18.03.1924
Efri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

89. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Ólafsson:

Eins og háttv. flm. tók fram, kom í fyrra frá þáverandi þm. N.-Ísf. svipað frv. í Nd. Því var vísað til stjórnarinnar, og var ætlast til, að hún bæri það undir sýslunefndir. En svo var áliðið. þings, að það mun ekki hafa verið unt, þar eð ekki hefir náðst til sýslunefnda. Mun það því hafa verið gert nú í vetur.

Jeg er sammála hv. flm. um, að frv. er að sumu leyti til bóta; en jeg er honum ekki samþykkur í því, að niðurjöfnun skuli fara fram í febrúar. Hallast jeg að skoðun flm. frá í fyrra um það, að niðurjöfnun fari fram í apríl. Á þingmálafundum, sem jeg hjelt í vetur, kom mál þetta fram, og lögðu menn áherslu á, að niðurjöfnun færi fram í apríl, því að þá gæti hún stuðst við nýjar skattskýrslur. Hreppsnefndir telja óviðkunnanlegt, að skattskráin, sem þær verða að byggja á, sje orðin of gömul og margt orðið breytt á þeim tíma. En eftir því sem hv. flm. fer fram á, verður ekki úr þessu bætt með þessu frv., því að menn eru ekki skyldir að ljúka framtali fyr en í febrúarlok. Það er heldur ekki nóg að skila framtalinu, því að hreppsnefndir eiga engan aðgang að því, heldur aðeins að skránum, eftir að skattanefndir hafa unnið úr framtalsskýrslunum. En á hitt get jeg fallist, að betra muni vera að hafa almanaksárið fyrir reikningsár heldur en fardagaárið.