16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg býst við, að flestum sje ljóst, að það er ekki ánægjulegt verk að sitja í fjvn. Alþingis á slíkum tímum, sem nú eru, þegar fjárhagur ríkissjóðs er svo þröngur, að synja verður um allar fjárveitingar, sem ekki eru hreint og beint óhjákvæmilegar. Það sýnir sig og, að það var í vetur ekki eins eftirsótt og áður að komast í fjvn. Það var áður mikil kepni um það meðal þm. að komast í fjvn., en nú er öðru máli að gegna. T. d. veit jeg um einn hv. þm. í þessari deild, sem átti sæti í fjvn. í fyrra, en hliðraði sjer hjá því nú að fara í nefndina. Og annan þm. þekki jeg, sem hefir átt sæti í fjvn. síðan 1916 og gerði tilraun til þess að losna við að sitja í nefndinni í þetta sinn, þótt sú tilraun mishepnaðist.

Skrifari fjvn., hv. 3. landsk. þm. (HSn), er lasinn og hefir því beðist undan að vera frsm., og enginn annar í nefndinni var fús til að taka það að sjer. Það varð því úr, að jeg tók það að mjer, sem formaður nefndarinnar, þó jeg ætti ekki vel gott með það, því mig vantaði allan tíma til undirbúnings. Jeg hefði að minsta kosti þurft að geta notað tímann í morgun til undirbúnings, en því fór fjarri, að jeg gæti það, því jeg varð að taka fyrir 5 gestarjettarmál og sitja á skiftafundi. Jeg er því algerlega óundirbúinn og bið hv. deild að virða mjer til vorkunnar.

Það er ekki mikil þörf á langri framsöguræðu, því öllum er kunnugt um fjárhag ríkissjóðs, og fyrir flestum brtt nefndarinnar á þskj. 376 eru færðar ástæður í nál. á þskj. 389.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er jeg alls ekki hrifinn af löngum ræðum, og því geta hv. þm. verið vissir um, að jeg muni ekki lengja umræðurnar of mikið Jeg ætla mjer alls ekki að taka upp hjer það, sem stendur í nál., því jeg veit, að hv. þm. hafa kynt sjer það, og jeg tel það nægilegt, að það sje á einum stað í Þingtíðindunum. Það, sem jeg segi nú, mun því aðallega fara í þá átt að skýra ýmislegt betur en gert er í nál.

1. brtt. nefndarinnar er við 7. gr. frv. 1,1, vexti af innlendum lánum. Brtt. fer fram á, að fyrir kr. 384152,34 komi 500000. Í frv. stjórnarinnar var þessi upphæð talin 284152,34. En þar voru aðeins taldir vextir af samningsbundnum lánum, eins og sjá má af athugasemdum frumvarpsins. En fjvn. Nd. komst að því, að þar að auki var um ýmsar lausaskuldir að ræða, og hækkaði því þessa upphæð um 100 þús. kr. eftir beiðni hæstv. fjrh. (JÞ). Þegar fjárlögin komu til Ed., kom hæstv. fjrh. til fjvn. og upplýsti, að lausar skuldir ríkissjóðs næmu 3,7 miljónum og fór fram á, að upphæðin til vaxtagreiðslu væri enn hækkuð um 140 þús. kr. Það er öllum skiljanlegt, að þegar bankavextir eru orðnir 8%, þá muni þær 100 þús. kr., sem fjvn. Nd. bætti við vegna þessara skulda, ekki nægja, og nefndin sá sjer því ekki annað fært en að hækka þessa upphæð upp í 500 þús. kr., því það er því miður ekki hægt að búast við, að nokkrar lausaskuldir verði greiddar af tekjum yfirstandandi árs. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi vanta um 1½ miljón kr. til þess að fjárlög yfirstandandi árs yrðu tekjuhallalaus, og það er ekki að búast við, að þau tekjuaukafrv., sem afgreidd hafa verið frá þinginu, geri betur en að jafna þann tekjuhalla. Það má því heita gott, ef enginn tekjuhalli verður á yfirstandandi ári, og virðist liggja í augum uppi, að upphæð sú, sem fjvn. leggur til, að varið sje til vaxtagreiðslu, er ekki of há.

Þá hefir nefndin fengið upplýsingar um það hjá hæstv. fjrh., að upphæð sú, sem ætluð er handa ríkisfjehirði af hv. Nd., sje of lág. Sá kostnaður var árið 1923 24 þús. kr. og nú er ríkisfjehirðir að flytja skrifstofu sína í annað húsrúm en hann hingað til hefir haft, nefnilega í Landsbankahúsið nýja, sem mun verða um helmingi dýrara. Það er auðsjeð, þegar þess er gætt, að í stjórnarfrv. eru aðeins áætlaðar 8 þús. kr. til launa handa skrifstofufólki ríkisfjehirðis, að það er alt of lágt, því til skrifstofufólks ríkisfjehirðis telst ríkisbókarinn, Einar Markússon, sem hefir mikið og vandasamt starf með höndum, og auk þess hefir ríkisfjehirðir þrjár stúlkur í skrifstofu sinni, og það hljóta allir að sjá, að 8 þús. kr. eru ekki nægilegar í laun handa öllu þessu fólki, og það verður að teljast mjög hæpið, að ríkisfjehirðir geti mist nokkuð af því. Nefndin leggur því til, að liðurinn sje hækkaður úr 16200 kr. upp í 20 þús. kr.

