25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að segja það, að þótt hjer væri um það að ræða að setja refsiákvæði fyrir innlenda menn, sem er ekki unt að beita gagnvart útlendingum, þá væri það ekki rangt. Það verður að ætla, að innlendir skipstjórar beri betra skyn á það tjón en útlendingar, sem þeir eru að vinna með landhelgisbrotum, og er því ekki óeðlilegt, að þeir verði fyrir þyngri refsingu.

Það er ekki eðlilegt, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem aldrei hefir neitt við sjómensku fengist og leggur ekki hlustirnar við neitt nema það, sem skjólstæðingar hans, trollaraskipstjórarnir, hvísla að honum, viti það, sem sjómenn vita, að íslenskir skipstjórar ganga á undan útlendingum í landhelgisbrotum. Hv. þm. kvað þessi lög hafa verið brotin áður en íslenskir togarar komu til sögunnar. En allir sjómenn vita, að alveg hefir keyrt um þvert bak síðan íslenska togaraútgerðin hófst. Þetta er því sanngjörn leið, og er jeg sannfærður um, að reynslan mun sýna, ef frv. verður að lögum, að hjer er stigið spor í rjetta átt og að landhelgisbrotunum fækki ekki aðeins af hálfu íslenskra togara, heldur einnig útlendra.

Háttv. þm. (JakM) telur, að í þessu lýsi sjer hefndarhugur til skipstjóranna og að refsiákvæði, sem sjeu ranglát að almannadómi, geti aldrei verið uppeldisskóli á heiðarlega menn. Þau ákvæði, sem hjer um ræðir, eru rjettlát að almannadómi, og breytir það vitanlega alveg niðurstöðunni fyrir hv. þm., og þess, má því sannarlega vænta, að þessi ákvæði, sem hafa almenningsálitið með sjer, geti orðið góður og siðbætandi uppeldisskóli fyrir þá menn, sem leggja í vana sinn þann óheiðarleik að brjóta landslög og spilla veiði og veiðarfærum manna uppi í landsteinum.

Hv. þm. (JakM) talar nú mikið um að hækka sektirnar gífurlega. Nýlega lá fyrir frv. um allmikla hækkun á sektunum, sem er þó engan veginn svo mikil, að búast megi við, að hún hafi mikil áhrif á íslenska skipstjóra, og man jeg ekki til þess, að hv. þm. gerði neinar tillögur um hækkun frá því. Ef ætti að ganga þannig að verki, að sektirnar yrðu svo háar sem hv. þm. talar nú um, hygg jeg, að kveða mundi við annan tón hjá þessum sama hv. þm.