25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Sigurjón Jónsson:

Jeg vildi aðeins benda hv. þdm. á það, að það er ekki rjett, sem fram hefir komið nú hvað eftir annað, að togaraskipstjórarnir og togaraeigendur hjer í Reykjavík standi að baki í baráttunni gegn þessu frv. Jeg held að minsta kosti, að hv. þm. Borgf. ætti að vita, að slíku getur ekki verið til að dreifa um nefndina. Tel jeg með öllu ómaklegt að drótta þessu að okkur. (PO: Hv. þm. þarf þá ekki að taka það til sín, ef hann þykist ekki eiga það).

Jeg vil svo benda á það, að það er hið mesta ósamræmi í því að beita þessari refsingu við okkar skipstjóra, að svifta þá skipstjórarjettinum, en að útlendir. skipstjórar verði ekki harðara úti en það, að ef til vill fá þeir ekki að fara með skip frá sama fjelaginu. En eftir þessu frv. eiga skipstjórar okkar ekki einu sinni að fá að fara með flutningsbáta, ef þeir verða brotlegir. (ÁÁ: Þá er að koma með brtt. þess efnis!) Það er þeirra manna að laga þetta, sem hafa borið fram frv. eða fylgja því. Jeg vil annars taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að það mun vera hreinn hefndarhugur, sem hjer er að verki. Er jeg viss um, að hv. þm. gera sjer ekki fyllilega ljóst, hve ómannúðleg þessi refsiaðferð væri. Myndi hún og sjálfsagt mælast illa fyrir, og mundi því ekki njóta hinnar nauðsynlegu verndar almenningsálitsins. Myndi þetta ugglaust verða til þess, að skipin yrðu síður klöguð, og er þá mjög svo vandsjeð, hvað á ynnist við breytinguna.

Jeg mun af þessum sökum greiða atkv. með brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), til þess að stuðla til þess að hún kæmist á, ef svo færi, að frv. yrði samþ. En svo mun jeg greiða atkv. á móti því, að frv. verði afgreitt út úr deildinni.