12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (2097)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Út af ummælum hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), vil jeg taka það skýrt fram, að jeg sagði, að það væri í mesta máta óviðkunnanlegt, að um sama leyti og verið væri að leggja hina þungu skatta á þjóðina, væri einnig verið að draga gjöld frá ríkissjóði yfir á bæjar- og sveitarfjelögin. Það má vel vera, að þeir hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) hafi umboð frá sínum kjósendum til að gera slíkt. Um það er vitanlega ekkert að segja. Slíkt göfuglyndi er virðingarvert. En þó að þessi hjeruð standi sig svo vel, að þau muni ekkert um þetta, er jeg ekki viss um, að öll önnur hjeruð vilji bæta á sig þessari þungu byrði. Háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) gerði lítið úr þeim gjaldauka, sem frv. þetta hefði í för með sjer fyrir hans hjerað. Það má vel vera, að svo verði fyrir þau hjeruð, sem farskóla hafa, en öðru máli er að gegna, þar sem fastaskólar eru. Annars skil jeg ekki, að gamlir og reyndir menn utan af landi færu að ástæðulausu að koma til þingmanna og kvarta undan þessari gjaldabyrði. (EÁ: Þeir hafa ekki reiknað út, hvað kostnaðurinn yrði mikill). Það má vel vera, að hinir góðu Eyfirðingar, kjósendur háttv. þm., sjeu svo vel af guði gerðir, að þeir þurfi minni fræðslu en almenningur, til þess þó að verða jafnvel, ef ekki betur að sjer, og þurfi þar af leiðandi minna fje til alþýðumentunar þar en annarsstaðar.

Að því er snertir 1. liðinn í nefndaráliti okkar, sje jeg ekki annað en hann sje rjettur, því að í 9. gr. laga nr. 75 frá 1919, e-lið, stendur: „Farskólakennarar og eftirlitskennarar við heimafræðslu hafa í árslaun 300 kr., auk ókeypis fæðis, húsnæðis, ljóss, hita og þjónustu þá 6 mánuði, sem skólinn stendur.“ En aftan við liðinn bætist: „Standi skólinn skemur, lækka launin hlutfallslega.“ Er því þarna gefin heimild til að lækka launin, ef skólinn stendur skemur en 6 mánuði.

Þar sem nú engin ákvæði eru í frv., sem bæta kenslufyrirkomulagið eða hina fjárhagslegu hlið, trúi jeg ekki, að þingmenn hafi umboð frá kjósendum til að óska þess, að meiri gjöld sjeu færð yfir á sveitirnar af ríkissjóði en hingað til hefir verið gert. Er jeg því sannfærður um, að það yrði illa tekið upp. Þar sem nú ekki er títuprjóns-atriði í frv., sem bætir alþýðufræðsluna, eða er til sparnaðar fyrir þjóðin í heild, en aftur á móti mörg atriði, sem geta haft vond áhrif á alþýðumentunina, sje jeg ekki annað en það sjeu nægileg rök fyrir því, að frv. eigi að fella.