22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Sigurður Eggerz:

Jeg skal taka það fram, að jeg hefi ekki neina trú á því, að það verði mikill árangur af því, þó þessu máli verði vísað til væntanlegrar sparnaðarnefndar, þó jeg muni greiða atkv. mitt með því, að það verði gert.

Það er mín sannfæring, að þeirri meginreglu verði að fylgja, ef spara á embættismannahald ríkisins, að stækka embættin, og einkum að fækka þeim, sem forstöðuna hafa á hendi. T. d. hefi jeg hugsað mjer, að vel mætti steypa saman vegamálastjóra- og vitamálastjóraembættunum; ef það væri gert, þá væri auðvitað þörf á að hafa þessa aðstoðarmenn.

Samskonar stefna kom fram í samsteypufrumvörpum fyrverandi stjórnar, sbr. sýslumannafrv. Jeg sýndi þar fram á, að hinn mesti ósparnaður væri í því að hafa þau embætti eins lítil og þau eru, því með því þyrfti eins dýra krafta eins og sýslumennirnir eru til að vinna ýms störf, skýrslugerð o. fl., sem mætti fela hverjum meðalgreindum manni með góðri alþýðumentun. Ef embættin væru gerð stærri, þá þyrftu þeir aðeins að fást við hin þýðingarmeiri atriði embættanna. Verði þessu ekki fylgt, þá verður aldrei hægt að koma neinum slíkum sparnaði í framkvæmd.

Jeg vona, að jeg fái síðar tækifæri til að tala um afnám sendiherraembættisins í Kaupmannahöfn og fleira, sem minst hefir verið á hjer við þessar umr., en jeg vil aðeins geta þess, að eg er viss um, að þegar Framsóknarflokkurinn tekur við stjórn, þá mun hann hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Þetta segi jeg honum ekki til lasts, heldur þvert á móti.