14.04.1924
Efri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

77. mál, seðlaútgáfuréttur ríkisins

Frsm. 3. hl. (Jónas Jónsson):

Það voru aðeins fáein orð fyrir þann hluta fjhn., er leit svo á, að hægt væri að afgera þetta mál nú. Jeg og hv. 2. þm. S.-M. (IP) höfum eigi ritað ítarlegt nál., þar eð við töldum vafasamt að málið kæmi til 2. umr. En haldi málið áfram, þá munum við koma með brtt. við 3. umr. Af því að hjer hafa verið tekin fyrir 2 frv. í einu, þá vil jeg leyfa mjer að minnast nokkrum orðum á þau bæði. Það er skoðun okkar, hv. 2. þm. S.-M. (IP), að ekki komi til mála, að landið setji á fót sjerstaka stofnun til þess að gefa út seðla, úr því að það á banka, sem getur tekið starfið að sjer án nokkurs aukakostnaðar. Þetta finst mjer vera svo einfalt mál, að mig furðar á því, að hæstv. stjórn og hv. þdm. skuli ennþá vera í vafa um það, að seðlaútgáfan hljóti að lenda á Landsbankanum. En jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um það, en jeg vil með nokkrum orðum gera grein fyrir, hversvegna jeg tel sjálfsagt, að nefnd stofnun hafi þessi störf með höndum. Ríkið á þennan seðlaútgáfurjett. Með því að láta bankann fara með þennan rjett, myndum við aðeins fylgja fordæmi erlendra ríkja, að þeir bankar, sem standa undir vernd ríkisins, hafa seðlaútgáfurjett. Þannig er því farið með Frakklandsbanka og Englandsbanka. Þessar stofnanir standa í sama hlutfalli við þau stóru ríki eins og Landsbankinn hjer, þótt þeir sjeu að forminu til hlutafjárbankar.

Fyrir nokkrum árum kom það fyrir á Frakklandi, að Signa flæddi yfir bakka sína og gerði skaða á húsum og jörðum, sem nam hundruðum miljóna franka. Þá ákvað þingið, að Frakklandsbanki skyldi leggja fram 100 milj. til að hjálpa þeim, sem orðið höfðu fyrir slíku áfalli. Svona kvöð var hægt að leggja á bankann, af því hann er kominn í þá afstöðu við ríkið að vera skoðaður opinber stofnun, sem eigi að hafa þjóðarhagsmuni fyrir augum, fremur en hagsmuni hluthafanna.

Nokkrir álíta það skaðlegt, að sami bankinn hafi seðlaútgáfurjett og sparisjóð, og þar sem Landsbankinn hefir sparisjóð, hafi hann formlega brotið af sjer möguleikana fyrir seðlaútgáfunni. Jeg vil benda á það, að við verðum að taka tillit til okkar kringumstæðna. Við höfum ekki utanríkismál, en þó við hefðum þau, myndum við t. d. ekki halda 30–40 sendiherra, vegna þess, að við hefðum ekki efni á að eyða fje í það. Sama gildir á mörgum öðrum sviðum. Við þurfum að sameina ýms störf, þar sem aðrar þjóðir sameina ekki. Jeg vil leyfa mjer að minna hina eldri þingmenn hjer í hv. deild á það, að þeir munu reyndar hafa stutt að líku fyrirkomulagi sem frv. ræðir um. Þegar Íslandsbanki var stofnaður, ráðlagði danski þjóðbankinn, að hann skyldi ekki hafa sparisjóð. En hvernig fór? Eftir stuttan tíma var hann búinn að fá sparisjóð, og hefir haft hann alt síðan. (BK: Það er ekki þinginu að kenna!) Er það þá stjórninni að kenna? En þingið er faðir og móðir stjórnarinnar. Og nú hafa setið að völdum Heimastjórn, Sjálfstæði, blönduð stjórn, einn ráðherra og þrír ráðherrar, og meðal annars hefir hv. 2. þm. G.-K. (BK) sjálfur verið ráðherra á þessu tímabili. En þetta hefir gengið svona með samþykki allra aðilja, og þingið hefir lagt sína blessun yfir, meðal annars með því að gera ekki að skilyrði við nýja stjórn, að hún hryndi þessu í lag.

Jeg get ekki sagt, að jeg hafi neitt sjerstaka aðdáun fyrir því, hvernig Íslandsbanki er rekinn. En jeg sje ekki, að hann hafi misbrúkað seðlaútgáfurjett sinn fram að stríðsárum. Á stríðsárunum breyttist þetta vitaskuld, af því bankinn var hlutabanki — að hluthafarnir notuðu sjer seðlaútgáfuna til gróða. Ekki einungis þeir, heldur líka stjórn og þing ljetu viðgangast, að seðlamergðin óx.

Þar sem við gerum ráð fyrir, að innan fárra ára verði seðlaútgáfa landsins mun tryggari en hún er nú, og verði innleysanleg, getum við ekki borið slíkt ástand saman við fjármál stríðsáranna, heldur verður að bera saman við „normal“ ástand, eins og á árunum frá 1904–1914.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að stjórn Landsbankans, sem hefir búið til frv. um fyrirkomulag bankans og lagt fyrir þáv. stjórn, hafi lagt til skynsamlegar hömlur á seðlaútgáfuna, svo hún yrði ekki hagsmunamál fyrir bankann. Fyrst og fremst hefir hún gert ráð fyrir tryggingu, sem ekki er lakari en hingað til hefir þekst, og ennfremur, að ríkið en ekki bankinn hefði ágóðann. Af því jeg held fram þessu fyrirkomulagi um Landsbankann, og skoða þessi atriði sem aðalatriði frv., hefi jeg lagt til, að frv. gangi fram, enda þótt jeg sje ekki ánægður með viss önnur atriði. Á jeg sjerstaklega við bankaráðið, sem frv. gerir ráð fyrir. Býst jeg við, að það myndi hafa hina sömu ókosti og bankaráð Íslandsbanka. Hygg jeg, að það myndi verða einungis pólitískt bitbein, og mundu skuggahliðar þingmanna koma fram í eftirsókn í þessa vinnulitlu bitlinga, en bankanum verða lítill styrkur að. En jeg sje ekki ástæðu til að koma með brtt. við frv., þar sem mjer virtist mótstaðan gegn því svo mikil, að vafasamt sje, hvort það lifir. til 3. umr.