25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þess hefir verið getið til, að hefndarhugur liggi bak við þetta frv. Jeg vil mótmæla því, að nokkuð annað liggi í þessu máli heldur en að þeir menn, er lögin brjóta, fái svo þunga hegningu, að hún dragi úr lögbrotum eða kæmi í veg fyrir, að þeir fremdu nokkurt brot. Það væri þó ekki að ástæðulausu, að hefndarhugur gripi fátækan bónda, sem sjer togarana uppi í landsteinum sópa í burtu veiðarfærum hans og afla. En það má ekki kalla hefndarhug, að reynt sje að vernda rjettindi þeirra manna, sem standa varnarlausir gagnvart þessum ránsmönnum eins og rjúpa gagnvart fálka.

Það er ekki rjett, að mál þetta sje lítt undirbúið. Þráfalt hafa komið háværar kröfur um það, að refsingin við brotunum yrði aukin svo, að menn hættu að fremja þau. Fyrirmyndin er í útlöndum, þar sem samskonar hegningu er beitt. Ekki af ríkinu, heldur af vátryggingarfjelögum, sem eru þannig vaxin, að skömm er, að þau skuli vera til, fjelögum, sem vátryggja gegn tjóni, er kann að verða af lögbrotum, sem eru framin í öðru landi. Og er ekki von, að þeir, sem vernda vilja landhelgina, vilji nota þetta sama meðal til að sporna við ránskap. Þeir, sem talað hafa um útlendu vátryggingarfjelögin, hafa einmitt bent á, að þetta er það eina ráð, sem dugir. Það er nú búið að hækka sektirnar, svo að þýðingarlaust er að hækka þær meira. Það eina, sem dugir, er að klekkja á lögbrjótunum sjálfum. Að vísu stendur það ekki í okkar valdi að hegna erlendum skipstjórum á þennan hátt, en það er engu síður sjálfsagt að hegna okkar skipstjórum, enda mun almenningur dæma þá öllu harðara, sem og eðlilegt er. Þess ber líka að gæta, að innlend skip hafa hjer talsvert betri aðstöðu. Þau hafa flest loftskeytatæki og standa í sambandi við menn á landi og geta því ávalt vitað, hvað varðskipinu líður. Það er því rjettlátt, að þeir, sem betri aðstöðu hafa til að brjóta, sæti þyngri refsingu en hinir, sem ver standa að vígi. Það er og sjálfsagt, að aðalrefsingin bitni á skipstjóranum, þar sem það er hann, sem fremur brotið. Jeg get ekki heldur sjeð, að þetta sje of þung refsing. Að vísu skal jeg játa, að vera má, að ekki sje rjett að svifta brotlegan skipstjóra rjettindum til allrar skipstjórnar. Reyndar býst jeg við, að eins og nú er áskipað á flutningaskipunum, þá sjeu ekki miklar líkur til að slíkur skipstjóri gæti fengið stöðu á einhverju þeirra. En þó skal jeg ekki vera á móti brtt. þess efnis, ef hún kemur fram. Er það þó í rauninni ekki svo að skilja, að jeg vorkenni nokkuð manni, sem þrisvar hefir orðið uppvís að því að veiða í landhelgi, þó hann missi að fullu skipstjórnarrjett.