20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. GK. (ÁF) sagði um aukna strandgæslu, því að jeg er alveg á sama máli um það, að einmitt aukin strandgæsla er það eina, sem getur komið að fullu haldi í þessu efni. Og jeg vil taka það fram til maklegs lofs hv. þm. Borgf. (PO), að enginn hefir hjer á þingi barist betur fyrir því máli en hann. Eina róttæka lausnin á málinu er að kaupa sjerstakt, íslenskt strandvarnarskip. Og er síðasta þingi lauk, hafði jeg ætlað mjer að tefla á tæpasta vaðið um þetta mál. En er fjárlagsörðugleikarnir þrýstu að, þá sá jeg mjer enganveginn fært að ráðast í skipakaupin. Áætlanir og teikningu af slíku skipi hefi jeg aftur útvegað, en þær hafa ekki verið lagðar fyrir þingið, af því að jeg var nokkurnveginn viss um, að það hefði ekki sjeð fjer fært að ráðast í þetta mál nú. Jeg leyfi mjer í þessu sambandi að láta þess getið, að jeg skýrði dönsku stjórninni ítarlega frá því í utanför minni síðast, hve mál þetta væri þýðingarmikið fyrir þjóðina og hve mikið væri í það varið, að ötulir menn hefðu strandvarnirnar á danska herskipinu. Tók stjórnin mjög vel í þetta mál, og hefir hinn nýi fyrirliði á herskipinu nú byrjað með að taka 3 botnvörpunga, og er það góð byrjun.