22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki getað sannfærst af rökum hv. 1. þm. Rang. nú við þessar umr., frekar en við umr. um málið í nefndinni. En það er eitt atriði í nál. hv. meirihl. nefndarinnar, sem jeg vil leyfa mjer að benda á.

Í nál. meirihl. segir svo — með leyfi hæstv. forseta: „ — — — En þótt nú væri með sjerstökum lögum samþykt að leggja þessa stöðu eða embætti niður, þá er ekki sýnilegt, að með því mundi nokkur eyrir sparast.“

Hvernig er hægt að skilja setningu eins og þessa? Það kemur greinilega fram í henni, hvað fyrir meirihl. vakir, sem sje það, að ekki sje hægt að leggja niður nokkurt embætti meðan maður sá, sem í því situr, vill gegna því. En það er augljóst, að ef þetta embætti yrði lagt niður, þá yrði að því nokkur sparnaður, þrátt fyrir það, þótt sá maður, sem því gegnir, yrði settur á biðlaun eða fengi einhvern hluta af launum sínum sem eftirlaun.

Eitt atriði, sem jeg mintist á, hefir augsýnilega komið prófastinum, hv. 1. þm. Rang., í ilt skap, og það er það, sem jeg sagði um afstöðu hans til niðurlagningar grískudósentsembættisins. Það er von, að það komi illa við þennan hv. þm., því það er vitanlegt, að ýmsir stuðningsmenn hans eru óánægðir með framkomu hans í því máli, og eru teknir að vantreysta honum sökum þess. Og þó það komi þessu máli ekki við, vil jeg leyfa mjer að minnast lítilsháttar á, hvernig því máli var farið. í frv. því, sem eg bar fram um að leggja niður grískudósentinn, var farið fram á tvent. Fyrst og fremst að leggja embættið niður, og í öðru lagi, að grískudósentinn yrði fluttur að mentaskólanum. Hv. 1. þm. Rang. þóttist vera á móti frv. sökum þessa flutnings dósentsins milli embætta, en það var vitanlega aðeins kisuþvottur, því sá flutningur var fullkomlega löglegur. Lögfræðingar þeir, sem sæti eiga í þessari háttv. deild, fjellu alveg frá þeirri mótbáru gegn frv., er þeir tóku að hugsa málið, þó þessi misskilningur loði ennþá við hjá guðfræðingunum, sem eðlilega eru stundum miður en skyldi að sjer í „juridiskum“ fræðum.

Hv. 1. þm. Rang. mintist á það, að Rangæingar treystu honum vel, en mundu hinsvegar hafa litla trú á mjer. Í því sambandi vil jeg benda hv. þm. (EP) á það, að það gerir mjer minna til, þó Rangæingar hefðu ekki mikla trú á mjer, því jeg býst ekki við, að jeg muni bjóða mig fram þar. Rjett er samt að geta þess, að við landskjörið 1922 mun jeg í sumum hreppum þar hafa fengið um 98% greiddra atkv. En jeg vil benda hv. þm. (EP) á það, að stríðslukka hans þar eystra hefir verið hverful. Hann fjell t. d. 1919 við alþingiskosningar með gífurlegum atkvæðamun fyrir ungum og alveg óreyndum manni. Annars veit jeg ekki, hvað hv. þm. hefir fyrir sjer í því, að Rangæingar hafi litla trú á mjer. Jeg hefi ekki orðið var við neinar slíkar raddir þaðan. Ef hv. þm. á við ólæti þau, sem nokkrir ölvaðir stuðningsmenn hans gerðu á fundinum á Stórólfshvoli í sumar, þá vil jeg taka það fram, að þau ólæti gerðu mjer ekkert til. Þau voru verst fyrir þá, sem fyltu mennina, svo þeir urðu viti sínu fjær og hjeraðinu til vanvirðu.