3. brtt. nefndarinnar er við 11. gr. og er um að hækka fjárhæð þá, sem veitt er til starfsmannahalds í bæjarfógetaskrifstofunni, úr 19800 upp í 25200 kr. Sú hækkun er gerð til þess að fá laun og dýrtíðaruppbót handa nýjum fulltrúa, sem á aðallega að annast lögtök á þinggjöldum og bæjargjöldum. Það er gerð grein fyrir þessari brtt. í nál., en jeg skal þó taka það fram, að bæði lögreglustjóri og borgarstjóri leggja mjög mikla áherslu á, að lögtökin geti verið framkvæmd fljótlega, jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr brjefum frá þeim.

Lögreglustjóri kemst þannig að orði eftir að hafa sagt, að hann mundi þurfa að senda um 3000 lögtaksbeiðnir til bæjarfógeta:

„Eftir þeirri reynslu, sem fjekst í fyrra, má ganga að því vísu, að lögtökunum verði ekki lokið á skemri tíma en 3 mánuðum, þó bæjarfógetafulltrúi sá, sem framkvæmir þau, verji mestum tíma sínum til þeirra þann tíma, og þurfi ekki að neinum mun öðrum störfum að gegna.

Jafnframt því að taka þetta fram og að geta þess, að jeg vænti, að lögtök á ríkissköttum verði látin ganga fyrir öðrum lögtökum, vil jeg hjer með skora á yður að koma því svo fyrir, að umrædd lögtök geti í ár farið svo fram, sem jeg hefi beðið um hjer á undan.“

Borgarstjóri er fult eins harðorður. Hann segir í brjefi sínu:

„ — — — en þegar fulltrúinn fær ekki að starfa að þessu verki nema fáar stundir á dag og hvergi nærri á hverjum degi, er engin von til, að verkið vinnist á hæfilegum tíma, þótt dugnaði sje beitt.“

Og síðast í brjefi sínu segir borgarstjóri:

„Jeg verð að krefjast þess, herra bæjarfógeti, að lögtök þessi verði öll framkvæmd tafarlaust og að unnið verði að þeim daglega af manni, sem gefi sig algerlega við því starfi, og getur bæjarstjórnin alls ekki unað við neinn drátt á því, að lögtakskröfum bæjargjaldkera verði sint.“

Stjórn Málaflutningsmannafjelags Íslands kemst svo að orði í brjefi til bæjarfógetans:

„Undirrituð stjórn Málaflutningsmannafjelags Íslands leyfir sjer hjer með að láta í ljós þá skoðun sína, að æskilegt væri, að fulltrúum við bæjarfógetaembættið hjer í Reykjavík væri fjölgað um einn. Byggjum vjer þessa skoðun vora á því, að í seinni tíð hefir það alloft átt sjer stað, að fógetagerðir hafa orðið að dragast lengur en góðu hófi gegnir vegna anna fulltrúans. En það gefur að skilja, að slíkur dráttur getur á stundum haft í för með sjer tilfinnanlega rjettarglötun.

Ennfremur teljum vjer nauðsyn bera til þess, að skrifstofufje bæjarfógeta yrði aukið svo, að auðið yrði að hafa 2 vjelritara á skrifstofunni.“

Nefndin hefir því orðið að viðurkenna, að þessar kröfur væru á fylstu rökum bygðar. Á sama máli var hæstv. fyrv. stjórn, því hún leyfði bæjarfógeta að taka nýjan fulltrúa til þess að annast lögtök. Hann hefir nú starfað í 3 mánuði og hefir framkvæmt um 2000 lögtaksgerðir, og aukatekjurnar í ríkissjóð fyrir þær hafa þessa þrjá mánuði orðið mun meiri en laun og dýrtíðaruppbót hins nýja fulltrúa nema alt árið.

Jeg verð því að segja, að jeg álít, að það væri ljeleg fjármálapólitík að neita um þetta fje, því það er vitanlegt, að bæði bæjarsjóður og ríkissjóður tapa miklu fje, ef ekki er hægt að taka lögtak í tæka tíð; og í raun og veru hefir fulltrúafjölgunin í för með sjer tekjuauka fyrir ríkissjóð, er nemur margfalt meiru en hin auknu útgjöld. Jeg vona því, að hv. deild sýni sanngirni og samþykki þetta.

4. brtt. fjvn. er við 11. gr. og er um að veita 16 þús. kr. til byggingar fangahúsa á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, og er það samkvæmt óskum hæstv. forsrh., að nefndin leggur það til. Eins og mönnum er kunnugt, brann fangahúsið á Ísafirði nýlega og svo sorglega vildi til, að unglingspiltur brann þar inni.

