12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2124)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Nefndinni var kunnugt um, að ekki var ákveðið, hve mikið fje ríkissjóður legði fram til aukasíma, enda fer það eftir fjárframlagi hjeraðanna. En hinsvegar vildi hún ekki, að lagðar væru nýjar smálínur og leið þeirra ákveðin, án þess að fá vitneskju um, hvort ekki væri til heppilegri leið en sú, er flutningsmenn benda á, og leita jafnframt álits símastjóra. Það hafa oft verið fluttar slíkar till. um nýjar línur, t. d. í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem þó mun ekki komast í framkvæmd að sinni, en jeg tel sjálfsagt að leita jafnan álits forstjóra símanna um slíkt. Það má vera, að ekki sje nema um þessa einu leið að gera í Vestur-Húnavatnssýslu, en ekki þykir mjer ólíklegt, að til sjeu fleiri leiðir en þessi eina frá Melstað. Annars telur landssímastjóri þá leið sljettlenda og góða.

Nú sem stendur er orðið svo mikið að gera á símastöðvum, að ógerningur er að bæta við nýjum stöðvum, án þess að strengja nýja þræði á gömlu línurnar, og á Norður- og Vesturlandi a. m. k. mundi það tefja alt of mikið fyrir afgreiðslu að bæta nýjum stöðvum við.

Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta nú, en geymi það til 3. umr.