætti vera hærri, en úr þessu mætti bæta síðar, og vona jeg þá, að hæstv. fjrh. veiti því þá sinn stuðning. En viðvíkjandi till. hæstv. fjrh. um að fella niður prentun Alþt., er hann vitnar í ummæli tveggja prófessora um að þetta sje formlegt, verð jeg að láta þá skoðun mína í ljós, að jeg tel það vera ómótmælt, sem við háttv. 1. þm. Árn. (MT) höfum haldið fram, að ef þetta yrði samþykt, mundi það verka móti gildandi lögum, og þá ólöglegt. Þetta brýtur bersýnilega í bága við gildandi lög, sem segja ákveðið, að prenta skuli umræðupart Alþt. Brtt. segir, að prentunin skuli falla niður, en tekur ekkert fram um það, hvort þetta sje aðeins um sinn. Að vísu gilda fjárlögin ekki nema um eitt ár í senn, en orðalagið á þessari till. segir til um tilganginn, að þessu skuli hætt. Enda mætti með slíku fjárlagaákvæði ár eftir ár gera gildandi lög að dauðum bókstaf og sama sem fella þau úr gildi. Um þessa tilvitnun til háskólakennaranna er það að segja, að það getur vel verið, að þeir hafi tekið einhverja afstöðu til þessa máls án grandgæfilegrar íhugunar, og eins er hitt ókunnugt, á hvern veg þetta hefir verið borið upp fyrir þeim. En bæði er það, að þessi hlið málsins er ekki beint til umræðu hjer nú, og svo er það orðið ógerlegt að ná tali af þessum prófessorum, vegna þess, hve áliðið er nætur, — kl. yfir 3, — þó að menn hefðu viljað rökræða þetta mál við þá. Mjer þykir yfir höfuð allmerkileg framkoma hæstv. fjrh. í þessu máli. Nú er búið að ræða í fulla tvo sólarhringa um þetta mál, og kemur hann þá fyrst fram með þessa prófessoravisku löngu eftir miðnætti, þegar báðir þeir menn, sem haldið hafa fram gagnstæðri skoðun á því, eru dauðir. Vil jeg því vekja athygli hæstv. forseta á því að tryggja sjer að vera rjettu megin við ákvæði stjórnarskrárinnar og annara gildandi laga um þetta, er hann kveður upp úrskurð sinn um þessa brtt.