22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Baldvinsson:

Jeg hefði getað fallist á frv. með lítilli breytingu, en jeg hefi ekki komið með þá brtt. við þessa umr., af því að jeg var ekki viss um, að frv. lifði af þessa umr. Mín sjerstaða er í því fólgin, að jeg vil miða þessa hegningu við þau svæði, sem dýrmætust eru fyrir smábátaútgerðina. Það myndi þá helst verða svæðið frá Reykjanestá að Horni. Eins og mönnum er kunnugt, hafa komið fram miklar umkvartanir um það, hvernig smábátaútgerðin hafi verið hart leikin á þessu svæði. Geri jeg ráð fyrir, að ekki svo lítill hluti af atvinnuleysi manna nú stafi af því, hvernig togararnir hafa eyðilagt aflabrögð smábátaútgerðarinnar. Jeg vildi því byrja með því að setja þessa refsingu við að veiða í landhelgi á þessum stöðum. Jeg get ekki sjeð því neitt til fyrirstöðu að leggja þyngri refsingu við landhelgisbroti á einum stað frekar en öðrum, ef brotin gera þar meiri skaða. Jeg mun nú, ef frv. lifir af þessa umr., koma fram með brtt. þessa efnis til 3. umr.

Það er kunnugt, að annarsstaðar eru misharðar refsingar lagðar við landhelgisbrotum, og það í sama landi, eftir því, hvað svæðin eru talin dýrmæt, og sje jeg ekki neitt því til fyrirstöðu, að sá siður verði einnig upp tekinn hjá okkur. Það má vera, að missir rjettinda sje harðara ákvæði en annars hefir tíðkast í okkar löggjöf. Jeg hygg, að ekkert væri á móti því, að herða á henni, einnig í öðrum efnum. T. d. teldi jeg alveg rjett, að bifreiðarstjórar, sem á sannast, að eru druknir við starf sitt, verði sviftir rjetti til að stýra bifreiðum um lengri eða skemri tíma eða fyrir fult og alt. Og það er þó alkunnugt, að slíkri refsingu er beitt í þessum efnum hjá öðrum þjóðum.

Mun jeg að minsta kosti greiða atkv. með frv. til 3. umr., og koma þá fram með tillögur mínar.