01.04.1924
Efri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Forsætisráðherra (JM):

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla frv. þessu, enda heyrir ekki önnur en fyrsta breytingin beinlínis undir mitt starfssvið. Jeg er ekki viss um, að sú breyting sje í sjálfu sjer nauðsynleg, því að jeg þykist viss um, að lögunum frá 1907 yrði aldrei beitt svo, að skipaður yrði nýr aðstoðarlæknir á Ísafirði, þó að sá, sem nú er, fjelli frá. Og eins og hv. þm. vita, þá er nú enginn slíkur læknir á Akureyri, þó að svo sje ráð fyrir gert í sömu lögum ennþá, en jeg get ekki skilið, að nokkur stjórn beitti þeim að þessu leyti, með því að þörf slíkra aðstoðarlækna er ekki lengur fyrir hendi, eins og háttv. flm. (JJ) tók fram. Jeg get samt ekkert haft á móti því að fella þetta lagaákvæði úr gildi.

En jeg held, að frv. nái ekki þeim aðaltilgangi, sem hv. flm. (JJ) virðist hafa fyrir augum, því að rjettur núverandi aðstoðarlæknis, sem fengið hefir veitingu samkv. 1. frá 1907, til launa samkv. þeim lögum fellur ekki niður, þó að frv. þetta nái samþykki. En jeg skal ekkert um það segja, hvort fella megi niður embætti aðstoðarmanna vega- og vitamálastjóra. En hvað aðstoðarmann vegamálastjóra snertir, get jeg ekki látið þess ógetið, að þessi till. kemur illa heim við ákvæði laga, sem þessi háttv. deild hefir nýlega samþykt, vegalaganna. Þar stendur sem sje berum orðum, að næst atvrh. hafi vegamálastjóri yfirstjórn allra vegamála, og skuli fá honum aðstoðar menn eftir þörfum. Eftir þeim lögum, ef þau verða samþykt eins og þessi hv. deild hefir skilið við frv., á vegamálastjóri ekki einungis að hafa 1 aðstoðarmann, heldur jafnvel fleiri fasta aðstoðarmenn, eftir orðalaginu. Tel jeg óheppilegt, að í sömu andránni skuli í einum lögum vera sett þau ákvæði, sem feld eru úr gildi í öðrum. Verð jeg að skoða það fljótráðið af hv. deild að samþ. þetta ákvæði vegalagafrv.

Að öðru leyti mæli jeg með því, að frv. þetta gangi áfram til nefndar, og mun fúslega vilja ræða það við þá nefnd, sem fær það til meðferðar.