15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Jón Sigurðsson:

Það hefir verið lagt einkennilegt kapp á það af þremur hv. þdm., hv. þm. Str., hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. S.-M., að sýna fram á það, að þessi eina símalína í frv., Núpslínan, eigi fullkominn rjett á sjer, en aðrar ekki. Hún ein sje nauðsynleg og hana eigi að samþykkja, en vísa hinum til hæstv. stjórnar. Þetta gefur mjer ástæðu til þess að athuga það nokkru nánar, hvaða ástæður það sjeu, sem mæla svo sjerstaklega með þessari línu, fremur öllum öðrum. Jeg hefi ekki heyrt neina aðra ástæðu færða fram en þá, að þarna sje skóli og fjölmenni saman komið á þessum stað. En það útilokar ekki, að aðrir hafi eins mikinn rjett til síma, eða meiri auk heldur. Það má líka benda á það, að þetta línustæði hefir ekki verið rannsakað fremur en ýms önnur, sem nefnd eru í brtt. við þetta frv. Þó hv. þm. V.-Ísf. segi, að kunnugir menn viti, að ekki sje um aðra leið að ræða en þá, sem gert er ráð fyrir í frv. hans, þá þykir þessum sömu hv. þm. slík umsögn kunnugra ekki nægileg, a. m. k. ekki, þegar um aðrar línur er að ræða, og er þá ljóst, af hverjum toga slíkur málaflutningur er spunninn.

Aftur hefi jeg ákveðin ummæli landsímastjóra fyrir því, að ekki sje um aðra leið að ræða fyrir símalínu þá, sem jeg hefi borið hjer fram með brtt. minni við þetta frv. Og jeg vil skjóta því undir dóm hv. deildar, hvort ekki sje eins þarft og nauðsynlegt að koma heilu, allfjölmennu sveitarfjelagi í samband við umheiminn, og þó fyrst og fremst í samband við lækni, sem annars er mjög erfitt að ná til að vetrarlagi, eins og að leggja síma handa þessum skóla.

Jeg skal að endingu geta þess, að þótt óskir um þennan síma liggi ekki fyrir í þingmálafundargerðum, þá hafa þær verið fluttar á almennum sveitarfundi, og óskað eftir því, að línan yrði nálega helmingi lengri en hjer er gert ráð fyrir, því eins og jeg tók fram við 2. umr., vildi jeg af fjárhagsástæðum ekki fara fram á meira en að línan næði aðeins yfir heiðina, eða stystu leið til þess að hún gæti komið Skagamönnum að notum.

Jeg er ekki með þessu að mæla á móti Núpslínunni. En jeg þykist hafa sýnt fram á, að það nær ekki nokkurri átt að staðhæfa, að hún sje eina línan af þeim, sem hjer ræðir um, sem eigi rjett á sjer.