16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1925

Eggert Pálsson:

Á þskj. 394 á jeg tvær brtt. saman, en þó gagnólíkar í eðli sínu. Sú fyrri er um viðbótarstyrk til Guðmundar Guðfinnssonar læknis. Honum voru veittar í fyrra 2000 kr. til að nema augnlækningar. Er jeg í engum vafa um það, að Alþingi hefir valið hinn rjetta mann til að styrkja til þess náms. Að hann tók í mál að gefa kost á sjer til þess sjerstaka náms, mun hafa stafað af því, að hann taldi sig með því geta best þjónað hæfileikum sínum. Hann hefir frá upphafi verið sjerlega hneigður fyrir allar skurðlækningar og aldrei, að jeg hygg, mistekist með hnífinn. Hinsvegar mun hann heldur ekki hafa búist við, að námið mundi taka nema aðeins eitt ár, enda mun hann með hæfileikum sínum og undirbúningi ekki hafa þurft í raun og veru lengri tíma. Nú fær hann samt sem áður ekki leyfi til að stunda þessar lækningar, nema hann sje lengur að námi. Svo er ákveðið í reglugerð Læknafjelagsins, að þessa grein skuli stunda í 2 ár sjerstaklega, til þess að hlutaðeigandi geti talist eða fengið viðurkenningu sem sjerfræðingur. En af því að Læknafjelagið viðurkendi Guðmund sem sjerstakan hæfileikamann, gerði það við hann tilslökun um hálft ár; lengra vildi það ekki ganga. Sú samþykt var gerð eftir burtför hans. Námstími hans verður því hálfu ári lengri en hann í upphafi bjóst við. Er því eðlilegt, að hann þurfi nú aukinn styrk. Mjer er kunnugt um, að hjer er um bláfátækan fjölskyldumann að ræða. Og þó hann haldi enn að nafni til jörð í Rangárvallasýslu, þá mun það vera honum frekar til kostnaðar en ábata. Þetta er hann tilneyddur að gera, af því hann hefir ekki þorað að segja embættinu lausu þegar í stað, þar sem óvíst var, hvort hann hefði efni eða fje til að stunda námið til fullnustu. Læknirinn í Rangárvallasýslu er bundinn við að sitja á Stórólfshvoli og reka þar búskap. Hann getur ekki sagt jörðinni lausri fremur en sjálfu læknisembættinu. Þess vegna hefir Guðmundur neyðst til að halda þar áfram búskapnum meðan hann dvelur erlendis, neyðst til að láta reka þar bú, sjer til skaða fremur en hins. — Nú hefir hann sent þinginu brjef um ástæður sínar, og þar sem það er mjög stutt, en jeg býst hins vegar ekki við, að margir hv. þm. hafi lesið það, þá vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp í heild. Það hljóðar svo:

Wien, 23. febr. 1924.

„Háttvirt Alþingi veitti mjer í fjárlögum 1924 2000 kr. styrk til þess að nema augnlækningar erlendis; gerði jeg þá ráð fyrir að vera 1 ár við þetta nám, og við það var upphæð styrksins miðuð. Nú hefir stjórn Læknafjelags Íslands, með brjefi dags. 5. febr. þ. árs, tilkynt mjer, að hún, samkvæmt reglum um sjerfræðinga, sem samþyktar voru á síðasta fundi Læknafjelags Íslands síðastl. vor, yrði að heimta árs námstíma til þess að geta viðurkent mig sem sjerfræðing í þessari grein. Námstíminn í nefndri reglugerð er ákveðinn 2 ár fyrir augnlækna, en vegna þess að jeg hefi svo lengi verið læknir og sjerstaklega lagt stund á skurðlækningar, hefir hún ívilnað mjer þetta í tímalengdinni. Þessi krafa Læknafjelagsins gerir mjer vitanlega mikla aukna fjárhagsörðugleika, svo að mjer hefir jafnvel dottið í hug að gefast upp við þetta nám, þar sem 6 mán. lenging tímans kostar mig 3000 kr. fram yfir það, sem jeg hafði gert ráð fyrir. Mjer þykir þó leitt að hafa eytt svo miklum tíma og fje í þetta nám og hætta svo við það, og leyfi jeg mjer því að fara þess á leit við hv. Alþingi, að það veiti mjer 1500 kr. — fimtán hundruð króna — framhaldsstyrk til þess að geta lokið námi. Meðmæli og vottorð um nám mitt myndi jeg geta sent, ef þess verður óskað.

Virðingarfylst.

Guðm. Guðfinnsson.