Í Vestmannaeyjum var fangahús, en það var áfast við þinghús hreppsins, en þinghúsið var selt, og þá varð ríkissjóður að selja fangahúsið með. Þetta var fyrir 10–12 árum síðan, og síðan hefir verið fangahúslaust í Vestmannaeyjum. En það er, eins og mönnum er kunnugt, að í kaupstöðum er mög erfitt, ef ekki ógerlegt, að gæta reglu, ef ekki er hægt að stinga manni inn. Sjerstaklega þar sem mikið er um útlendinga, eins og á sjer stað í báðum þessum kaupstöðum. Þegar jeg kom á Seyðisfjörð, var fangahúslaust þar, og jeg sá þegar, hve bagalegt slíkt var, og leitaði því til Alþingis um fjárveitingu til fangahúsbyggingar, og jeg vil láta Alþingi njóta sannmælis með það, að það tók mjög sanngjarnlega í þá beiðni mína og veitti þá fjárhæð, sem þurfti til þess að byggja húsið. Það var vitanlega ekki eins dýrt að byggja slík hús þá eins og nú er, enda er ætlast til þess, að þau fangahús, sem hjer er um að ræða, verði bygð úr steini, og verða þau því dýrari en ella, en þá er líka minni þörf á, að fangavörður sje búsettur í þeim, og geta þau því verið minni. Það hafa verið gerðar 2 teikningar að fangahúsi í Vestmannaeyjum af húsameistara ríkisins. Eftir annari teikningunni er áætlað, að húsið kosti 8 þús. kr., en eftir hinni 11 þús. kr. En af því að nefndin álítur, að alt þurfi að spara, þá telur hún, að taka verði það ódýrara, og leggur því til, að 8 þús. kr. verði veittar til að byggja hvort hús, eða 16 þús. kr. í alt.

Þá leggur nefndin til, að upphæð sú, sem ætluð er til landhelgisgæslu, verði hækkuð um 10 þús. kr. eða úr 70 þús. upp í 80 þús. kr. Meiningin með þessari aukningu er sú, að Þór verði útbúinn svo, að hann verði hæfur til landhelgisgæslu. Skip þetta er nú aðallega útbúið sem björgunarskip, en töluvert annan útbúnað þarf til landhelgisgæslu en til björgunar. Nefndin viðurkennir, að skipið megi vel nota til landhelgisgæslu, ef það er útbúið til þess, og einkum megi vel við það una til að gæta þess, að síldarskip eða önnur smærri skip fiski ekki innan landhelgi. Nefndinni þykir því rjett að verða við ósk stjórnarinnar um að fá fje til að útbúa skipið, og leggur því til, að stjórninni verði heimilað að verja alt að 20 þús. kr. af því fje, sem ætlað er til landhelgisgæslu, til þess að útbúa Þór.

6. brtt. nefndarinnar er um að lækka laun aðstoðarlæknisins á Ísafirði úr 1800 kr. niður í 1500 kr. Eins og flestum er kunnugt, hefir verið rætt um að leggja þetta embætti niður, þó að það hafi ekki verið gert ennþá. Þetta embætti var stofnað með lögum frá 1907. En síðan hafa ástæður breyst mjög. Þá var fátt um lækna þar vestra, og embættið mátti því teljast nauðsynlegt. Nú hefir þetta breyst mjög. Nú eru komnir fleiri læknar þar vestra, og flestir telja því embættið ónauðsynlegt nú. Og þó að laun þessa embættismanns sjeu færð niður í 1500 kr., þá eru þau þó hærri heldur en þau laun, sem hann hefði fengið ef embættið hefði verið lagt niður og hann settur á biðlaun.

7. brtt. nefndarinnar er aðeins lítilfjörleg málsrjetting, því eins og það ákvæði er orðað í fjárlagafrv. er ekki gott að sjá, hvort heldur er ætlast til, að styrkurinn gangi til Norður- eða Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Þá leggur nefndin til í 8. brtt. sinni, að liðurinn 13 c. í 12. gr. verði þannig, að veittur verði 15000 kr. styrkur til þess að reisa sjúkraskýli og læknisbústað í Borgarfjarðarhjeraði. Eins og kunnugt er, eru Borgfirðingar nú að reisa sjúkraskýli. Það á að vera myndarlegt steinsteypuhús, og stærðin verður 10,5X18 metrar. Það á að leiða í þetta hús heitt vatn til upphitunar úr hver, sem er þar nærri og keyptur hefir verið í því skyni. Allur kostnaður við þetta hús er talinn muni verða um 46 þús. kr., fyrir utan það, sem þarf til þess að kaupa hverinn, sem nota á til hitunar. Og Borgfirðingar biðja um þetta fje samkv. loforði, gefnu 1921. Nefndinni finst því sanngjarnt, að þeim sje veittur styrkur, sem nemur 1/3 af þeim kostnaði, sem þeir hafa af að byggja sjúkraskýli þetta. Hinsvegar sjer nefndin sjer ekki fært að leggja til, að meira fje verði veitt til sjúkraskýla að þessu sinni en þetta, fyrir utan það, sem í fjárlagafrv. er ætlað til slíks, 25000 kr. til Ísafjarðarhjeraðs og 3000 kr. til Grímsneshjeraðs, og því hefir nefndin lagt til, að þessi liður verði lækkaður niður í 15000 kr., til þess að gefa ekki öðrum hjeruðum undir fótinn með að fara að undirbúa sjúkrahúsbyggingar í von um styrk næsta ár.

