20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ágúst Flygenring:

Hv. þm. Borgf. skildi mig alls ekki og reif orð mín út úr rjettu samhengi. Jeg sagði, að útgerðarmenn rækju skipstjórana óbeinlínis til að fiska í landhelgi. Óbeinlínis sagði jeg. Því skipstjórarnir eru reknir, ef þeir afla ekki vel, og eru því neyddir til að bjarga sjer sem best gengur. Og auðvitað er það, að landhelgisbrot skipstjóra eru ekki ókunnug útgerðarmönnum. Það er opinber leyndardómur, að loftskeytatæki og annað slíkt er fyrst og fremst haft á skipunum vegna landhelgisveiðanna. Veiðar í landhelgi verða líka að teljast vorkunnarmál. Gætum við setið á okkur að brjóta landslög, ef eins stæði á fyrir okkur og skipstjórunum, líf og velferð væri svo að segja í veði? Jeg efast um það. Það væri þá helst, þegar um væri að ræða mið opnu bátanna. Þá færu kanske að renna á okkur tvær grímur. En t. d. undir söndunum, þar sem enginn kemur á sjó, nei, þar gætum við ekki, einir af öllum, látið vera að skjótast inn fyrir línuna, því austur með söndunum, sem engar bátaveiðar eru hvort sem er, er það ofætlun, að ætlast til þess, að Íslendingar einir haldi sjer utan landhelgi, þegar fult er fyrir innan af útlendum togurum í miklum fiski; til þess er freistingin altof mikil.