25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2189)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Baldvinsson:

Jeg held, að mótmæli hv. þm. A.-Sk. gegn till. minni sjeu bygð á róttækum misskilningi, þar sem hann virtist halda, að í till. fælist, að öll önnur svæði kringum landið en það, sem ákvæði till. nái til, skuli standa opin fyrir botnvörpuveiðum. En jeg vil benda honum á, að landhelgislögin eru í fullu gildi eftir sem áður, þó að þessi till. verði samþ., og nú hefir meira að segja verið hert á ákvæðunum um sektir, þar sem eru lögin um, að þær skuli greiðast í gullkrónum. Í minni till. er aðeins farið fram á, að þyngri refsingarákvæðin nái einungis til brota á svæðinu frá Reykjanesi til Horns.

Auðvitað eru víða fiskimið utan landhelgi. En um þau mið þýðir ekki að tala. Þau eru í hershöndum. Er meira að segja vafasamt, að við getum komið því til leiðar, að Faxaflói verði með öllu friðaður.

Það má vel vera, að svæðið umhverfis Hornafjörð, og ef til vill fleiri, hafi jafnan rjett á sjer og Vesturland, en mjer er óhætt að fullyrða það, að á Vestfjörðum eru mótorbátaveiðarnar langalmennastar, og þar gera togararnir tilfinnanlegast tjón.

Samanburður á lögbrotum á sjó og landi nær ekki neinni átt, og þarf jeg ekki að fara frekar út í það atriði.