Vegamálastjóri lagði eindregið til, að sú upphæð, sem ætluð er til viðhalds flutningabrauta, verði hækkuð, og nefndinni fanst hún verða að taka það til greina. Vegamálastjóri benti á, að með vegalögum þeim hinum nýju, sem nú eru á leiðinni gegnum þingið, væri lagt á ríkissjóðinn viðhald vega, sem hann hafði eigi áður. Og sömuleiðis hjelt vegamálastjóri því fram, að það væri engin meining að halda ekki vegunum vel við nú, þegar engu fje er varið til nýrra vegagerða, því þegar fjárhagur ríkissjóðs tæki að rjetta við, svo að hugsað yrði um nýjar vegagerðir, þá mundi minna verða hægt að hugsa um viðhald brautanna, og yrði því að halda þeim vel við.

Holtavegurinn er einn af fjölförnustu akvegum á landinu og stórþýðingarmikill fyrir alt Suðurlandsundirlendið. Er hin brýnasta þörf að halda áfram endurbyggingunni á þeim vegi og má ekki verja minna til þess eins úr ríkissjóði en hækkuninni nemur. Meiri hl. fjvn. væntir þess, að till. verði tekin til greina, þótt ekki hafi náðst fult samkomulag um hana í nefndinni.

Þá er till. um 300 kr. styrk til dragferju á Blöndu. Tel jeg enga þörf að mæla með því, þar sem samskonar upphæð er nú víða veitt í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár.

Þá eru orðin „vor og haust“ í 13. gr. B. IX. Leggur nefndin til, að þau falli burt. Er það gert til þess að veita stjórninni sem frjálsastar hendur um veitingu styrksins til bifreiðaferðanna austur yfir fjall. Nefndin leggur einnig til, að launauppbótin til talsímakvenna verði hækkuð upp í 10500 kr. Þessar konur eru mjög illa launaðar, hafa aðeins 113 kr. á mánuði. Þar frá dregst skyldugjaldið í lífeyrissjóð. Eru þá ekki eftir nema 107 kr. til þess að lifa fyrir. Hv. Nd. sá þetta og ákvað upphæðina 9400 kr., en hún gleymdi nokkrum stúlkum utan Reykjavíkur, sem eiga sama rjett til þessarar uppbótar og Reykjavíkurstúlkurnar, því þær eru ráðnar með sömu kjörum.

Nefndin leggur til, að efnisverði Steindóri Björnssyni verði greiddar úr ríkissjóði 150 kr. með hverju barni hans, en þau eru 8. Maðurinn er ungur og mjög duglegur og verður að slíta sjer út vegna þess, að laun hans hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Væntir nefndin þess, að hv. deild taki fult tillit til þessara sjerstöku ástæðna og greiði þessari till. atkv. sitt. Eftir ákvörðunum þingsins í fyrra nýtur maður þessi í ár 200 kr. styrks með hverju barni sínu.

Ritfje biskups hefir nefndin hækkað úr 1000 kr. upp í 1500 kr. í fjárlagafrv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir 2500 kr. Er óskiljanlegt, hvað hv. Nd. gengur til að ákveða þessa upphæð svona lága. Árið 1880 var ritfje biskups 1000 kr. Munu þó flestir vera á einu máli um, að ódýrara hafi þá verið að halda opinbera skrifstofu í Reykjavík, en samt sem áður þótti upphæðin of lág og jeg hefi fyrir satt, að í síðasta embættisbrjefi, sem fyrirrennari núverandi biskups skrifaði, hafi verið megn umkvörtun yfir því, að skrifstofufjeð hrykki ekki þá til nauðsynlegustu gjalda við skrifstofuhaldið; og hvað myndi þá sama upphæðin hrökkva nú! Starf biskups er mjög umsvifamikið, brjefaskriftir miklar til presta, sem eru 140 talsins, prófasta o. fl. o. fl.

Fjvn. barst erindi frá læknadeild háskólans. Er þar kvartað yfir því, að laun hjeraðlæknisins í Reykjavík fyrir kenslu í lyfjalæknisfræði eru lækkuð úr 1500 kr. niður í 1000 kr. Kenslustarf hjeraðslæknisins er mjög ábyrgðarmikið og ekki minna en starf prófessora. Hefir hann nú 2500 kr. fyrir hjeraðslæknisstörf sín, og þótt hann fengi 1500 kr. fyrir kenslustarfa sinn, næði hann samt ekki lægstu prófessoralaunum við háskólann. Vonar fjvn., að deildin samþykki till. sína. Upphæð þessi hefir stundum staðið í fjárlögum, en stundum ekki, en jafnan hefir orðið að greiða hana, hvort sem fjárlagaheimild hefir verið fyrir hendi eða ekki.

