22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer virtist hv. 5. landsk. fara nokkuð hörðum orðum um brjef vitamálastjóra. Jeg hefi lesið þetta brjef vitamálastjóra, og mjer finst ekkert ókurteist eða óviðeigandi vera í því. Mjer finst við verða að viðurkenna það, hvort sem við erum vitamálastjóra sammála eða ekki, að ekkert óviðeigandi er í því brjefi. Og þar eð vitamálastjóri segist ekki geta ábyrgst vitamálin án aðstoðarmanns, þá get jeg ekki, eða aðrir ókunnugir þeim málum, ábyrgst, að þau verði í lagi, ef vitamálastjóri er einn síns liðs. En það er mjög mikils um vert, að vitarnir sjeu í lagi. Skip reiða sig á þá, og ef þeir eru í ólagi, geta miljónir króna tapast sökum þess.

Þess verður og að gæta í þessu sambandi, að flestir okkar vitar eru sjálfvirkir (automatiskir), og þess vegna þarf fagmann til að líta eftir þeim, að minsta kosti einu sinni á ári. Það er skiljanlegt, að meiri varkárni og nákvæmni þarf við þá vita, sem aðeins er gætt að einu sinni á ári, en við hina, sem gætt er daglega. Þetta er ein af aðalástæðunum til þess, að það þarf að hafa aðstoðarmann með vitamálastjóra. En þegar þess er gætt, að þessir sjálfvirku vitar eru töluvert ódýrari í rekstri en aðrir, þá verður ekki sagt, að óheppilegt sje að hafa þá, þó vitamálastjóri þurfi aðstoðarmann, aðallega vegna fyrirkomulags þeirra.

Jeg sje ekki, að vitamálastjóri hafi í brjefi sínu gengið nokkuð lengra en ástæða var til að hann gerði, þegar um það var að ræða að leggja niður embætti, sem hann telur ógerlegt að leggja niður. Hann tók fram, að ef hann fjelli frá sjálfur eða fatlaðist frá á einhvern hátt, þá þyrfti aðstoðarmaðurinn að vera til þess að taka við. Og það er skiljanlegt, að ef um aðeins einn mann væri að ræða, sem hefði vit á þessum málum, þá gætu hlotist vandræði af því, ef hann fatlaðist frá. Og það mun naumast forsvaranlegt ,að hafa aðeins einn mann kunnugan þessum málum, þar sem svo mikið er í húfi.