18.03.1924
Efri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

89. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjá má af greinargerðinni fyrir þessu frv., er það flutt vegna tilmæla nokkurra hreppsnefnda í Suður-Múlasýslu.

Það hefir komið í ljós, að sveitarstjórnarlögin frá 1905 eru að ýmsu leyti ekki orðin viðeigandi, sjerstaklega í kauptúnum, sem eru hreppsfjelög út af fyrir sig. Sjerstaklega hefir það reynst óheppilegt að miða reikningsárið við fardagaárið. Eftir núgildandi lögum fer niðurjöfnun aukaútsvara í hreppunum fram í októbermánuði á haustin, og eindagi útsvaranna er 31. des. ár hvert. En það er sá tími, sem fólk á yfirleitt verst með greiðslur, og því mjög óheppilegur sem gjalddagi útsvaranna, einkum í þeim hreppum, þar sem sveitargjöld eru mest.

Í hreppi þeim, sem jeg á heima í, Neshreppi í Suður-Múlasýslu, sem hefir um 800 íbúa, hafa sveitargjöld numið frá 30–35 þús. kr. á ári. Það hefir líka venjulega farið svo, að mikill hluti útsvaranna hefir ekki fengist greiddur fyr en á næsta reikningsári á eftir, og það jafnvel ekki fyr en í júlí–septembermánuði á sumrin. Afleiðingin af því hefir orðið sú, að hreppurinn hefir orðið að greiða allmikið fje í vexti, sem hann annars hefði ekki þurft.

Sýslugjöld sama hrepps hafa undanfarin síðustu ár orðið rúmar 7000 kr., og þau gjöld verður altaf að greiða á rjettum tíma. Síðan þessi gjöld hækkuðu svo mjög — og hv. þdm. vita, að þau hækkuðu afarmikið vegna berklavarnanna — hefir hreppurinn ætíð orðið að greiða þau með lánum, og hreppurinn hefir þar að auki oft orðið að taka bráðabirgðalán til þess að greiða með önnur gjöld. Og alveg samsvarandi er ástandið í að minsta kosti 3 öðrum hreppum sýslunnar, en það er í Eskifjarðar-, Reyðarfjarðar- og Búðahreppum, enda hafa líka þeir hreppar lagt mesta áherslu á að fá breytingunni framgengt.

Jeg skal geta þess, að það er mitt álit, að sveitarstjórnarlögin sjeu að ýmsu öðru leyti orðin ekki viðeigandi, og tel æskilegast, að þau yrðu öll endurskoðuð, og breytt að ýmsu leyti. En jeg álít hinsvegar, að slík breyting þurfi svo mikinn undirbúning, að ekki sje hugsanlegt að koma henni í framkvæmd á einu þingi. En jeg lít hinsvegar svo á, að þessi breyting raski svo lítið aðalinnihaldi laganna, að það sje enginn ábyrgðarhluti fyrir þingið að samþykkja hana án frekari undirbúnings.

Á síðasta þingi kom fram í hv. Nd. frv., sem var mjög líks efnis og þetta frv., sem jeg ber nú hjer fram. Hv. allshn. athugaði það frv. og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri rjett að samþykkja það að órannsökuðu máli, en lagði til, að frv. væri vísað til ríkisstjórnarinnar, og það var gert. En stjórnin hefir ekki lagt neitt frv. um þetta efni fyrir þingið, eins og búast hefði mátt við, og þessvegna taldi jeg mjer skylt að flytja þetta frv. nú, vegna þess, að jeg tel nauðsynlegt, að breytingar þær, sem frv. felur í sjer, nái sem fyrst framgangi. Jeg vil ennfremur í þessu sambandi benda á eitt atriði enn, mínu máli til stuðnings, en það eru skattalögin. Þau lög gera ráð fyrir því, að framtal til skattaálagningar verði lagt til grundvallar við álagningu útsvara. Þessu er ekki gott að koma við, eins og nú hagar til.

Skattaframteljendur gefa skýrslur sínar í febrúarmánuði ár hvert. Það, sem hreppsnefndir hafa til grundvallar, við útsvarsniðurjöfnunina í októbermánuði á haustin, er því aðallega hagur manna við síðustu áramót. Það er yfirleitt ómögulegt fyrir hreppsnefndir að hafa nein not af því, þegar svo langt er um liðið.

Ef hinsvegar frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, væri samþ. og notuð sú heimild, sem í því felst til breytingar á reikningsárinu, þá væri þetta einmitt vel hægt, því í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að útsvörunum verði jafnað niður í febrúar, einmitt á þeim tíma, sem skattaframtal er gefið, og því mjög vel hægt að nota það. Jeg tel það þá innanhandar fyrir hreppsnefndirnar að fá upplýsingar, sem byggja mætti á. Að vísu verður að byggja á afkomunni á næstliðnu ári. Maður kemst aldrei nær en það. Og hvað komandi gjaldár ber í skauti, verður oss altaf hulið. Það má vel vera, að búningi frv. sje í einhverju ábótavant, en jeg ber þá það traust til hv. allshn., sem jeg óska að málinu verði vísað til að lokinni þessari umr., að hún lagfæri þá smíðagalla, sem á því kynnu að vera. En jeg hygg, að við nánari athugun komist flestir háttv. deildarmenn að þeirri niðurstöðu, að frv. sje ekki að ófyrirsynju fram borið nje óþarft. Eins og jeg hefi áður vikið að, kom fram í Nd. á síðasta þingi frv. svipaðs efnis. Var það þá flutt eftir ósk hreppsnefnda á Vestfjörðum. Sýnir það, að þetta er ekki einsdæmi um mitt kjördæmi, heldur mun það gilda um alt land. — Viðvíkjandi því, að þetta kynni að verða sýslunefndum óþægilegt, er einstakir hreppar tækju upp slíkt fyrirkomulag, þá er við því sleginn varnagli með 1. gr., þar sem ákveðið er, að breyting þessi komi aðeins til framkvæmda, ef sýslunefnd fallist á það. — Jeg get, vegna sjerstakrar aðstöðu minnar, þar sem jeg hefi um nokkur ár verið endurskoðari sýslureiknings Suður-Múlasýslu, dæmt um það, að það hefir þráfaldlega valdið ýmsum skekkjum og örðugleikum við reikningsfærslu og endurskoðun, að fardagaárið var notað sem reikningsár en ekki almanaksárið. Þetta hefir átt sjer stað með reikninga flestra hreppa sýslunnar, að meira eða minna leyti. Jeg veit, að þeir, sem fjallað hafa um þessi mál, skilja, hvernig á þessu stendur. Það leiðir af sjálfu sjer, að þegar reikningarnir eru ekki gerðir fyr en í október, þá er komið inn töluvert mikið af útsvörum, sem ekki voru greidd í reikningsárslokin. Veldur þetta talsverðri ónákvæmni, vegna þess, að allir reikningar eiga að miðast við fardagaárið. En mikið af gjöldunum ekki greitt fyr en gjaldárið er útrunnið. Það þarf því mikla nákvæmni við færslu reikninganna, svo að þetta valdi ekki skekkju. Jeg hefi einnig orðið þess var nú í mörg ár, að þetta hefir í nokkrum hreppum valdið tilfinnanlegum gjaldaauka í vaxtatjóni. Treysti jeg hv. deild til þess að athuga þetta nánar, og vænti þess, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að frv. eigi fram að ganga. Vil jeg ekki fjölyrða frekar um það nú, en býst við að fá síðar tækifæri til þess.