25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2191)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf ekki mörg orð um frv. nú. Við 2. umr. var það rætt svo ítarlega, að það ætti að vera orðið ljóst hv. þm. Ætla jeg ekki að endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, en þakka hv. þm. A.-Sk. fyrir það, sem hann hefir bætt við af rökum fyrir því, hve mikil nauðsyn er á, að landhelginnar sje sem vandlegast gætt, og að einskis sje látið ófreistað, sem stuðlar að því að friða hana. Jeg skal ekki vekja deilur, en þykir þó bera nauðsyn til að mótmæla till. hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um að vísa þessu máli til stjórnarinnar, sem vitanlega, eins og hjer stendur á, getur ekki verið í öðrum tilgangi gert en að koma málinu fyrir kattarnef. Vildi jeg ekki, að það yrði örlög frv., að því yrði kastað í þann drekkingarhyl. Þó það geti í ýmsum tilfellum verið heppilegt og rjettmætt að vísa málum til stjórnarinnar, þá á það ekki við um þetta mál. Stjórnin hefir heldur enga yfirlýsingu gefið um það, að hún ætli að sinna málinu, og að vísa því til hennar er aðeins tilraun til að koma því fyrir. Málið er fullundirbúið og upplýst að öllu leyti og þarf þessvegna ekki að fara til stjórnarinnar, sökum þess, að neitt skorti á um undirbúninginn. Nauðsynin á að auka öryggi bátaveiðanna er mönnum fullljós, og eins hitt, að ákvæði frv. styðja drjúgum að, að svo verði.

Vænti jeg þess, að þeir, sem stóðu með frv. við 2. umr. og voru meðmæltir því, að því yrði vísað til 3., standi eins með því nú og samþykki það við atkvgr. hjer í deildinni.