14.03.1924
Efri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

77. mál, seðlaútgáfuréttur ríkisins

Flm. (Björn Kristjánsson):

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg hefi leyft mjer að bera þetta frv. fram aðeins fyrir eigin reikning, án þess að bera það undir nokkurn flokk; ekki einu sinni þann, sem jeg tel mig til. Orsökin er sú, að mál þetta snertir alla jafnt, snertir allar stjettir landsins og getur því eftir eðli sínu ekki verið flokksmál, heldur á það að fá stuðning allra flokka. Því er engin ástæða fyrir mig nú, áður en frv. verður athugað í nefnd, að halda langa ræðu — og það því fremur, að frv. fylgir allítarleg greinargerð.

Saga seðlaútgáfu hjer á landi er ekki löng. Hún hefst árið 1885 með stofnun Landsbankans, þegar landssjóði er leyft að gefa út handa bankanum ½ miljón króna í ógulltrygðum og óinnleysanlegum seðlum, og var þessi upphæð síðan aukin upp í ¾ miljónar árið 1900.

Þannig stóð seðlaútgáfumálið til þess tíma, er Íslandsbanki var stofnaður með lögum frá 1903, en árið 1905 byrjaði hann að gefa út seðla. Fyrst framan af var banka þessum mjög gætilega stjórnað, sem sjá má m. a. af því, að fram að árinu 1915 hafði hann ekki gefið út nema kr. 2.205.590 í seðlum af 2½ miljón, sem hann mátti mest gefa út. Hafði útgáfa seðlanna farið smástígandi, eftir því sem gjaldmiðilsþörfin óx og menn lærðu að fara með peninga; en allrar varúðar gætt. En svo komu stríðsárin, sem rugluðu alla reikninga manna, jafnt í þessum efnum sem öðrum, og varð það til þess, að bankinn gaf út langtum meiri seðla en viðskiftalífi þjóðarinnar var holt, enda var þá kominn nýr aðalráðamaður að bankanum, sem leit svo á, að óhætt væri að gefa út svo mikið af seðlum sem eftirspurn krefði, og veita lán þeim, er um það, að heita mátti. Þessi maður var ekki einn um þessa skoðun. Hún var mjög algeng meðal erlendra fjármálamanna, og hafa fleiri en við Íslendingar orðið hart úti af þessum ástæðum. Hin of mikla seðlaútgáfa olli því, að menn „spekuleruðu“ of djarft og mistu margir hverjir það fje, er þeir höfðu grætt, á stríðsárunum.

Þingið, sem hafði ekki næga þekkingu á seðlabankamálum, gafst upp á því að hafa hemil á seðlaútgáfunni og afsalaði sjer öllu eftirliti í því efni í hendur stjórnarinnar árið 1919, og skyldi sú ákvörðun gilda til ársins 1921. Þingið 1921 tók því aftur upp afskifti af málinu og samþ. frv., þar sem mjög var þrengt að seðlaútgáfunni, með því að Íslandsbanka var gert að skyldu að innleysa eina miljón af seðlum sínum árlega, þar til hann hefði ekki meira í umferð en 2½ miljón — svo sem ákveðið hafði verið í upphafi. Úr því áttu seðlar hans að dragast inn, jafnháar upphæðir árlega, uns seðlaútgáfurjettur bankans væri útrunninn. Á þessu þingi gerðu menn sjer góðar vonir um, að dýrtíðin myndi fara að minka og seðlar landsins haldast í fullu verði, en, því miður, það hefir hvorttveggja brugðist.

Með lögum nr. 7, 4. maí 1922, er lögunum frá 1921 breytt í tveim atriðum. Annað er það, að gjald eftir seðla Íslandsbanka var lækkað. Hitt var, að af ótta við, að fyrir gæti komið seðlaþurð, var það vafasama ráð upp tekið að heimila Landsbankanum að gefa út, ef nauðsyn krefði, svonefnda „toppseðla“, sem máttu vera ógulltrygðir, óinnleysanlegir, og engin takmörk voru sett fyrir, hversu mikið mætti gefa út af þeim. Tel jeg mjög vafasamt, að sú ráðstöfun hafi bætt fyrir gengi ísl. kr. En, sem betur fer, hefir þó reynst svo til þessa, að lögin frá 1921 hafa dugað, svo að ekki hefir þurft að grípa til þessa Lokaráðs.

En nú er króna vor sífallandi, og hlýtur það að hafa nokkur áhrif á seðlaþörfina. Því má ekki dragast, að skapaður verði nýr grundvöllur, sem ekki er altaf verið að hringla með, og sem nær trausti erlendra fjármálamanna. Hvort rjett þykir að nota þennan grundvöll, sem felst í frv. þessu, á Alþingi nú að skera úr. Jeg hefi með frv. lagt það til málanna, sem jeg hygg tryggast í bráð og lengd.

Í frv. hefi jeg fylgt þeirri stefnu að spara sem mest. Því hefi jeg aðeins gert ráð fyrir einum forstjóra. Má vel vera, að ýmsir telji tryggara að hafa þá tvo, en þá yrðu vextirnir til ríkissjóðs af gullinu að vera eitthvað lægri. Vera má og, að sumum kunni að vaxa í augum að kaupa gullforðann, einkum fyrsta árið, þar sem gull er dýrt á móts við ísl. krónu. En þess ber að gæta, að gull er ekki hlutfallslega dýrara en aðrar nauðsynjar vorar, sem við verðum að kaupa erlendis. Og verði gengið inn á þessa braut, sem jeg tel illmögulegt að komast hjá, þá verður ekki komist hjá því að kaupa gull og örðugt að draga þau kaup.

Eftir fyrsta árið myndi gullforðaaukningin nema mest 300000 kr. á ári, þangað til Íslandsbanki hefir dregið inn seðla sína niður í 2½ miljón, ef eins mikið þarf af seðlum og nú er í umferð. Loks kemur til álita, hvort setja beri meira gull til tryggingar seðlum þeim, er í umferð eru, en sem svarar 30% af verðgildi þeirra á hinum ýmsu tímum, en það tel jeg þó varhugavert. Verði þessari reglu fylgt, má lækka gullforðann að mun — og sýnist ef til vill mega gera þetta á meðan seðlarnir eru óinnleysanlegir og gengi krónunnar lágt. Því þegar seðlarnir verða innleysanlegir, má gera ráð fyrir hærra verði á krónunni, og því hægara verður að kaupa gull þá.

Í frv. þessu er stefnt að því að draga sem mest úr „yfirspekulationum.“ Kemur sú viðleitni einkum fram í því að gera bönkunum seðlana ekki of ódýra.

Ennfremur er stefnt að því í frv. að gera seðlana sem tryggasta í augum útlendra fjármálamanna, svo að þeir geti haldið fullu verði sínu. En það munu þeir ávalt geta, þegar gullforðinn, sem þeir eru trygðir með, er orðinn 50%, því þá þurfa veðin, sem stofnunin hefir frá bönkunum, ekki að seljast nema fyrir hálfvirði, eða jafnvel minna, til þess að stofnunin sje skaðlaus, ef illa fer fyrir þeim. Jeg sje, að svo stöddu, eigi ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til fjhn., að lokinni þessari umr.