12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. frsm. (SE) benti rjettilega á, að aðalatriðið væri, hvort ríkissjóður eða sveitarfjelögin ættu að bera uppi dýrtíðaruppbótina. Þetta hefir verið deilumál bæði fyr og síðar. Áður var talið, að sveitirnar ættu að kosta barnafræðsluna að öllu eða mestu, og svo mun það vera víðast um heiminn, að sveitirnar kosta almenna barnafræðslu. Þegar launalög barnakennara voru samþykt, var ætlast til, að útgjöldunum yrði skift á milli ríkissjóðs og sveitanna. Hið sama var uppi, er dýrtíðaruppbótin kom. Jeg álít sanngjarnt, að þessum útgjöldum sje skift á milli sveitar- og ríkissjóðs, sem næst því, sem hjer er farið fram á. Er mjer og ljóst, að þetta er í sjálfu sjer enginn ábati fyrir þjóðina. Verður hjer altaf metingur milli sveitar- og ríkissjóðs. Veit jeg ekki, hve miklu þetta mundi nema meðalsveit, en varla mundi það sliga suma kaupstaðina, t. d. Reykjavík. Satt að segja þótti mjer þingið gróflega örlátt, þegar það ljetti af Rvík meir en 100 þús. kr. útgjöldum. Öllum verður hjer aldrei gert til geðs, og er víst, að sveitirnar kvarta jafnvel undan þeim kostnaði, sem þær verða nú að bera. Sje jeg þó ekki ástæðu til þess að hlífa þeim við þessum kostnaði.

Hin atriði þessa máls eru lítils virði. Tel jeg það mjög eðlilegt og rjett, að reynt sje að losna við þá kennara, sem óþarfir eru, og þeir fluttir þangað, sem þeirra er þörf.