Til Alþingis.“

Jeg hefi að vísu ekki sjeð nein af þessum vottorðum, sem læknirinn talar um síðast í brjefinu, en jeg þykist heldur ekki þurfa neinna slíkra vottorða með. Jeg veit, að vottorð myndu í engu breyta skoðun minni. Jeg veit, að hann hefir stundað sjerfræðinám sitt af alúð og jeg veit líka, að betri maður verður ekki fundinn til slíks. Vel mætti segja, að það skjóti nokkuð skökku við, að jeg sje að mæla með þessari fjárveitingu, því að Rangæingar yrðu vitanlega þeirri stund fegnastir, er þeir fengju sinn gamla lækni heim í hjeraðið aftur, og svo myndi verða, ef hann neyddist nú til að hverfa frá augnlækninganáminu. Þó get jeg ekki verið svo ósanngjarn að óska þess, enda veit jeg, að Rangæingar bera svo hlýjan hug til Guðmundar læknis, að þeir óska þess einlæglega, að hann geti haldið áfram þessa braut, sem hann hefir kosið sjer, þó að þeir við það missi hann sem hjeraðslækni. Enda er ekki loku fyrir það skotið, að Rangæingar, sem aðrir, geti notið læknishjálpar hans eftir sem áður. Þeir þurfa líka, eins og aðrir landsbúar, oft að leita hingað til Reykjavíkur, ekki aðeins vegna augnsjúkdóma, heldur og annara kvilla, og þá er ekki aðeins gott fyrir þá, að þeir geta snúið sjer til góðs læknis, heldur einnig læknis, sem þeir bera hina fylstu tiltrú til. — Það hefir oft komið fyrir áður, að mönnum hefir verið veittur styrkur til sjerfræðináms og oft hefir þessi styrkur verið veittur mönnum, sem enginn hefir vitað, hvernig væru eða reynast mundu. En hjer vita menn með vissu, hverjum þeir veita styrkinn. Menn vita það með vissu, að ef Guðmundi endist líf og heilsa, þá eru þeir ekki hjer að kaupa köttinn í sekknum.

Hin till. mín er um það, að hækka um helming styrk þann til bifreiðaferða austur yfir fjall, sem nú er ákveðinn í fjárlagafrv. 1000 kr. í fyrra voru veittar í fjáraukalögum fyrir síðastl. ár 3000 kr. í þessu skyni, og hafa menn þá strax sjeð, að slík styrkveiting mætti koma að miklu liði. En í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er enginn slíkur styrkur veittur, hvernig sem á því stendur. Nú hefir verið af hv. Nd. tekin upp í frv. 1000 kr. styrkveiting til ferða þessara, og verður ekki annað sagt en að það sje nánasarlega skamtað, úr því að þörfin er á annað borð viðurkend. Er ekki að vænta mikils árangurs fyrir slíka upphæð, þegar þess er gætt, að ætlast er til, að krónur þessar verði notaðar til styrktar flutningum í þrjár áttir: upp í Grímsnes, Skeið og austur á Rangárvelli. Lætur nærri, að styrkurinn nægi fyrir 1–1½ bifreiðarferð á hvern staðinn. Sjá allir, hversu litla þýðingu slíkt hefir, og er þessi smásálarskapur því óviðkunnanlegri, þegar þess er gætt, að í fyrsta skifti voru veittar 3000 kr. til slíkra ferða. Verður ekki sjeð, að ástæða sje til að kippa svona að sjer hendinni, þar sem þörfin fyrir ferðirnar er hin sama og hún var síðastliðið ár og öllum næsta auðsæ.

Þær sveitir, sem hjer um ræðir, eru neyddar til að hafa mjög miklar samgöngur við Reykjavík. Veldur því hafnleysið austanfjalls, sem allir þekkja. Þar af leiðir líka, eins og allir sjá, að þessi styrkur kemur ekki aðeins sveitunum að gagni, heldur líka sjálfum höfuðstaðnum. Með því að hafa styrkinn heldur meiri en minni má gera ráð fyrir því, að ferðirnar verði tíðari, þegar bílar geta gengið á annað borð. Sjeu ferðirnar gerðar sem tíðastar, leiðir af því, að Reykvíkingar geta fengið ýmsar nauðsynjar, sem framleiddar eru í sveitunum, á sjer hagkvæmari hátt en ella. Má benda á ýmislegt, t. d. ekki aðeins mjólk og mjólkurafurðir, heldur og garðávexti, sem með hægu móti væri hægt að flytja til Reykjavíkur seinni hluta sumars, ef bílar ganga, en annars ekki, því að íbúar hjeraðanna geta vitanlega með engu móti staðið í löngum flutningum um háheyannatímann. Yrðu Reykvíkingar því að fara á mis við þessi þægindi, ef bílferðum er ekki haldið uppi, og verður þá ljóst, að styrkur þessi er ekki aðeins veittur umræddum sveitahjeruðum, heldur líka Reykjavíkurbæ. Það er þannig engum vafa undirorpið, að Reykjavík myndi hafa mikil þægindi af því, að vera komið í stöðugt og ábyggilegt samband við Suðurlandsundirlendið, segjum einu sinni eða tvisvar í viku yfir sumarmánuðina.

