22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Ágúst Flygenring):

Það er mjög stutt nál., sem fylgir þessu frv. Á því stendur aðeins að nefndin hafi ekki getað komið sjer saman um málið. Þrír nefndarmanna eru hreint á móti frv. og tveir að mestu leyti. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um afstöðu mína, því jeg gerði það þegar við 1. umr. Jeg tók það fram þá, að mjer þætti það hart að láta menn sæta svo þungri hegningu fyrir landhelgisbrot, á meðan eftirlitið væri annars svo ljelegt sem það er nú. Það fiska svo hundruðum skiftir af erlendum skipum hjer við land og öllsömul meira eða minna í landhelgi. T. d. skal jeg nefna það, að Þjóðverjar eru sökum útbúnaðar síns neyddir til að fiska þar næstum því eingöngu. Meðan svo er ástatt, þá getum við varla ætlast til að þessar fáu skútur, sem Íslendingar eiga ráð á, sitji bara hjá og horfi á, hvernig hinir háma í sig fiskinn á bestu miðunum. Þar skyldi meira en venjulega löghlýðni til. Nokkrir þeirra hafa líka sjálfsagt brotið landhelgislögin, af íslensku skipstjórunum, og matað krókinn innan landhelginnar. En þá er það mikil freisting, fyrir hina eða alla að gera þetta líka, þegar þeir fá því við komið, því hætt er við, og þeir óttast það vitanlega, að skuggi falli á veiðihepni þeirra, ef þeir til lengdar eru á verri miðum en hinir, og þar af leiðandi koma með verðminni eða rýrari afla, því auðvitað verður þá árangur þeirra lakari.

Nú er það vitað, að þeir, sem leiknastir eru að veiða í landhelgi, eru þannig útbúnir, að sáralítil hætta er fyrir þá, að í þá náist. Þeir, sem helst yrðu þá teknir og refsað, yrðu viðvaningarnir, þeir, sem sjaldnast brytu. Þeir yrðu þannig að bera syndir annara, bera þá refsingu sem væri einsdæmi hjer hjá okkur. Því þeir ættu ekki einasta að missa atvinnu sína, heldur og að fara í fangelsi. Þetta þykir mjer alt of hart að gengið. Þótt jeg geti vel skilið gremju þeirra manna, sem verða fyrir barðinu á þessum veiðilögbrjótum, þá get jeg samt ekki afsakað hitt, að láta 1/1000 þessum mönnum verða fyrir svo óhæfilega harðri refsingu. Það má auðvitað lengi deila um það, hve harðar refsingar eigi að vera, en um hitt verður ekki deilt, að þessi refsing yrði harðari en nokkur önnur slík ákvæði í lögum þessa lands. Það eru ekki einasta þessi 20 þús., sem gjalda á í sekt, heldur verða sökudólgarnir að láta af hendi bæði afla og veiðarfæri. Mjer finst nú, að þetta ætti að vera nægilegt, þótt fangelsi og atvinnumissi sje ekki bætt við. Það mundi og koma á daginn, að slíkar refsingar yrðu ekki til að draga úr brotunum. Sje þetta gert í því skyni, þá þarf ekki annað en að líta til reynslunnar til að sjá, að slíkt hefir oftast borið öfugan árangur. Ströng hegningarákvæði hafa oftast orðið til að fjölga afbrotamönnunum, en ekki til að fækka þeim.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en bara endurtaka það, að jeg vil ekki refsa íslensku skipstjórunum svo þunglega fyrir þetta, á meðan ekki er hægt að hafa hendur í hári eins þúsundasta af þeim útlendingum, sem fremja sömu brotin.