12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og nál. á þskj. 341 ber með sjer, leggur samgmn. á móti því, að fylgt sje þeirri venju, sem undanfarið virðist hafa verið, að samþ. sjeu nýjar símalínur, án þess að nokkur athugun á línusvæðinu hafi verið gerð. Við komumst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið símalögin með öllum taglhnýtingum þeirra og talað við landssímastjóra, að ýmsar línur, sem nú eru komnar inn í lögin, mundu aldrei verða lagðar, sumpart af því, að betra væri að leggja þær annarsstaðar en ákveðið var, sumpart af því, að ekki væri hægt að gera það í fyrirsjáanlegri framtíð.

Við athugun frv. þess, sem hjer liggur fyrir, komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki væri rjett að samþ. síðari málsgr., þar sem ekki væri víst nema símalínan út á Ingjaldssand yrði ódýrari, ef hún væri lögð frá Núpi eða Mýrum, en ekki frá Holti. Því leggur nefndin til, að þessi málsgr. falli burt. En um símalínuna frá Mýrum að Núpi er nefndin sammála. Á Núpi er unglingaskóli, og því nokkur þörf á símstöð, enda auðvelt að leggja þangað línu og aðeins um litla leið að gera. Kostnaðinn áætlar símastjóri um 5000 kr. Hinsvegar eru engar líkur til að lína þessi, fremur en aðrar, sem framar standa að nauðsyn hjeraðsbúa, verði lögð fyr en fje er til þess veitt á fjárlögunum.

Síðan frv. kom frá nefndinni, hafa borist 2 brtt. frá háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og háttv. 2. þm. Skagf. (JS). Þær brtt. hefir nefndin ekki getað athugað nægilega, því þær komu svo seint fram, önnur í gær, hin í dag. En við lauslega athugun, sem nefndin gerði á fundi í morgun, þá sýndist henni, að hún myndi ekki geta fallist á þessar brtt. að svo stöddu. Því hafa nefndarmenn óbundin atkv. við þessa umr. En hinsvegar mun nefndin taka þessar brtt. til rækilegrar íhugunar til 3. umr. og segja þá greinilegar álit sitt um þær.