22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2185)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg mun ekki óska þess, að málið verði tekið út af dagskrá, og vil heldur láta skeika að sköpuðu, hvernig fari.

Þó vil jeg biðja hv. þm. að gleyma því ekki, að sjútvn. hefir á þessu þingi tekið mjög vel í ýms þau mál, sem landhelgisgæsluna varða, og t. d. fallist einróma á hækkun fjesekta fyrir landhelgisbrot. Þessi viðleitni hennar er allrar virðingarverð, og því er tæplega viðeigandi að bregða henni um áhugaleysi eða jafnvel um fjandskap við landhelgisgæsluna, þó nú hafi svo farið, að leiðir hafi skilið í þessu máli, sem hjer liggur fyrir.

Hv. 3. þm. Rv. (JakM) sagði í ræðu sinni, að í raun og veru væru botnvörpuveiðar í landhelgi leyfilegar gegn ákveðnu gjaldi, m. ö. o., að sektirnar væru skattur af lögbrotum, sem í sjálfu sjer væru heimiluð. En þá má eins segja, að lög heimili t. d., að mönnum sje gefið glóðarauga gegn ákveðnu gjaldi.

Það er satt að vísu, að ytra eru vátryggingarfjelög, sem tryggja gegn sekum, og gengur það ósvífni næst. Hjer er ekki hægt að koma upp slíku fjelagi. Það myndi ekki líðast, að hægt væri að tryggja sig fyrir afleiðingum af lögbrotum. En það eru einmitt þessi vátryggingarfjelög, sem halda uppi þeim nauðsynlega aga, sem hjer er til stofnað, að svifta skipstjóra skipstjórnarrjetti um tiltekinn tíma.

Sú hegning, sem felst í þessu frv., á sjer því einnig stað í öðrum löndum, þó þar sjeu það vátryggingarfjelögin, sem framkvæma hana, en ekki ríkisvaldið. Og jafnvel þó svo væri, að innlendum mönnum væri hegnt þyngra, þá væri það í sjálfu sjer ekki eins órjettlátt og virst getur í fljótu bragði, þegar þess er gætt, að þeir ættu að skilja landsmenn betur og þarfir þeirra og ættu að hala meiri samúð með bræðrum sínum í landi. Frá því sjónarmiði væri það í alla staði verjandi að láta þá sæta þyngri refsingu.