Einnig telur nefndin sjálfsagt að taka í fjárlög greiðslu til kennarans í lagalæknisfræði, 500 kr. Nefndin leggur til, að launaliður mentaskólans verði hækkaður úr 79100 kr. í 84200 kr., en að tímalaun kennara við sama skóla verði færð niður úr 18 þús. kr. í 15 þús. kr. Er það gert í því skyni, að cand. mag. Kristinn Ármannsson, sem nú er tímakennari við skólann, verði þar fastur kennari. Þessi maður lauk kennaraprófi í Danmörku næstliðið sumar í latínu, grísku og ensku og átti þar kost á góðu kennaraembætti, en hafnaði þeirri stöðu og gerðist tímakennari við mentaskólann eftir ósk þáverandi forsætisráðherra. Við mentaskólann eru aðeins tveir klassískir málfræðingar og báðir hnignir á efra aldur. Falli þeir frá, verður erfitt að útvega kennara í klassiskum fræðum, ef ekki er sjeð fyrir honum í tíma. Stjórnin og rektor mentaskólans hafa álitið rjett að tryggja skólanum þennan kennara. Þótt hann ætti kost á betri stöðu annarsstaðar, gekk hann inn á þetta; hafa honum þó ekki verið gefin nein bindandi loforð um fasta stöðu. Þessi maður er mjög efnilegur og góður kennari. Telur rektor mentaskólans skólann ekki geta verið án hans, og beri nauðsyn til að tryggja skólanum starfskrafta hans. Fellst nefndin á það og óskar þess, að stjórninni veitist heimild til þess að ráða hann til skólans sem fastakennara með byrjunarlaunum adjunkta.

Nefndin telur einnig rjett, að veittur sje styrkur til útgáfu kenslubóka á íslensku í veraldarsögu handa mentaskólanum. Hafa nú þegar verið skrifaðar fornaldarsagan og miðaldarsagan, og er nú fenginn útgefandi að þeim. Er þá aðeins nýja sagan eftir. Leggur nefndin með því, að sá styrkur verði veittur, því að brýn nauðsyn er að fá lokið þessu verki, og hinsvegar ómögulegt að fá kenslubækur gefnar út nema með því að efa með þeim.

Fyrir þinginu liggur nú frv. um að lengja námstímanum við ljósmæðraskólann. Jafnframt þessu er farið fram á launalækkun fyrir verklega kenslu. Fær fjvn. ekki sjeð, að sanngirni sje að lengja kenslutímann um en lækka jafnframt launin. Leggur hún því til, að launin til verklegu kenslunnar sjeu hækkuð úr 600 kr. í 900 kr. Jafnframt leggur nefndin til, að verðstuðulsuppbót verði reiknuð af styrknum til námskvenna. Stjórnin kveðst ekki sjá sjer fært að veita hana nema heimild sje til þess gefin af fjárveitingavaldinu. 45 kr. á mán. er alt of lítið, enda þótt námstíminn væri ekkert lengdur. Leggur nefndin því til, að styrkurinn verði hækkaður úr 6000 kr. í 7280 kr. Er þar gert ráð fyrir, að tala námskvenna sje hæst 12 á ári hverju.

Kvennaskóli Reykjavíkur hefir nú starfað í 50 ár. Í tilefni af því hefir skólanefnd óskað þess, að skólinn yrði tekinn í tölu ríkisskóla. Hæstv. stjórn hefir ekki sjeð sjer fært að mæla með því, þótt hún viðurkenni fyllega hið mikla gagn, sem skólinn hefir unnið. — Í raun og veru má telja þennan skóla vera landsskóla. Árið 1922–23 voru í honum 94 stúlkur. Nú eru þær 114; 24 við hússtjórnarnám. 61 af stúlkunum eiga heimili utan Reykjavíkur. Eru þær úr öllum sýslum landsins. — Nefndin leggur til, að styrkurinn til skólans verði aukinn, því að þrátt fyrir mikla sparsemi og staka gætni í allri fjárstjórn, er hagur skólans erfiður.

Húsaleiga, sem skólinn verður árlega að greiða, nemur 7600 kr. Fara nú fram nýir samningar, en vonlaust mun vera að fá leiguna lækkaða nokkuð. Leggur fjvn. því til, að skólanum verði veittur sjerstakur húsaleigustyrkur að upphæð 2000 kr., því skólann verður að telja hins besta maklegan, og í raun og veru er styrkur sá, sem nefndin leggur til, að honum sje veittur, skorinn alt of mikið við nögl.

Þá er Flensborgarskólinn. Leggur nefndin til, að orðin „gegn 3000 kr. tillagi annarsstaðar frá“ falli burtu. Hefir hv. 2. þm. G.-K. (BK) sýnt nefndinni fram á, að á sínum tíma var skólinn tekinn í tölu landsskólanna. Lítur hann svo á, að skólinn sje ríkisskóli, og beri ríkissjóði því að hafa af honum veg allan og vanda. Í núgildandi fjárlögum var það skilyrði sett, að nemendur úr Hafnarfirði skyldu greiða sama skólagjald eins og við ríkisskólana. Það er ekki til þess ætlast, að þetta gjald renni í ríkissjóð, heldur renni það til skólans. Nefndinni hefir verið tjáð, að 1200 kr. af skólagjaldi nemendanna hafi verið greitt í ríkissjóð. Nefndin leggur til, að skilyrðið um 3000 kr. fjárframlag annarsstaðar frá falli burt, en ákvæði verði sett inn um, að skólagjaldið skuli renna í skólasjóð.

Brtt. við 14. gr. B. XVIII 1, um sundkenslu, er dálítil orðabreyting, sem óþarfi er að fjölyrða um.

