22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 5. landsk. (JJ) hjelt því fram, að ekki væri þörf fyrir aðstoðarmann hjá vitamálastjóra, sökum þess, að engir nýir vitar verði bygðir. En hjer ber ekki aðeins að líta til næsta árs, heldur til allra næstu ára. Eru hjer 44 vitar, sem þarfnast árvakrar gæslu, viðhalds og endurbóta. Má búast við, að bráðlega verði nauðsyn að hefja framkvæmdir í vitabyggingum. Hv. 5. landsk. hreytti hnútum í vitamálastjóra vegna brjefs hans. Kvað hann það vera dæmi um drýldni embættismanna. Jeg tel það vera hreinskilni hjá vitamálastjóra að segja, að hann muni segja af sjer, ef hann fái ekki næga aðstoð við starf sitt.

Jeg skal ekki fara langt út í viðskifti þeirra hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 1. þm. Rang. (EP). En jeg var á Stórólfshvolsfundinum, og skal lýsa yfir því, að jeg sá þar ekki öl á nokkrum manni.