28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Guðmundsson:

Mjer skildist á hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hann teldi frv. þetta ekki leiða til neins sparnaðar, en þó hjelt hann, að ef það næði fram að ganga, þá myndi hverjum kennara á fætur öðrum verða sagt upp. Jeg held, að í þessu felist talsvert ósamræmi, því verði kennurum fækkað við það, þá er þó að því vitanlegur sparnaður. Hinsvegar verð jeg að halda því fram, að það sjeu öfgar, að kennurum verði sagt upp starfinu í hópum. Þó býst jeg við, að einhversstaðar megi komast af með færri kennara, og þá auðvitað sjálfsagt að losna við óþarfa embættismenn í þessari stjett sem hverri annari.

Þá þóttu mjer það lítil meðmæli með núgildandi fræðslufyrirkomulagi, að það fari í vöxt, að börn, ólæs og óskrifandi, sjeu fermd. Jeg hefði þó búist við, að ástandið hefði í þessu efni farið heldur batnandi, að minsta kosti gæti maður vænst þess, eftir þeim kostnaði, sem barnafræðslan hefir í för með sjer fyrir þjóðina.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að ríkið ætti að kosta alla barnafræðslu, vegna þess, að það rjeði yfir öllum skattstofnunum, og að þingið hefði dembt þessari byrði á sveitarfjelögin að þeim fornspurðum og án fyrirvara. Þess er þó að geta, að fyrir 1919 var í Reykjavík og víðast annarsstaðar varið miklu fje úr bæjar- og sveitarsjóðum til barnafræðslunnar. Því verður varla annað sagt en barnafræðslunni sje komið á af þjóðinni sjálfri. Og hvað tekjustofnunum viðvíkur, þá er þess að gæta, að sveitarfjelög og bæjarfjelög hafa rjett til að leggja á menn útsvar eftir efnum og ástæðum.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) kvað fræðslulögin mjög götótt, þannig, að fara mætti mjög illa með þau. Það er mikið, að hv. mentmn. skuli ekki hafa reynt að troða í þau göt. Það hefir hún ekki gert. En það hygg jeg, að kennurum sje sama, hvaðan þeim koma launin. Jeg held því, að hv. mentmn. hafi haft eins mikla ástæðu til að taka að sjer til athugunar 15. gr. fjárlaganna. Það var farið fram á mikla lækkun á opinberum gjöldum til bókmenta, vísinda og lista, en sá er munur á lækkuninni á þeim lið og minkuninni á útgjöldum ríkisins til fræðslumálanna, að vísindin og listirnar fá hvergi greidda lækkunina, en til fræðslumálanna verður varið, að sögn nefndarmanna sjálfra, fje eftir sem áður, aðeins verður það fje tekið annarsstaðar frá.