Hinsvegar má líta svo á, að þar sem ríkissjóður veitir árlega mjög mikinn styrk til samgangna víðsvegar um landið, þá sje ekki til mikils mælst, þó að þessi styrkveiting verði tvöfölduð við það, sem hv. Nd. hefir lagt til, því að flutningar á sjó fyrir þessi stóru og grösugu hjeruð mega heita útilokaðir, þar sem öll strandlengja þeirra er hafnlaus að kalla. Flutningarnir að og frá þessum hjeruðum verða því að vera á landi, og nú ekki um annað að tala en að flytja sem mest á bílum. En flutningar á bílum eru þó tiltölulega afardýrir, og hygg jeg, að margir háttv. þm. hafi ekki gert sjer það atriði nógu ljóst. Að fá bíl austur fyrir minna en 150–200 kr. er ekki hægt; þar sem þeir geta ekki að jafnaði flutt meira en 1600–1800 pund, er auðvelt að reikna út, hve mikið legst á hvert pund í flutningskostnað. Og því fremur verða ferðirnar dýrar, þar sem erfitt er í strjálbygðum hjeruðum að hafa nægan flutning til taks á einum stað báðar leiðir. En ef viðunandi styrkur fengist til þessara bílferða, þá er hugsanlegt, og enda alveg víst, að samtök mundu myndast meðal bænda í þá átt að færa sjer ferðirnar sem best í nyt.

Bæði þingið í fyrra, með fjárveitingunni í fjáraukalögum fyrir síðastl. ár, og nú hv. Nd. hafa viðurkent nauðsyn þessa styrks, þó að upphæð hans sje nú sem stendur hlægilega lítil í frv., þegar hann á að ganga til ferða í þrjár áttir, eins og jeg gat um áðan. En þó að jeg hafi nú ekki farið hærra en upp í 2000 kr. í brtt. minni, þá dylst mjer samt ekki, að þessi upphæð mun hrökkva skamt til að fullnægja samgönguþörf stórra hjeraða, sem eru útilokuð frá samgöngum á sjó, og ekki aðeins þörf þeirra, heldur líka þörf Reykjavíkur, sem nauðsynlega þarf, eins og jeg gat um að komast í stöðugt og reglulegt samband við gott uppland.

Í sambandi við þessa till. mína er ástæða til að minnast á eina brtt. háttv. fjvn., sem sje þá. að hækka tillagið til flutningabrauta um 25 þús. kr. Er því lýst yfir af hv. nefnd, að þetta sje gert með tilliti til Holtavegarins. Það stendur eins og allir skilja, í nánu sambandi hvort við annað, styrkur til bílferða og styrkur til vegarins, sem bílarnir eiga að ganga um. Hv. þm. er kunnugt, að til Holtavegarins hefir nú í seinni tíð árlega verið varið allmiklu fje úr ríkissjóði, gegn framlagi úr sýslusjóði Rangæinga. Vegamálastjóri hefir sagt mjer, að nú þegar muni vera búið að verja til vegarins um 90 þús. kr. samtals. Spotti sá, sem lagður hefir verið, er þó ekki nema kringum 4 km., en það er líka verulega góður vegur. Það varð að byrja á verkinu skamt frá Rauðalæk, því að þar var efnið til púkklagningar, sem hvergi var að fá annarsstaðar þar í grend. Þegar þeim 4 km., sem búið er að leggja, lýkur, þá tekur við sökkvandi dýpi. Og þá kemur sú spurning upp: Til hvers er verið að fleygja 90 þús. kr. í þennan vegarspotta, ef alt á svo að standa fast? Það sjá allir, að ef ekki verður gerð gangskör að því að hafa kaflann milli vegarins, það sem hann nú nær, og Þjórsár í sæmilegu standi, þá hefir 90 þús. kr. verið fleygt hjer fyrir sama og ekkert. Það er því nauðugur einn kostur að hætta ekki við svo búið, heldur halda vegargerðinni áfram. (SJ: Hvað er mikið eftir?). Allur vegurinn verður um 12 km., og eru því 8 km. eftir, en ekki hefir verið hugsað til að púkkleggja allan þann kafla, heldur aðeins nokkurn veginn jafnlangan kafla og þegar hefir verið lagður. Því að ofaníburður eingöngu mun alls ekki duga þar, enda hann þar engan að fá, öðruvísi en að mylja niður grjót. En hinsvegar mun hafa verið hugsað að láta aðeins ofaníburð nægja í þann kaflann, sem næstur er Þjórsá.

