14.04.1924
Efri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

77. mál, seðlaútgáfuréttur ríkisins

Frsm. 1. hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg vil fyrst leiða athygli að því, að prentvilla er í fyrirsögn frv. — Það á að heita „um seðlaútgáfu ríkisins,“ en ekki um seðlaútgáfurjett ríkisins.

Jeg bar þetta mál fram á miðju þingi, sem annan aðalþáttinn í að gera tilraun til að hefja krónu okkar, og hann ekki þann veigaminni.

Jeg taldi nauðsynlegt, að gera það. þar sem engin hreyfing var komin á það mál þá. Traustið á krónu okkar eða gjaldmiðli fer auðvitað eftir því, hvernig við búum gjaldmiðilinn til hversu miklu við verjum til hans.

Í símsk. frá 16. mars segir, að Frakkar hafi tekið 100 miljón dollara lán í Ameríku til þess að búa sjer til verðmætan gjaldmiðil, vitanlega til þess að vinna seðlum sínum braut. En þeir voru að hríðfalla. Alveg eins þurfum við að fara að, er við búum til nýja seðlastofnun.

Þar sem lagt er til að vísa báðum seðlafrv. til hæstv. stjórnar, þá er engin ástæða til fyrir mig að skýra þau frekara en gert er í nál. þeim, sem jeg hefi látið fylgja báðum frv. Aðeins vil jeg mælast til þess, að hæstv. fjrh. láti þýða bæði frv. með athugasemdum og nál. á dönsku eða sænsku, til þess að geta fengið óvilhallan dóm seðlabankafróðra manna um frumvörpin, og ráð þeirra um það, hverja leið á að halda í þessu máli. En auðvitað mega þessir sjerfræðingar eigi gleyma legu landsins og hversu afskekt það er, nje því, hversu lítil gróðavon er að því að gefa út seðla í svo fámennu landi, ef seðlaútgáfunni á altaf að stilla í hóf. En það er aðalatriðið. Mitt álit er, að eigi sje hægt að gefa út bankaseðla í öðru skyni en að gera viðskiftin þægilegri fyrir almenning.

Jeg hefi eigi í nál. bent á leiðirnar til þess að fá lán. Jeg hefi sem sje gengið út frá því, að landið væri eigi svo heillum horfið, að það gæti eigi fengið lán í þessu skyni. En væri svo, þá væri vegurinn að fara að eins og Danir gerðu um 1818, er þeir stofnuðu þjóðbanka sinn, sem sje, að láta alla fasteignaeigendur í landinu leggja til veð fyrir lánsupphæðinni, eða gullforðanum, — veð, sem gengi fyrir öllum veðskuldum. Slíkt veð mundi nema 3% af öllum fasteignum landsins. Danir lögðu 6% á sínar fasteignir í þessu skyni. Á þennan hátt mundi fást ódýrast gullforðalán.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Það mun verða nóg tækifæri til þess að tala um það næsta ár, ef við lifum, þegar stjórnin hefir búið til seðlafrumvarp sitt.