22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Allir vita, að nefndin hefir klofnað um málið. En það er þó ekki skýr klofningur, því meirihl. viðurkennir í nál. sínu, að í till. minnihl. felist atriði, sem sjeu fylstu rannsóknar verð. Er því ekki hægt að segja, að meirihl. sje beint og bert á móti till. frv. En meirihl. leit svo á, að undir þessum kringumstæðum sje ekki rjett að flana að neinu í þessu efni. Svo sem kunnugt er, hefir verið farið fram á við hæstv. stjórn með þingsályktun, að hún skipaði nefnd til að athuga slík spursmál sem frv. þetta ræðir um. Virðist því meirihl. ekki viðeigandi að grípa fram fyrir hendur væntanlegrar nefndar og hrapa að breytingum á embættarekstri landsins. Hv. minnihl. talar um mjög hættulega stefnu hjá meirihl. Sú stefna er ekki annað en það, að meirihl. vill ekki hlaupa að því að samþykkja frv. Mig minnir, að hv. flm. og frsm. minnihl. gæti þess við 1. umr., að hann hefði á einum 5 mínútum hripað upp frv. Þó nú að maðurinn kunni að vera skarpur, get jeg vart skilið, að hann hafi getað hugsað vel hvert einstakt atriði frv. á þessum 5 mínútum. Jeg verð að telja það rjettari stefnu, þegar gera skal verulegar breytingar, að verja nokkrum tíma til athugunar.

Hv. minnihl. hefir sínu máli til stuðnings látið prenta brjef það, sem vitamálastjóri skrifaði atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu, og hann einnig las á fundi nefndarinnar. Jeg get ekki fundið, að brjef þetta styðji málstað hv. flm., nema síður sje.

Jeg er ekki að halda neinum vernarskildi yfir þessum embættum nje öðrum, en vil, að málið sje nánar rannsakað en hægt er fyrir þetta þing að gera. Og það því fremur sem þessi hv. deild hefir samþykt áskorun til hæstv. stjórnar um að skipa nefnd til að athuga svona löguð mál. Sú áskorun hefði verið frá þingsins hálfu alveg meiningarlaus, ef við hefðum jafnframt treyst okkur að ráða fram úr þessum málum á örstuttum tíma. Jeg verð að mótmæla því — án þess að ganga inn á einstök atriði — að stefna eða skoðun meirihl. sje hættuleg, en halda fram, að skynsamlegasta stefnan sje að hrapa ekki að neinu vanhugsað, sem reynslan gæti fljótlega leitt í ljós, að hafi verið glapræði.

Hv. minnihl. kvað öll hin áminstu embætti með öllu óþörf. Meirihl. treystist ekki til að kveða upp hiklaust þann dóm um þau öll. Hann er þess fullviss, að aðstoðarlæknisembættið á Ísafirði verður ekki veitt neinum manni á ný; þess vegna er till. um niðurlagning þess ekki með neinu tilliti til framtíðarinnar. Því þó embættið yrði lagt niður, eru engar líkur til, að þingið kipti að sjer hendinni gagnvart þessum manni, frekar en það hefir hingað til gert. Verður því alls ekki neitað, að þarna er meirihl. rökrjettur, hvað svo sem hv. minnihl. kann að færa á móti.