31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Torfason:

Eg vil endurtaka það, sem sagt hefir verið hjer af andstæðingum þessa frv., að með þessu er verið að leggja óbærilegan skatt á sveitar- og bæjarfjelög. Þau gátu ekki risið undir dýrtíðaruppbótinni 1919, og þá geta þau það því síður nú, enda þótt uppbótin hafi lækkað. Þetta frv. gengur því í þá átt að minka kensluna yfirleitt. Vjer höfum ekki fengið að heyra hvað hæstv. forsrh. leggur til málanna, og jeg get ekki skilið það öðruvísi en að hann vildi komast hjá að lenda í andstöðu við hina ráðherrana hjer í deildinni. Er alveg óviðeigandi að ráða þessu máli til lykta, án þess að hafa borið sig saman við forsrh. og fræðslumálastjóra.

Það hefir verið tekið hjer fram, að þetta frv. gengi aðeins í þá átt að hafa vasaskifti, að taka úr öðrum vasanum til að drýgja í hinum. Jeg get ekki sjeð, hvað er unnið með þessu. Báðir vasarnir eiga að annast útgjöld landsmanna, hver á sína vísu, og í báðum er fje sömu gjaldþegna. Mjer skilst líka, að sveitirnar geti ekki notað uppsagnarfrest þann, sem gefinn er í 3. gr. frv., til þess að segja kennurum upp áður en byrðinni er velt á þær. Jeg get því ekki verið með þessu frv., nema í því verði ákvæði um að fresta framkvæmd 2. gr. nokkuð, t. d. til 1927. Jeg hefi ekki litið á frv. frá hlið barnakennara, en jeg skil vel, að slík ákvæði komi allilla við þá og sanngjarnt sje, að þeim sje veittur nokkur frestur áður en þeir eru settir út á klakann. Og það því fremur sem þetta er einhver þjóðnýtasta embættismannastjettin.