22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Við erum 2 í nefndinni, sem fylgjum þessu frv., jeg og hv. 2. þm. Reykv. (JBald), og mun hann gera grein fyrir skoðun sinni síðar, þar sem hann hefir nokkra sjerstöðu.

Hv. frsm. meirihl. (ÁF) hefir nú lýst því, átakanlega mjög, hve mikill ágangur sje á landhelgina af togurunum. Jeg býst því við, að þeim, sem heyrt hafa mál hans, þyki eðlilegt, þótt fram hafi komið hávær krafa um að reisa einhverjar skorður við þessu. Á þeim sömu forsendum sem hv. frsm. meirihl. byggir andstöðu sína gegn frv., vil jeg reisa kröfuna um, að tekið sje rækilega í taumana. Það má ekki eiga sjer stað, að höfuðatvinnuvegur landsmanna byggist á lögbrotum.

Hv. frsm. segir, að hegningin mundi helst lenda á þeim, sem minsta leikni hafi í því að brjóta lögin. Hjá slíku verður ekki komist. Allir vita, að slyngustu bófarnir sleppa helst, en þó hefir engum dottið í hug að nema þar fyrir úr gildi hegningarlögin. Jeg vil líka benda á það, að þessi refsing yrði mjög væg, borin saman við þá hegning, sem við er lögð svipaðri skerðingu á eignarrjetti manna á landi. Ákvæðin um refsingu fyrir truflun á atvinnurekstri manna á landi og eignaspellum eru svo hörð, að þótt þetta frv. verði samþ., verður hegning fyrir landhelgisbrot þó ekki sambærileg. Nú veit jeg ekki betur en að gerðar hafi verið ráðstafanir til að efla eftirlit með landhelginni og hækkaðar sektirnar, og er þá eitt eftir, að skipstjórar, sem valdir eru að brotunum, fái nokkra refsing fyrir framferði sitt. Jeg verð að líta svo á, að það hafi talsverða þýðingu, að refsingin komi ekki eingöngu niður á útgerðarfjelögunum, heldur og á hinum brotlegu skipstjórum. Þótt þeir hafi hjer til átt á hættu að vera reknir af stjórn fjelaganna, þá hefir sú hætta jafnan verið lítil fyrir góða skipstjóra, því þeir hafa getað fengið stöðu hvar sem er. Hagsvonin af að veiða ólöglega er svo mikil, að talsvert verður að koma í mót. Hjer er um að ræða tilfinnanlega skerðing á atvinnurekstri margra manna og eignum þeirra, og er bráðnauðsynlegt að gera alvarlegar ráðstafanir til að gæta betur rjettar þeirra en gert hefir verið til þessa. Það er á við mikla strandvörn, að sökudólgunum sjálfum sje ekki slept óhegnt.