12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Þórarinn Jónsson:

Það er út af þessari litlu brtt., sem jeg á á þskj. 355. Mjer virðast ástæður nefndarinnar fyrir því að vilja ekki bæta við nýjum linum í lögin, af því að sumar línurnar, sem fyrir sjeu, verða ekki lagðar, engin ástæða. Línur, sem ekki er hægt að leggja, geta ekki útilokað aðrar, sem má leggja. Jeg þykist því vita, að nefndin reyni að finna aðra ástæðu fyrir máli sínu.

Línan, sem hjer um ræðir, er ekki löng, ca. 20 km. Má vel vera, að landsímastjóri hafi aldei farið um svæðið, en hann mun vita, að hvergi er auðveldara að leggja síma en þar. Það er því ekki hægt að leggjast á móti till. af því ilt sje að leggja línuna.

Þörf fyrir síma er þarna mikil. Það er um afskektan afdal að ræða, og frá efstu bæjunum eru 40 km. til verslunarstaðar og læknis. Yrði mikil bót að því, ef sími kæmist þangað, en hversu mikil er auðvitað ómögulegt að segja. Bygðin er mannmörg, þrjár álmur albygðar.

Annað er ekki hjer um að ræða en að hemilað sje að leggja þessa línu; það er ekki minst á, að ríkissjóður leggi fram fje eða hvenær línan sje lögð. Fer það vitanlega eftir því, hvenær sýslusjóður telur sjer fært að láta fje til þess, því ríkissjóður leggur ekki til slíks nema að nokkru leyti. Því er ekkert í húfi, þó línan verði samþ. Þessi lína verður lögð hvort sem er, fyr eða síðar, þegar fjárlögin veita fje til og sýslusjóður lætur sitt.

Mjer finst því einkennilegt, ef hátttv. nefnd er á móti þessu, og vænti því fastlega, að hv. deild sjái sjer fært að lofa þessu að ná fram að ganga, þar sem um enga hættu er að ræða fyrir ríkissjóðinn eða aðra.