Hv. Nd. lækkaði launin fyrir aðstoð við Þjóðmenjasafnið úr 2400 kr. í 1200 kr. Þykir fjvn. Ed. þar of langt gengið, jafnvel þótt sýningartími safnsins sje styttur. Fer nefndin fram á, að liðurinn verði hækkaður að minsta kosti upp í 1600 kr.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til útgáfu Fornbrjefasafnsins sje bundinn því skilyrði, að lokið verði við að semja registur við 11. bindi. 11. bindi markar þýðingarmikið spor í útgáfu þessa rits. Prófessor Páll Eggert Ólason hefir látið í ljós það álit sitt, að hjer eftir ætti ekki að semja registur við hvert bindi, heldur væri heppilegast að semja registur fyrir hver 3–4 bindi saman.

Þá hefir hv. Nd. fært allverulega niður styrk til þeirra manna, sem vinna að undirbúningi vísindalegrar íslenskrar orðabókar. Laun Jóhannesar L. L. Jóhannssonar hefir hún lækkað úr 7000 kr. niður í 4000 kr., og styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar málfræðings úr 1800 kr. í 500 kr. Báðir þessir menn hafa borið sig upp undan þessu við nefndina. Sjera Jóhannes var upphaflega fenginn hingað suður til að undirbúa þetta verk, og hafði hann fylstu ástæðu til að ætla, að hann fengi að halda þeim starfa framvegis. Hann hefir að vísu haft sæmileg laun, þar til nú, að hv. Nd. hefir gengið of langt í því að skera þau við neglur sjer. Maður þessi er nú kominn yfir sextugt, en hefir þó fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Væri ilt, ef hann þyrfti nú að leita sjer annarar atvinnu en þeirrar, að sýsla við þennan starfa sinn. En af því að hv. Nd. hefir felt till. um, að hann fengi 5500 kr., hefir nefndin ekki viljað fara lengra en að leggja til, að hann fái 5000 kr. þóknun, þó að hún telji vafasamt, að hann komist af með þá upphæð.

Þórbergur Þórðarson hefir einnig snúið sjer til nefndarinnar og óskað þess, að styrkur til sín yrði heldur alveg feldur niður en að hann yrði aðeins ákveðinn 500 kr. Segist hann ekki sjá sjer fært að vinna áfram að þessu verki sínu fyrir svo lága þóknun. Hann hefir undanfarin ár lagt mikla alúð við að safna orðum úr alþýðumáli, sem væntanlegri orðabók verður án efa mikill styrkur að. Hefir hann í þessu skyni staðið í brjefaskiftum við fjölda manna víðsvegar um land, og einnig samið leiðarvísi handa þeim til að fara eftir við orðasöfnunina. Má búast við góðum árangri af þessu starfi hans. Nefndin sá þó ekki fært að fara hærra en upp í 1200 kr., en væntir þess líka, að hv. deild telji það síst of hátt farið, þegar búast má við, að hann geti ekki sint þessu starfi fyrir minni borgun.

Þá hefir Guðm. Bárðarson kennari á Akureyri snúið sjer til nefndarinnar og tjáð henni, að þegar hann var fenginn til að taka við kennarastöðunni við gagnfræðaskólann þar, sem hann nú gegnir, þá hafi honum verið lofað því, að hann skyldi fá að halda framvegis þeim 1800 kr. styrk til vísindaiðkana, sem hann áður hafði, og þykir mjer sýnt, að hann hafi haft fullkomna ástæðu til að ætla, að svo yrði.

Nú er það alviðurkent, að maður þessi sje ágætur kennari og mjög merkur vísindamaður. Hefir hann tjáð nefndinni, að hann sæi sjer ekki fært að verða áfram við skólann, ef kjör sín yrðu gerð lakari en þau nú eru. Hann hefir fyrir mikilli ómegð að sjá og segist nú hafa eytt því, sem hann fjekk fyrir bústofn sinn, er hann seldi, þegar hann fór til Akureyrar. Reyndar á hann enn jörðina, sem hann bjó á, en segist ógjarnan vilja eta hana upp líka, heldur muni hann reyna að fara að basla við búskap aftur, ef þessi styrkur til hans verði rýrður eða afnuminn. Nefndin telur það mikinn hnekki fyrir skólann að missa Guðmund, og vill því leggja til, að styrkurinn verði færður upp í 1800 kr.

Í fjárlögum hefir lengi staðið 500 kr. styrkur til landskjálftarannsókna með þeirri aths., að hann skyldi því aðeins borgaður út, að slíkar rannsóknir færu fram. En undanfarið hefir fje þetta ekki verið notað, vegna þess, að enginn hefir fengist til að fást við rannsóknirnar fyrir svo litla þóknun. Landskjálftamælir sá, sem hjer er geymdur, er eign þýsks fjelags, og hefir verið talað um að heimta hann aftur út úr landinu, vegna þess að hann er ekkert notaður — og væri það mjög illa farið. Forstjóri veðurathuganastöðvarinnar býst við því, að athuganir gætu farið fram með mælirinn, ef til þess yrðu veittar 800 kr., í stað 500, og fjelst nefndin því á að leggja það til.