Þá kom fram mikill misskilningur hjá hv. þm. viðvíkjandi þeirri breytingu að leggja niður skógræktarstjóraembættið og leggja starfið undir búnaðarmálastjóra. Sá misskilningur er í því fólginn, að hann hjelt því fram, að búnaðarmálastjóri væri ekki heppilegur til að sjá um skógræktina. En þessi misskilningur hv. þm. kemur eingöngu af ókunnugleik. Hefði hv. þm. ferðast eitthvað, og t. d. komið á Akureyri og sjeð gróðrarstöðina þar, sem er verk búnaðarmálastjóra, þá hefði hann vafalaust aldrei komið með slíka fjarstæðu sem þessa. Því gróðrarstöðin á Akureyri sýnir best, hve ágætlega þessi maður er til þess fallinn að annast um skógrækt. Og þótt sálargróðurinn í Hvolhreppnum, þeim andlega akri, sem hv. þm. (EP) hefir verið settur til að gæta, sje máske blómlegur, þá hygg jeg, að búnaðarmálastjóri stæði ekki höllum fæti í samanburði við hv. 1. þm. Rang.

Jeg er hv. 1. landsk. (SE) þakklátur fyrir, að hann sýndi fram á möguleika til að spara, með því að sameina vegamálastjóra- og vitamálastjóraembættin, og það sýndi, að hann telur það enga fjarstæðu að spara aðstoðarmennina, úr því hann vill spara annan forstjórann.

Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um það, að vegamálastjóri og vitamálastjóri þyrftu að hafa aðstoðarmenn, til þess að einhver væri til að taka við, ef þeir fjellu frá, þá vil jeg taka það fram, að það er einungis fyrirsláttur, vífilengjur og ekkert annað. Það eru til menn á báðum þessum sviðum, sem gætu tekið störf forstjóranna að sjer, ef þeir fötluðust frá. T. d. er verkfræðingur símans mjög vel kunnugur vitamálum, hefir unnið við þau í mörg ár, og mætti fá hann til að sjá um vitamálin. ef þess þyrfti með. Menn vita líka, að vitamálastjóri heimsækir ekki mikið vitana hjer á landi, því þeir „passa“ sig sjálfir. Vitamálastjóri þarf alls ekki að hugsa um þá á hverju kvöldi eins og barn, sem þarf að svæfa. Það er því einungis „blöff“ hjá vitamálastjóra, er hann heldur því fram í brjefi sínu til allshn., að hann verði að hafa aðstoðarmann til þess að taka við, ef hann fatlast frá. Það sýnir líka, hve þessi maður er ósvífinn, að hann skuli hóta að segja af sjer, ef hann missir aðstoðarmann, sem ekkert er með að gera. Það er raunar alveg það sama og embættismenn landsins gerðu árið 1919, þegar þeir knúðu launahækkun sína fram með ofsa. Annars er það mikið umhugsunarefni, hve ósvífnir embættismenn eru í svona málum; það þarf ekki annað en að lesa Alþingistíðindin frá 1919 til þess að sjá, hversu kurteisir þeir menn eru, þegar rætt er um að spara hjá þeim.

Eitt er, sem sýnir mjög greinilega, hve mikil óþarfaeyðsla á sjer stað, og það er, að landið hefir sjerstakan verkfræðing við Helgustaðanámuna. Sá maður er á fullum launum, en vinnur þó aðeins nokkra daga á ári fyrir austan. Jeg hefi áður bent á, að þessi maður gæti vel verið aðstoðarmaður hjá vegamálastjóra, og jeg vil beina þeirri ósk til hæstv. stjórnar, að hún taki það mál til athugunar.

Þó svo sje liðið á þingtímann, að ekki sje víst, að þetta frv. nái að komast í gegnum hv. Nd., þá álít jeg þó, að þessi hv. deild geri rjett í að samþ. það, því að það sýnir vilja deildarinnar og er áminning til stjórnarinnar um að taka samfærslur embætta til rækilegrar athugunar.