Það er því ljóst, að óumflýjanlegt verður að halda þessari vegarlagningu áfram, til þess að það fje, sem þegar hefir verið lagt til hennar úr ríkissjóði, komi að notum — og þá ekki síður það fje, sem Rangæingar hafa látið af mörkum í veg þennan. Það er óforsvaranlegt að pressa stórfje út úr sýslufjelögum, sem kemur síðan að engu gagni; en svo verður hjer, ef kaflinn að Þjórsá verður ekki gerður fær.

Þessar tvær till. standa því, eins og jeg sagði, í nánu sambandi hvor við aðra, því að þegar Holtavegurinn er fullgerður, þá er kominn ágætis bílvegur austur að Þverá, og er þá hugsjón manna þar austur frá að nota nær eingöngu bíla til flutninganna. Hefir og mörgum komið til hugar að reisa þá sláturhús þar eystra og flytja kjötið á bílum til Reykjavíkur. Með því móti geta menn betur hagnýtt sjer slátrið sjálfir, og um leið yrði komið í veg fyrir, að fjeð rýrni við reksturinn til Reykjavíkur. En þetta alt er ómögulegt, nema vegurinn austur verði gerður greiðfær og að styrkur fáist jafnframt til bílflutninganna. Vænti jeg þess, að menn skilji nú hina brýnu þörf beggja þessara styrkveitinga, bæði þörfina á því, að vegurinn verði lagður eftir því sem geta ríkissjóðs frekast leyfir, og svo þörfina, sem hjeruð þessi hafa fyrir þennan lítilfjörlega styrk til bílflutninga. Og geri jeg ráð fyrir, að mönnum muni því ljúfara að veita þennan styrk, þar sem hann kemur ekki aðeins hjeruðunum þar austur frá að notum, heldur og höfuðstað landsins.

Nafn mitt stendur einnig við brtt. X á þskj. 394, en aðalflm. þeirrar till., hv. 6. landsk. (IHB), hefir talað svo skýrt og vel fyrir henni, að ekki er ástæða fyrir mig að bæta þar neinu við. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið um starfsemi Bandalags kvenna, er mjer það ljóst, að það á fyllilega skilið að fá einhvern styrk úr ríkissjóði. Því að þrátt fyrir það, þó að Bandalagið hafi ekki úr miklu fje að spila, sem ekki er von, þar sem tillög allra fjelaganna, sem í því eru, munu ekki vera meiri en 200 kr., þá hefir það þó unnið ákaflega mikið og þarft starf, sem ekki er nema sjálfsagt að þingið viðurkenni.

Meðal annars gekst Bandalagið fyrir samskotum til austurrískra barna og jók með því sóma þjóðarinnar út á við. Þó að þau samskot hafi ekki gefið okkur sjálfum peninga í vasann, þá var með þeim sýnt, að við, sem hver önnur menningarþjóð, vildum ekki sitja hjá, þegar nágrannaþjóðirnar rjettu bágstöddum hjálparhönd. — Þá hefir og Bandalagið látið sjer umhugað að reyna að halda uppi siðgæði hjer í Reykjavík, og margt fleira mætti nefna því til ágætis.

Að öðru leyti finst mjer ekki nema sanngjarnt, að þetta bandalag kvenna fái einhvern styrk, þar sem Sambandi norðlenskra kvenna er ætlaður styrkur í frv. Er ekki kunnugt, að það samband hafi starfað öllu meira til almenningsheilla heldur en Bandalagið, Jeg álít ekki til mikils mælst, þó að bæði þessi fjelög fái ofurlítinn styrk. Það fellur ekki svo mikið af fjármagni landsins í hlut kvenfólksins, þó að þessar upphæðir sjeu veittar til styrktar fjelagsskap þess.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í að rökræða fleiri brtt. Það mætti teygja lopann með því að tala um margar þeirra, en mjer finst það ekki hafa neina þýðingu, því að jeg mun fá tækifæri til að sýna afstöðu mína til hverrar einstakrar við atkvgr.