15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Pjetur Ottesen:

Það hefir verið borið fram af hv. frsm. og síðan af hv. þm. Str., að ekki væri rjett að samþ. símalínur, nema línustæði væru fyrst rannsökuð, og væri því best að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg veit ekki, hvort menn hafa veitt því eftirtekt, sem jeg las upp áðan úr brjefi frá landssímastjóra, þar sem hann lýsti yfir því, að þessi lína, sem jeg ber hjer fram, sje ekki bundin neinum erfiðleikum hvað það snertir. Er því frá því sjónarmiði engin ástæða til að vísa þeirri till. til stjórnarinnar. Að því er snertir orð hv. þm. Str., að þessi lína væri óundirbúin, þá veit jeg satt að segja ekki, hvað hann á þar við. Hlutaðeigandi sveitir hafa þó óskað eftir þessu, að málinu vel athuguðu, og hvað þurfum við þá framar vitna við?

Hv. þm. Str. sagðist tala af kunnugleik, og kvað Lund aðalsamkomustað dalbúa, og þar væri prestssetur. En jeg vil þá benda hv. þm. á það, að svo verður ekki í framtíðinni, því jörðin hefir verið seld. Að endastöð línunnar sje best komin á Lundi, af því að sú jörð liggi í miðbiki dalsins, en svo sje ekki um þann stað, er nefndur er í brtt., Hól, þá kemur hjer til athugunar, að á Hóli er stöðin mjög miklu hagkvæmari þeim framdalabúum, sem erfiðasta aðstöðu eiga á allan hátt, og svo er, með því að hafa stöðina einmitt þarna, hægt að sameina hagsmuni annara við afnot dalbúa sjálfra af línunni. Undirbúningur þessarar till. er góður og gildur í alla staði. Hitt getur komið til álita síðar, hvort svona langt skuli farið. En um það verður ekki deilt, að fyrir þá, sem framar búa í dalnum og eiga við meiri samgönguerfiðleika að búa, er þó nokkuð betra, að símastöðin sje á Hóli en á Lundi.