Þá hefir hv. Nd. fært stórkostlega niður styrkinn til veðurathuganastöðvarinnar, eða niður í 20 þús. kr. Forstjórinn hefir skýrt nefndinni frá því, að engin tiltök væru að halda áfram veðurathugunum í nokkurri líkingu við það, sem nú er, ef meira fje yrði ekki veitt til þess. Telur hann, að varla verði komist af með minna en 28–30 þús. kr., nema þá að slitið verði öllu sambandi milli þessarar stofnunar og samskonar stofnana erlendis. Álítur nefndin það mjög illa farið, ef til þess þyrfti að koma, og þó að fjárhagur landsins sje þröngur nú, þá verðum við að vona, að hann batni áður en langt um líður, og væri þá leiðinlegt að vera búinn að brjóta þessi sambönd af sjer, sem eru afarmikils virði fyrir allar veðurathuganir. Nefndin hefir því lagt til, að styrkur þessi verði ákveðinn 26 þús. kr. Er hún að vísu ekki viss um, að sú upphæð nægi, en vill vona, að stjórnin sjái sjer fært að greiða alt að 30 þús. kr. í þessu skyni. En leggja vill nefndin áherslu á það, að hins ýtrasta sparnaðar sje gætt í rekstri þessarar stofnunar og ekki kostað meiru til en bráðnauðsynlegt er, til þess að veðurathuganirnar geti orðið okkur til sóma og sambandinu við erlendar veðurfræðistofnanir verði ekki slitið.

Þá kem jeg að þeirri till. nefndarinnar, að styrkurinn til Hólmgeirs dýralæknis Jenssonar verði hækkaður úr 500 kr. upp í 700 kr. Er hjer ekki um háa upphæð að ræða. Hólmgeir hefir starfað sem dýralæknir frá því árið 1896. Þá fór hann til Noregs, styrktur lítilsháttar af sýslusjóði og lagði þar stund á þessar lækningar. Síðan hefir hann starfað að þeim hjer heima og er nú orðinn slitinn að kröftum og þolir illa mikið erfiði. Hann fór fram á að fá 1000 kr., en nefndin sá ekki fært að hækka styrkinn nema upp í 700 kr. Nemur sú hækkun sem næst verðstuðulsuppbót á 500 kr.

Nefndinni þykir óviðkunnanlegt, að styrkurinn til heimilisiðnaðarfjelaganna. 6000 kr., skuli vera veittur með þeirri athugasemd, að Halldóra Bjarnadóttir skuli fá af honum 2000 kr. og 600 kr. gangi til handavinnuskóla á Akureyri. Nefndin leggur áherslu á hið stórþarfa verk, sem fjelögin hafa unnið og munu framvegis vinna, og vill því, að þau fái að ráðstafa sjálf þeirri upphæð, sem hv. Nd. vill veita þeim. Hinsvegar vill nefndin veita Halldóru Bjarnadóttur sjerstakan styrk, til þess að halda áfram starfsemi sinni, sem hefir þegar komið að miklu liði, og leggur hún til, að upphæðin verði ákveðin 1200 kr.

Vörumerkjaskrásetjaranum voru í núgildandi fjárlögum veittar 1600 kr. sem þóknun fyrir starfa sinn, og sama upphæð var áætluð í þessu skyni í fjárlagafrv. þessu, einkum með tilliti til þess, að starfið er orðið svo umfangsmikið, að hann getur ekki lengur unnið að því heima hjá sjer, heldur verður að flytja sig með það út í bæ. Stendur hann nú í samningum, í fjelagi við annan, að fá eina stofu í Landsbankahúsinu nýja fyrir skrifstofu. En þá kemur hv. Nd. Alþingis og færir þóknun hans niður í 800 kr. Þetta þótti nefndinni of langt gengið og vill fara bil beggja með því að leggja til, að ákveðnar verði 1200 kr. í þessu skyni.

Þá kemur liður, sem ekki mun minst á í nál. Er það till. nefndarinnar um að veita hjónunum í Hítardal 1000 kr. í eitt skifti fyrir öll. Þessi hjón fluttust árið 1910 vestan úr Dölum að Hítardal og byrjuðu búskap þar. Á þeim 13 árum, sem síðan eru liðin, hafa þau eignast 10 sonu, og eru þeir sinn á hverju árinu. Þetta er mjög mikil viðkoma, og eru sveinarnir hinir efnilegustu, að kunnugra sögn. Er ómögulegt annað en dást að því, hvernig hjón þessi hafa, með höndum sínum einum, unnið fyrir öllum þessum barnahóp, án nokkurs styrks af opinberu fje. Að vísu hafa þau átt góða nágranna að, sem oft hafa rjett þeim hjálparhönd, en nú er svo komið, að búist er við, að þau verði að leita til sveitarinnar, ef þau fá ekki hjálp annarsstaðar frá. Prófastshjónin á Staðarhrauni, sem eru nágrannar þeirra og hafa reynst þeim mjög vel, hafa tekið sjer fyrir hendur að reyna að forða því, að heimilið komist á vonarvöl og verði ef til vill leyst upp og börnin send sitt í hverja áttina. Hafa þau snúið sjer til Alþingis með beiðni um styrk í þessu skyni. Segja þau, að Hítardalshjónin hafi barist svo einarðlega, að einsdæmi sje. T. d. má nefna það, að í vetur var tekinn þangað heimiliskennari um tíma og 4 börn úr sveitinni, til þess að njóta kenslu hans. Hafði konan ein þjónað og matreitt handa þeim 17 manns, sem þá voru í heimili á bænum. Nefndinni dylst það ekki, að hjer er gengið inn á viðsjárverða braut, en hún getur ekki annað en lagt til, að þessum heiðurshjónum verði í eitt skifti fyrir öll sýnd viðurkenning fyrir dugnað sinn. Prófastsfrúin frá Staðarhrauni, sem átti tal við nefndina, sagði, að ef styrkur þessi fengist, væri hægt að fá svo mikið annarsstaðar frá, að fjölskyldunni væri borgið, ef ekkert alveg óvænt kæmi fyrir. Telur nefndin rjett, að þingið stuðli að því, að svo megi verða.

