12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get ekki skilið, að það yrði til að vekja andúð gegn fræðslulögunum, þó að frv. þetta yrði samþykt. Ef um andúð gegn þeim yrði að ræða, kæmi hún vegna annars kostnaðar, því að sumir hreppar hafa t. d. alveg neitað að leggja fram fje eins og með hefir þurft til hinnar lögskipuðu fræðslu. En hvað það atriði snertir, að frv. þetta hafi mikinn kostnaðarauka í för með sjer fyrir sveitirnar, held jeg, að of mikið sje gert úr, því að sannleikurinn mun verða sá, að fyrir utan kaupstaðina verður þessi aukakostnaður sáralítill, þar sem tæpar 34 þús. kr. skiftast milli allra hreppa landsins.

Út af þeim ummælum, sem hjer hafa fallið um umboð þingmanna, vil jeg minna á, að þingmenn hafa ekki síst umboð til að hugsa um ríkissjóðinn. Annars er jeg á sömu skoðun og hv. frsm. (SE), um að alþýðufræðsluna þurfi að efla. En jeg get ekki skilið, að þessi litla breyting á launalögum barnakennara geti á nokkurn hátt orðið til þess að draga úr henni.