22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Hv. frsm. meirihl. (EP) hefir haldið því fram, að óhugsandi væri að leggja niður þau embætti, sem frv. gerir ráð fyrir, án sjerstakrar rannsóknar.

Nú hefir mjer verið sagt, að hann hafi í haust á þingmálafundum heima í hjeraði sínu nefnt ýms embætti, sem hann vildi ákaft láta leggja niður, t. d. grískudósentinn og prófessorinn í hagnýtri sálarfræði. Jeg skal nú síst áfella hann fyrir að láta sjer um munn fara, að hann vildi afnema þessi embætti, því að þar er jeg samdóma honum, eins og jeg þykist hafa sýnt í verkinu, en það hefir hann aftur á móti ekki gert, heldur þvert á móti.

Það er sagt út í hött, að enda þótt stjórninni hafi verið leyft að skipa ólaunaða nefnd, sem rannsaka skuli embættaskipun landsins og gera tillögur um afnám miður þarfra embætta, þá megi ekki nú þegar leggja niður embætti, sem augljóst er, að vel má komast af án. Enda virðist þingið ekki líta svo á mál þetta. Nú hefir hv. Nd. t. d. samþykt að leggja niður sendiherraembættið í Kaupmannahöfn, og þessi hv. deild hefir fyrir sitt leyti samþykt að fækka starfsmönnum í hæstarjetti um þrjá. Jeg veit að vísu, að til eru þeir hv. þm., og aðrir, sem álíta þetta ekki rjett, en hv. þingdeildin hefir samt álitið sig gera rjett í þessum efnum. Þessi mótbára hv. meirihl. gegn frv. verður því að skoðast sem kurteislegur fyrirsláttur, til þess að geta veitt frv. „hægt og rólegt andlát“, eins og rakararnir sögðu í brjefi sínu á dögunum um annað frv., sem hv. 1. þm. Rang. þótti miklu skifta um að drepa fyrir einn rakara hjer í bænum.

Jeg vil endurtaka stuttlega fáeinar röksemdir, sem mæla með því, að frv. verði samþykt.

Að því er snertir aðstoðarlækninn á Ísafirði, þá er það játað, af öllu kunnugu fólki, játað af landlækni, svo og af meirihl. allshn., að embætti þetta sje með öllu óþarft. En hv. meirihl. tekur það fram, að óþarfi sje að leggja embættið niður með lögum, því að ekki komi til mála, að skipað verði í það eftir daga þess manns, sem nú gegni því. Þarna er stefnumunurinn. Jeg álít, að eins og hv. frsm. meirihl. (EP) vill losa sig við kaupafólk sitt að haustinu, þegar hann þarfnast þess ekki lengur, þó að það væri óneitanlega betra fyrir fólkið að fá fult kaup yfir veturinn, eins eigi ríkissjóður að fara að. Þegar hann hefir óþarfa starfsmenn á fullum launum, þá á hann að losa sig við þá, þó að þessum starfsmönnum komi það ef til vill ver. Það eru litlar líkur til, að fjárhagur landsins verði bættur, ef þessi braut hv. meirihl. verður farin. Það er sama og landið verði t. d. að sitja uppi með sendiherrann, ef hann bara vildi vera kyr, en svo mun nú reyndar ekki vera í því tilfelli. Jeg veit, að háttv. frsm. (EP) er svo mikill búmaður, að hann sjer, að þessi skoðun hans er röng.

Það er líka sjerstakt atriði í sambandi við þennan aðstoðarlækni, sem jeg hefi reyndar áður drepið á, en vil enn undirstrika. Og það er, að hann hefir brotið embættistrúnað sinn með því að gefa út óhæfilega mikið af vínlyfseðlum. Það hefir verið rannsakað og er sannanlegt með hæstarjettardómi, að hann hefir á stuttum tíma gefið út slíka lyfseðla fyrir sem svarar 20 tunnum af hreinum spíritus. Getur hver maður sjeð, að slíkt er ekki sæmilegt framferði, þegar litið er til þess, að hann hefir jafnan haft lítið að gera sem læknir. Þegar Magnús Pjetursson kom í gegn heimildinni fyrir lækna, að útdeila vínföngum til lyfja, þá tók hann það fram, að læknar væru alment svo heiðarlegir menn, að þeir mundu ekki misnota þennan rjett sinn. Enginn dómur um þetta efni er til um aðra lækna en þennan aðstoðarlækni, og enginn læknir mun að öðru leyti hafa haft jafnlítið að gera. Þegar litið er til þessa, þá þarf hörku til að halda því fram, að maður þessi eigi að vera ríkissjóðslaunaður til æfiloka.

