22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (2173)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Hæstv. forseti (JAJ) sagði, að dráttur þessa máls, síðan það kom úr nefndinni, væri alveg eðlilegur, eftir ástæðum. Það getur vel verið, að það sje eðlilegt, að þetta mál hefir fjórum sinnum verið tekið út af dagskrá, og nýjum málum stöðugt skotið fram fyrir það. En jeg hugsa samt, ef dagskrárnar væru athugaðar, þá mundi það koma í ljós, að ekkert mál hefði sætt annari eins meðferð. Og er það því alls ekki ófyrirsynju eða ástæðulaust, þó eg sje nokkuð tortrygginn um það, að ekki sje alt með feldu. —

Jeg gleymdi að geta þess áðan út af meðferð nefndarinnar á frv., að sama dag og hún fjekk það til meðferðar var til hennar vísað öðru frv., þessu náskyldu, um innheimtu tolls með gullverði, og var það afgreitt frá nefndinni tveim dögum síðar.

Háttv. þm. Ísaf. sagði, að aðalástæðan til þess, að meirihl. nefndarinnar snjerist gegn frv., hefði verið sú, að þar væri gert upp á milli íslenskra og erlendra togaraskipstjóra. Hann tók það fram, að ekki væri hægt að setja útlenda skipstjóra í fangelsi. Það er ekki rjett. Það er til ákvæði um það, og hefir staðið í 10–12 ár. Hitt ákvæðið, um rjettindamissi til skipstjórnar, er aftur nýtt, og það er það eina, sem er nýtt í frv. Og okkar valdsvið nær í því tilfelli ekki til útlendra skipstjóra. En erlendis gilda hliðstæð ákvæði, bæði í Englandi — og þar hafa þau lengi gilt — og í Þýskalandi, en þar eru þau nýleg. Þar gera fjelög þau, sem vátryggja gegn skaða af veiðum í landhelgi, það að skilyrði fyrir vátryggingu, að skipstjóri skuli missa rjett sinn um tíma, ef hann verður sekur um landhelgisbrot. Það skip, sem slíkur skipstjóri stjórnar, fær ekki vátryggingu með þeim sama skipstjóra fyr en langt er um liðið. — Úr því verið er að vitna til erlendra laga, er rjettt að þetta komi líka fram.