15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Jeg verð að svara hv. 1. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann var að reyna að sanna gildi kosningarinnar á Ísafirði með því að vitna í lög, sem gilda fyrir kosningar í Reykjavík, en ekki á Ísafirði. Og skil jeg ekki í, hvernig jafnskýrum manni hefir getað dottið slík ódæmavitleysa í hug.

Um Eyjafjarðarkosninguna er það að segja, að hún er að öllu leyti ólík kosningunni á Ísafirði, því að yfirkjörstjórnin í Eyjafjarðarsýslu ógilti alla vafaseðla jafnóðum og þeir komu fram við talninguna, og fylgdi þar alveg bókstaf laganna og ljet ekkert hræra í sjer eftir á, eins og meiri hl. kjörstjórnarinnar á Ísafirði ljet gera. Í gerðabók yfirkjörstjórnarinnar á Ísafirði stendur fyrst, að Haraldur Guðmundsson hafi fengið 439 atkv.. en Sigurjón Jónsson 438. En svo fer hún að hræra í vafaseðlunum og tínir úr þeim, svo að Sigurjón fái meiri hluta. Slíka vitleysu gerði yfirkjörstjórnin í Eyjafjarðarsýslu ekki, því eins og áður er sagt, hjelt hún sjer við bókstaf laganna.

Þá skal jeg taka það fram, að jeg er ekki að áfella kjörstjórnina fyrir það, þó að hún tæki gild atkvæði þeirra, sem kusu í tveimur stöðum, því að hún hefir eigi vitað það þá. Þetta hefi jeg tekið greinilega fram áður, og hv. 1. þm. Reykv. og hv. frsm. 3. kjörbrjefadeildar eru því að hrekja ástæður, sem enginn hefir haldið fram. En það, sem jeg vildi leggja aðaláhersluna á, er að það er óhæfa hjá þinginu, sem veit vel um þetta, ef það ógildir ekki kosninguna fyrir þessa sök. En háttv. þm. taldi, að slíkt gæti ekki komið til greina, en aftur á móti gæti verið rjett að refsa mönnunum, sem gerðu þetta. En ef þingið gerði það, verð jeg að segja, að það tæki aðra stefnu en 1919, þá er það ógilti kosninguna hjer í Reykjavík, af því að þá kusu 14 menn, sem stóðu á aukakjörskrá, en höfðu ekki allir aldur til að kjósa á kjördegi, en þetta var ekki á neinn hátt látið ganga út yfir mennina. Jeg verð nú að líta svo á, að allar röksemdir hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), svo sem að vitna í lögin fyrir Reykjavík o. fl., „sjeu vegnar og ljettvægar fundnar“. (Aldursforseti SJ: Þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd, en ekki löngræða).

Þá sný jeg mjer að hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hann var að reyna að verja þetta athæfi yfirkjörstjórnarinnar á Ísafirði, að úrskurða ekki alla vafaseðla jafnóðum og þeir komu fram. Helstu rök hans voru þau, að hægara væri að bera seðlana saman, ef þeir væru teknir frá fyrst og ekki úrskurðaðir fyr en síðast. En þessi ástæða er lítils virði, eins og annað, sem borið hefir verið fram til rjettlætingar Ísafjarðarkosningunni, því að ekkert er hægara en að hafa seðlana fyrir framan sig og bera þá saman jafnóðum og þeir koma fram og úrskurða þá um leið, því að venjulega eru slíkir seðlar fremur fáir. Eru þetta því engin rök, heldur þvert á móti, því að í kosningahitanum, sem víða er mikill, má frekar búast við, að menn kveði upp hlutdrægari dóma eftir á en fyrirfram. Þá mintist sami hv. þm. á, að áður hefðu komið fram kosningakærur frá Ísafirði um mútur o. fl., en ekkert sannast. En slík ummæli kalla jeg furðudjörf, og skal því lesa honum upp kafla úr nál. kjörbrjefanefndar 1921, um kosningakæru frá Ísafirði 1920. Þar segir svo: „.... Hinsvegar er það upplýst við rannsóknina, að Bjarni Bjarnason ökumaður hefir heitið á menn fje til þess að kjósa Jón A. Jónsson og greitt það að einhverju leyti að kosningunni lokinni; ennfremur er það upplýst með eiðsvörnum framburði eins vitnis, að nefndur Bjarni hafi beint boðið fje í sama tilgangi. Nefndin telur, að hjer sje svo nærri höggið 114. gr. hinna almennu hegningarlaga, að ástæða sje til, að þetta sje rannsakað til hlítar.“

Jeg veit nú ekki, hvað hv. þm. kallar upplýst, ef þetta er eigi nægilega upplýst, að mútur hafi verið viðhafðar. Og víst er það, að ef nú væri rannsakað til hlítar með kosninguna á Ísafirði, þá myndi eigi minna af slíku koma í ljós en við rannsóknina 1920.