31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2086)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af ósk hv. 3. þm. Reykv. um það, að málið verði tekið út af dagskrá, þá vil jeg mótmæla því fyrir hönd fjvn. Jeg sje heldur enga ástæðu til þess, að málið verði tekið út af dagskrá.

Það er búið að ræða svo mikið um þetta mál, að hv. þdm. eru vafalaust búnir að ráða við sig, hvernig þeir greiða atkv. Það mundi því aðeins tefja málið, ef nú væri farið að taka það út af dagskrá.

Jeg mun ekki tala hjer langt mál. En jeg vil geta þess út af brtt. 2. þm. Eyf. (BSt) á þskj. 257, að fjvn. hefir ekki haft tíma til að athuga þær. Mjer virðast þessar brtt. þó fremur til spillis, og mun jeg fyrir mitt leyti ekki fylgja þeim. Jeg held, að það geti verið vafningasamt fyrir bæjarstjórnir og fræðslunefndir að færa sönnur á það, að ekki sje þörf fyrir kennarann. Komi mótmæli frá kennaranum, hlýtur að lenda í þjarki, og illt úr því að skera fyrir stjórnina. Við höfum gengið út frá því í nefndinni, að skóla- og fræðslunefndir mundu ekki segja kennurum upp, ef brýn þörf væri fyrir þá. Það er verkefni fræðslunefnda að sjá um það, að börnin fái þá kenslu, sem fræðslulögin mæla fyrir, og því ekki hætta á því, að þær beiti þessu valdi freklega.