12.03.1924
Efri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

77. mál, seðlaútgáfuréttur ríkisins

Fjármálaráðherra (KlJ):

Þau ákvæði eru í 1. nr. 6, 31. maí 1921, að seðlaútgáfan hverfi til ríkissjóðs Íslands jafnóðum og Íslandsbanki dragi inn sína seðla. Og það var ennfremur ákveðið í sömu lögum, að fyrir 1. júní 1922 skyldi setja lög um það, hversu seðlaútgáfunni skuli komið fyrir. En á þinginu 1922 kom ekkert frv. fram um þetta, heldur var því frestað um eitt ár, og á þinginu 1923 var ákveðið, að fyrir 1. júní þessa árs skyldi vera komin lög um þetta efni. Jeg áleit því, að þetta mætti alls ekki dragast svona ár frá ári lengur, og vildi fá enda á þetta mál hið allra bráðasta. En það hefir þó reynst erfitt.

Jeg skrifaði stjórn Landsbankans brjef 17. október f. á., og fór þess á leit við hana, að hún kæmi með frv. í málinu, svo snemma, að stjórnin gæti lagt það fyrir þingið. Bankastjórnin tók þessu mjög vel. Fyrir miðjan janúar síðastliðinn átti jeg svo fund með bankastjórninni um þetta mál, og sagði hún þá, að málið væri mjög erfitt viðfangs, og kvaðst vilja bera sig saman við stjórn Íslandsbanka.

Mjer fanst þetta mjög eðlilegt, og sjálfsagt, að stjórnir bankanna gætu verið samhentar í þessu máli, og gaf því mitt samþykki til þess.

Samt hefir farið svo, að frv. er fyrst nú nýlega komið til mín, og sýnir það best, hve vandasamt málið hefir þótt.

En nú hefi jeg fengið frv. frá stjórn Landsbankans, þar sem gert er ráð fyrir því, að Landsbankinn fari með seðlaútgáfuna, og um skipulag hennar, en greinargerð vantar enn, svo jeg er ekki alveg viðbúinn að leggja það fram.

Það er því satt hjá hv. flm., að frv. er að vísu eigi komið fram ennþá, en það er alveg rangt hjá honum, að stjórnin hafi ekkert gert í málinu. — Annars talaði hv. flm. um hina „fráförnu“ stjórn, en það hefði nú sjálfsagt verið nóg að segja fráfarandi stjórn, því stjórnin er ekki farin frá ennþá, þótt hún hafi sagt af sjer.

Það er ekki stjórnarinnar sök, þótt málið sje ekki komið lengra en þetta. Hún hefir gert sitt til þess að flýta fyrir því, en það má hinsvegar vera, að hv. flm. hafi eigi verið kunnugt um það, en furðu fljótur hefir hann orðið á sjer í þessu máli, eins og reyndar hefir átt sjer stað um fleiri flokksmenn hans á þessu þingi.

Jafnskjótt og greinargerðin kemur, verður frv. prentað, og vænti jeg þess, að það verði bráðlega.

Jeg er hv. flm. sammála um það, að frv. þessu skuli vísað til fjhn., og mun jeg þá líka afhenda fjhn. mitt frv., og getur þá hv. nefnd valið það frv., er henni líkar betur, eða jafnvel tekið nokkurt tillit til beggja. Jeg styð því till. hv. flm. um það að vísa málinu til fjhn.