25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Þorleifur Jónsson:

Jeg hefi nú ekki undanfarið lagt neitt til þessa máls. En þar sem mjer finst brtt. hv. 2. þm. Reykv. mjög svo athugaverð, ætla jeg að leyfa mjer að fara um hana nokkrum orðum.

Jeg tel það mjög svo athugavert og varasamt að ganga inn á þá braut að gera mun á samkynja lögbrotum, hvort heldur er á sjó eða landi, eftir því, hvar þau eru framin. Jeg tel það blátt áfram geta verið háskalega braut.

Það er þá heldur ekki ýkjastór blettur af landhelginni, sem háttv. þm. (J Bald) ætlast til að verði það allrahelgasta, þar sem það er aðeins svæðið frá Reykjanesi að Horni. Alt hitt á að vera ófriðað að nokkru leyti. Gæti jeg trúað, að hv. flm. (JBald) hefði ekki athugað þetta sem skyldi, því að jeg sje ekki annað en þarna sje lögbrjótunum gefinn byr undir báða vængi með að brjóta á þeim svæðum, sem ekki ná til þau ákvæði, sem gert er ráð fyrir í brtt. hans.

Mjer heyrðist á ræðu hv. þm. (JBald), að hann teldi það skaðlítið, þó ekki væri sem best friðað fyrir söndunum. Þetta held jeg að sje skakt. Frá því að fornu og alt fram á þennan dag hafa smábátaveiðar verið stundaðar á þessu svæði. Í gamla daga voru útræði bæði í Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum, jafnvel í hverri sveit í Austur-Skafta- fellssýslu. — Síðan botnvörpuveiðarnar hófust, hefir fiskur mjög þorrið á þessu svæði, einkum á grunnmiðum. En jeg vil láta þess getið, að ennþá eru víðast hvar í hinum gömlu verstöðum á suðurströndinni nokkuð stundaðar fiskiveiðar, þótt misjafnt gangi. Úr Hornafirði stunda veiðar á vetri hverjum nú orðið milli 20 og 30 vjelbátar. Er hart að gera fiskimið þeirra ófriðhelgari en Faxaflóa og Vestfirði. Hitt játa jeg, að satt kunni að vera, að varnir sjeu af skornum skamti fyrir Vesturlandi. En þær þykja ekki heldur neitt sjerstakt afbragð austur með söndunum. Hafi á vertíðinni frjest til Reykjavíkur, að góður afli væri í Hornafirði, hefir alt fylst þar af togurum. Í fyrra vetur kom slík fyrirspurn austur, og af ógætni var því svarað, að afbrigðaafli væri kringum Hornafjörð. Daginn eftir var orðið þar fult af togurum innan landhelgi, og gerðu þeir mikið tjón á veiðarfærum bátanna.

Í vetur fjekk jeg skeyti um það að austan, að um 50 togarar væru að veiðum í landhelgi, út af Ingólfshöfða og austur með ströndinni. Heftu þeir göngu fiskjarins, og væri nauðsyn að varðskipið kæmi austur.

Jeg sneri mjer til stjórnarinnar og fór þess á leit við hana, að hún sæi um, að „Fylla“ færi austur. Hafði forsrh. um þetta bestu orð, en ekki veit jeg, hvaða árangur hefir af því orðið. En þess skal jeg geta, að það er mjög óvanalegt að sjá varðskipið þar eystra.

Annars held jeg, að við ættum einmitt að gera okkar ítrasta til að suðurströndin yrði sem best varin fyrir ágangi togara. Jeg er enginn fræðimaður um fiskigöngur eða háttsemi þeirra, en jeg man ekki betur en fiskifræðingurinn okkar, Bjarni Sæmundsson, hafi sagt, að við sandana væru einhver allra bestu hrygningarsvæði hjer á landi. Sje jeg því ekki annað en brýn þörf sje einmitt á að auka gæsluna þar. Hygg jeg, að ekki þurfi að verða neinn ágreiningur um það efni, og ætla jeg ekki að orðlengja meira um þetta. En till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) tel jeg sjálfsagt að fella.