Þá vill nefndin veita Bjarna Magnússyni fangaverði í Stykkishólmi 800 kr. þóknun í eitt skifti fyrir öll. Hann hefir nú verið fangavörður þar í Hólminum um 15 ára skeið og ekki borið úr býtum annað en ókeypis íbúð í loftherbergi í fangahúsinu, sem að kunnugra dómi getur varla talist mannabústaður. Þessi þóknun svarar til þess, að hann hefði fengið 50 kr. á ári fyrir starfa sinn, og verður það varla talin rífleg borgun.

Þá hafa tvær prestsekkjur snúið sjer til nefndarinnar með beiðni um lítilfjör legan styrk til barna sinna, sem enn eru í ómegð. Þær eru Sigrún Kjartansdóttir, ekkja sjera Gísla Jónssonar á Mosfelli í Grímsnesi, og Valgerður Gísladóttir, ekkja sjera Magnúsar Þorsteinssonar á Mosfelli í Mosfellssveit. Frú Sigrún hefir áður fengið styrk með börnum sínum, og hefir hv. Nd. nú samþykt 100 kr. með hvoru þeirra. En nú á ekkja þessi sjerstaklega örðugt uppdráttar; hefir orðið fyrir miklum áföllum á síðasta ári. Fyrst veiktist hún sjálf og varð að leggjast á spítala. Kostaði sú lega hana um 400 kr. Þá fjekk eitt barna hennar, sem var enn í ómegð, berklaveiki, sem leiddi það til bana. Kostaði útför þess og veikindi móðurina um 700 kr. Sjálf er hún mjög farin að heilsu og útslitin og er á engan hátt fær um að vinna fyrir þessum 2 börnum án hjálpar. Nefndin leyfir sjer því að leggja til, að styrkurinn með hvoru barni hennar verði hækkaður um 100 kr., eða upp í 200 kr. Munar þessi hækkun ríkissjóð litlu, en ekkjunni kemur hún að miklum notum.

Hin ekkjan, frú Valgerður Gísladóttir, á fyrir 3 börnum í ómegð að sjá, og eru þau í sveit, en hún vinnur fyrir þeim hjer í Reykjavík. Telur hún það ódýrara. Er hún blásnauð, eins og reyndar báðar umræddar ekkjur, því að menn þeirra áttu varla fyrir skuldum, þegar þeir fjellu frá. Vill nefndin því mæla með því, að frú Valgerði verði veittur 100 kr. styrkur með hverju þeirra þriggja barna hennar, sem enn eru í ómegð, eða samtals 300 kr. M. ö. o., nefndin vill veita 500 kr. í viðbót til beggja þessara ekkna; og þó að hagur ríkissjóðs sje bágborinn, þá skiftir þessi upphæð aldrei miklu máli.

Þá leggur nefndin til, að 100 kr. til Guðmundar Björnssonar falli niður. Hún efast að vísu ekki um heiðarleik eða þörf þessa manns, sem hefir verið kennari. En henni þykir það varhugaverð braut, að veita öllum kennurum sjerstök eftirlaun, sem um þau biðja.

Loks er að minnast á Árna Th. Pjetursson, sem svo mjög hefir verið talað um hin síðari árin. Nefndin leggur til, að honum verði gefið til kynna, að þetta sje lokastyrkur; þessum greiðslum til hans verði hætt. Honum hefir enn ekki verið veitt embætti og nefndin hefir altaf litið svo á, að ekki hafi verið hægt að áfella stjórnina fyrir meðferð sína á honum, og þá á hann enga kröfu til ævarandi eftirlauna úr ríkissjóði.

Þá kem jeg að síðustu brtt. nefndarinnar, við síðari málsgrein 23. gr. frv., að heimildin til Landsbankastjórnarinnar um að greiða vexti og afborganir fyrir Skeiðaáveituna, falli niður. Nefndin vill að vísu ekkert um það dæma, hvort þessar greiðslur sjeu rjettmætar eða ekki, en álítur hinsvegar, að ekki sje rjett af þinginu að stjórna Landsbankanum í nokkrum verulegum atriðum með slíkum ákvæðum í fjárlögum. Og því fremur ber nefndin þessa till. fram, að þegar stjórn bankans var að því spurð, hvort hún hefði óskað eftir þessari heimild í fjárlögunum, þá svaraði hún, að það væri langt í frá; það hefði ekki verið minst á þetta ákvæði við sig.

Jeg læt hjer staðar numið að sinni og bið hv. deild afsökunar á því, hversu sundurleitir þessir þankar hafa verið, því að sem sagt, jeg hefi ekki haft neinn tíma til að undirbúa langa eða ítarlega framsögu.