01.04.1924
Efri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hafði altaf hugsað mjer að bera fram frv. í sömu átt og þetta, en af því að jeg gerði mjer lengi vonir um, að sjerstök sparnaðarnefnd yrði skipuð í þessari háttv. deild, hefir það dregist hingað til. Jeg álít þó rjett, að frv. komi fram, til að gefa þm. færi á að sýna sparnaðarvilja sinn.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að aðstoðarlækninum á Ísafirði. Í fyrra urðu hjer í þessari hv. deild töluverðar umr. um það, hversu mikið fje ætti að veita lækni þessum, sem laun á fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár. Þá var því haldið fram, bæði af mjer og öðrum, að óþarfi væri að launa þennan lækni, en eina ástæðan til þess, að meirihl. háttv. deildar áleit ekki fært að fella niður launin á fjárlögunum, var sú, að þetta embætti væri bygt á launalögum frá 1907 og bæri að telja þau enn í gildi hvað það snerti.

En nú er svo komið, að laun aðstoðarlæknis þessa eru miklum mun hærri en samkv. 1. frá 1907. Þar eru þau ákveðin 800 kr., en í fyrra komust þau á þriðja þúsund. Þá kom að vísu til mála, að hann fengi þessar 800 kr. að viðbættri dýrtíðaruppbót, en þó fór svo, að hann fjekk mun meira, — og enda þótt hv. fjvn. Nd. hafi nú í till. sínum lækkað laun hans talsvert, þá fær hann samt, samkv. þeim till., mun meira en hann á heimtingu á samkv. lögunum frá 1907.

Þegar embætti þetta var stofnað árið 1907, var á Ísafirði læknir, sem talsvert var roskinn orðinn, og þá voru auk þess mjög fáir læknar við Djúpið, svo að talsvert var um ferðalög fyrir hjeraðslækninn á Ísafirði. Nú er hjeraðslæknir þar ungur maður og mjög duglegur læknir að allra dómi, og auk þess er kona hans líka útlærður læknir. Þar að auki eru nú svo margir hjeraðslæknar komnir í kringum Djúpið, að læknirinn á Ísafirði telur jafnvel að fækka mætti þeim eitthvað, en það kemur ekki þessu máli beint við.

Aðstoðarlæknirinn, sem hjer um ræðir, mun hafa mjög lítið að gera, og þar að auki hefir hann orðið sekur um að hafa selt vín í stórum stíl, sem eitt út af fyrir sig hefði átt að nægja til þess, að honum hefði verið vikið úr embætti þessu. Mun dómur fyrir því, að hann hafi gefið út lyfseðla fyrir mörgum tunnum af áfengi að nauðsynjalausu. Jeg hefi borið þetta mál undir landlækni, og enda þótt jeg hafi ekki beinlínis leyfi til þess að hafa neitt eftir honum hjer í dag, þá játaði hann þó, að frá heilbrigðilegu sjónarmiði væri engin ástæða til að halda þessu embætti við. Þetta ættu að vera nægar ástæður til þess að fella þetta embætti niður, eins og fjárhag landsins er nú varið.

Þá er í launalögunum frá 1919 gert ráð fyrir því, að bæði vegamálastjóri og vitamálastjóri hafi verkfróða menn sjer til aðstoðar.

Nú verður ekki lagður einn metri af nýjum vegum í nánustu framtíð, og þó eitthvað kunni að verða af aðgerðum, þá ætti vegamálastjóra ekki að verða skotaskuld úr því að stýra því verki með aðstoð verkstjóranna. Fyrir nokkrum árum, þegar núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) var verkfræðingur landsins, þá hafði hann engan verkfróðan, fastan aðstoðarmann, þó að framkvæmdir væru meiri í hans tíð en nokkurn tíma endranær, svo að ekki mun það vera í hans óþökk, að þessi till. er hjer fram komin.

Sama er að segja um vitamálastjóra, þó að jeg heyri sagt, að hann leggi mikla áherslu á að fá að halda aðstoðarmanni sínum, enda þótt engar nýbyggingar verði, að því er vita snertir fremur en vegi. Jeg hefi áður lýst þeirri skoðun minni, að jeg tel það ekkert fullnaðarsvar, þó að slíkir forstöðumenn stofnana, t. d. sem vitamálastjóri, telji sig ekki mega missa aðstoðarmenn sína. Þó vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, að nú mun vera í þjónustu landsins verkfræðingur, sem lítið hefir að gera. Jeg á við þann mann, sem sjer um námugröftinn í silfurbergsnámunni við Reyðarfjörð. Þótt það starf sje nauðsynlegt og krefjist verkfróðs manns, þá er þess að gæta, að náman er ekki starfrækt nema lítinn hluta ársins, og þó að hann kunni að hafa eitthvað að gera hjer í Reykjavík að vetrinum við að kljúfa silfurbergið, þá hygg jeg, að hann gæti jafnframt verið vitamálastjóra til aðstoðar, a. m. k. að einhverju leyti.

Þá kem jeg að skógræktarstjóranum. Því er ekki að leyna, að mikil óánægja hefir verið meðal þeirra manna, sem annars hafa trú á skógrækt hjer á landi, yfir því, að núverandi skógræktarstjóri hafi aldrei náð slíkum tökum á þessu verki sínu sem skyldi. Það skal játað, að maður þessi hefir lengi gegnt þessu embætti og er nokkuð duglegur maður, þó að hann hafi ekki þótt heppilegur forstjóri á þessu sviði. Og þar sem nú er talað um að spara sem allra mest fje landsins, þá hygg jeg, að tæplega gæti orkað tvímælis að leggja þetta embætti niður, en fela Búnaðarfjelaginu forstöðu skógræktarmálanna. Mun enginn mega ætla, að þeim verði þar ver borgið, þar sem kunugt er, að búnaðarmálastjóri er alveg sjerstaklega vel að sjer í öllu, er að skógrækt lýtur, og hefir hepnast betur skógrækt en nokkrum öðrum á síðustu öldum hjer á landi, svo sem þeir geta borið um, sem sjeð hafa gróðrarstöðina á Akureyri.

Eina mótbáran gegn þessari till., sem skiljanleg væri, kynni að vera sú, að óviðkunanlegt væri að skilja þannig við núverandi skógræktarstjóra. En með því að maður þessi hefir lengi gegnt embætti því, sem hjer um ræðir, og er þar að auki erlendur maður, þá teldi jeg sanngjarnast, að hann hjeldi hluta af launum sínum áfram, svo að hann mætti vel við una. Sparnaður gæti samt orðið að ráðstöfun þessari. Og jeg þykist vita, að málefninu, íslenskri skógrækt, væri hagur í því að fá innlendan forstjóra, sem í fyrsta lagi mun engu síður hæfur til að gegna stöðunni en sá, sem nú er, og hefir þar að auki betri skilyrði til að komast í samband við skógaeigendur og vinna með þeim.

Jeg geri svo ráð fyrir, að frv. þessu verði vísað til allshn., að lokinni umr.