31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg vildi heldur leggjast á móti því, að frv. verði tekið út af dagskrá. Jeg býst við, að ástæður til þess, að forsrh. hefir eigi látið skoðun sína í ljós hjer í deildinni, sje sú, að hann ætli að láta sjer nægja að skifta sjer af því í efri deild.

Jeg skal geta þess, að þegar dýrtíðaruppbót kennara var fyrst komið á, þótti ekki fært að leggja þá byrði á sveitarfjelögin. Hvað mun þá nú vera? Ef ríkissjóður varpar bagganum á sveitar- og bæjarfjelög nú, þegar mest kreppir að þeim, mun reyndin verða sú, að þau varpa honum aftur af sjer yfir á heimilin, og afleiðingin verður sú, að sumstaðar verður ekkert kent og sumstaðar með miklu meiri kostnaði en áður. Með frv. þessu er tekið fram fyrir hendurnar á forsrh. og honum sýnt grímuklætt vantraust, án þess, að hann hafi í þessu efni gefið ástæðu til, en gjaldþoli sveitarfjelaganna ofþyngt að sama skapi. Jeg vona því fastlega, að hv. deild beri gæfu til að fella þetta frv.