Þá kem jeg, að aðstoðarmönnum vegamála- og vitamálastjóra. Báðir þessir embættismenn komu á fund nefndarinnar og ræddu við hana um aðstoðarmennina. Þeir játuðu báðir, að engar nýjar framkvæmdir ætti að gera á næstu árum, hvorki að því er vegagerð nje vitabyggingar snertir. En þeir báru aðallega fram tvær ástæður fyrir nauðsyninni fyrir sig að hafa aðstoðarmenn. Sú fyrri var, að ef þeir dæju skyndilega, þá væri óþægilegt, einkum að því er snerti vitamálin, að ekki væri til kunnugur maður, sem strax gæti tekið við stjórninni. Þessu hefi jeg leyft mjer að svara á þann veg, að þessi sama hætta ríkir á ýmsum öðrum sviðum. Ef að nauðsynlegt er fyrir þessa tvo embættismenn að hafa varamenn, ef dauðann bæri skyndilega að, þá er ekki síður þörf á því að hafa allsstaðar t. d. varalækna, og ekki hvað síst varapresta, því að engu er eins mikil nauðsyn föðurlegrar umönnunar embættismannsins eins og einmitt mannssálinni. Verður jafnvel að teljast óverjandi, eftir þessum kenningum að dæma, að prestar skuli vera að heiman við ýms önnur störf, t. d. þingstörf, dögum og jafnvel vikum saman, og skilja hjörðina eftir í reiðileysi á meðan. En, að þessu sleptu, þá eru báðir þessir embættismenn hinir hraustlegustu útlits og engar líkur fyrir því, að þeir eigi skamt ólifað, sem betur fer.

Þá sögðust þeir geta látið aðstoðarmenn sína hafa ýmislegt að gera, þó að engar nýbyggingar yrðu framkvæmdar. Vitamálastjóri sagðist t. d. geta látið sinn aðstoðarmann vinna á skrifstofu vitamálanna, þar væri nóg að gera. Það getur nú alls ekki verið ætlunin, að láta sjérfróðan verkfræðing vinna algeng skrifstofustörf, þó að hugsanlegt væri að spara við það ritvjelarstúlku. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Vegamálastjóri kvaðst mundu láta sinn aðstm. vinna að skipulagi bæja og mælingu Sogsfossanna. Þeir vegamálastjóri og húsameistari eru báðir duglegir menn, sem kunnugt er, og ættu því að komast yfir að mæla bæina, ekki síst þar sem nú lítur út fyrir, að lítið eða ekkert fje verði veitt til þeirra framkvæmda. Hvað Sogsfossana snertir, þá á virkjun þeirra svo langt í land, að það er allsendis ótímabært að leggja meira fje að sinni í mælingu þeirra.

Hin örlitla rafmagnsveita Reykjavíkurbæjar hefir kostað um hálfa fimtu miljón; og hvaða líkur eru þá fyrir því, að landið, eða Reykjavíkurbær, geti ráðist í að byggja út Sogið í náinni framtíð? Enda er reynsla fyrir því, að þó að slíkar rannsóknir fari fram, þá þarf altaf að framkvæma nýjar og nákvæmari rannsóknir áður en nokkurt verk er hafið, sem á að byggja á þeim. Tökum t. d. járnbrautina. Hversu oft er ekki búið að gera áætlanir um lagningu hennar? Nú síðast t. d. s. 1. sumar. En halda menn samt, að byrjað verði á því verki án þess að það verði alt rannsakað á ný?

Nei, þessar ástæður beggja þessara embættismanna álít jeg að sje fyrirsláttur, vegna þess, að þeir vilja síður missa aðstoðarmenn sína og eru því að reyna að finna eitthvað upp handa þeim að gera.

Núverandi skógræktarstjóri hefir aldrei komist í einginlega gott samband við þjóðina og hinn mikli áhugi manna fyrir skógrækt hefir dofnað mjög í hans tíð, því miður. Ef að menn bera saman aldamótakvæði Hannesar Hafstein og álit manna og áhuga á skógræt hjer á landi nú, þá er munurinn mikill, og munu ósigrar skógræktarstjóra hafa valdið þar mjög miklu um.

Jeg hefi þá leitt rök að því, að öll þessi embætti eru sannanlega óþörf, og að koma má störfum þessum fyrir á heppilegri hátt.

Viðvíkjandi því, að frv. sje ekki nógu vel og nákvæmlega hugsað, þá skal jeg geta þess, að enda þótt jeg hafi skrifað það á stuttum tíma, eins og gerist yfirleitt um þm., þegar þeir semja frv. sín, þá hefi jeg lengi hugsað um þessi atriði, og t. d. að því er skógræktarstjórann snertir, þá mun allur þorri landsmanna vera mjer sammála í því efni.

Þess vegna á hv. deild að láta frv. ganga fram, og sýna með því, að henni sje alvara að fella niður þau einbætti, sem hún telur óþörf.