16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Aðeins örfá orð út af brtt. nefndarinnar við 23. gr., um að fella niður heimild bankastjórnar Landsbankans til að greiða til veðdeildarinnar af öðru fje bankans tveggja ára vexti og afborganir af veðdeildarláni Skeiðaáveitufjelagsins.

Það er ekki rjett, sem haldið hefir verið fram, að þetta hafi ekki verið borið undir stjórn Landsbankans, því að henni hefir verið skýrt frá, að fjelagið væri svo illa statt, að það gæti ekki borgað þetta, og ríkissjóður ekki heldur. Bankanum er því kunnugt um þetta, en sjálfsagt vill hann helst vera laus við þetta ákvæði. Jeg vil því mælast til, að heimild þessi fái að standa, þar sem hreppurinn er svo mjög illa staddur nú, en þetta myndi hjálpa honum, að minsta kosti í bili. Því að bændurnir á Skeiðunum þurfa að fá frið, að minsta kosti tveggja ára tíma, til þess að geta aukið bústofn sinn, og má þá vel vera, að þeim vaxi þá svo fiskur um hrygg, að þeir á eftir verði færari um að borga lán þetta. Er þetta því nokkurskonar tilraun til þess að reyna að hjálpa bændunum út úr þessum ógöngum, því að ekki getur komið til mála að láta Skeiðin fara í eyði fyrir það, að áveitan varð of dýr.

Hjer hefir nýlega verið útbýtt skýrslu um árangurinn af áveitunni, og má telja, að hann sje hinn glæsilegasti. Sje jeg því ekki annað, úr því að ríkissjóður er svo illa stæður að geta ekkert hjálpað, en að rjett sje að láta veðdeildina eða Landsbankann gera það.

Það var minst á áðan, að kostnaðurinn hefði verið áætlaður um 100 þús. kr., en orðið um 400 þús. kr. Þetta er satt. En þess ber að gæta, að frá því áætlunin var gerð og þar til verkið var framkvæmt, hafði öll vinna og annar kostnaður þrefaldast. Þetta vissu verkfræðingarnir vitanlega ekkert um, þegar þeir gerðu áætlunina. Í þessu liggur því hækkunin mjög mikið. Það er vitanlega satt, að hin mikið umrædda klöpp fanst ekki fyr en farið var að vinna verkið, en jeg læt ósagt, að hætt hefði verið við það, þó að hún hefði uppgötvast áður, því að vitanlega hefir allur vinnukostnaður við hana þrefaldast.

Jeg vil nú óska þess, að hv. fjvn. lofi heimild þessari að standa, því að eins og jeg tók fram áðan, er það tilraun til að hjálpa hjeraðinu, því að það nær engri átt, að stjórnin geti horft á, að svo hart sje gengið að hjeraði þessu, að það fari í eyði.