14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

39. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Kjartansson):

Allshn. hefir haft til meðferðar tvö frv. um breytingar á kosningalögunum; það er frv. á þskj. 26 og þskj. 39. Nefndin hefir ekki getað fallist á aðalbreytingar frv. á þskj. 26, sem sje þær, að lengja tímabilið, sem kosningar standa yfir, í 12 klst. í kaupstöðum og 3 sólarhringa til sveita. Myndi það hafa litla þýðingu, hvað kaupstaðina snertir, nema þá helst hjer í Reykjavík, og mun þó kosning standa oftast lengur yfir hjer en 12 klst. En að lengja tímann svo til sveita sem farið er fram á er nefndin sammála um, að ekki sje heppilegt. Myndi það leiða til ruglings og truflunar við kosninguna, gefa kosningasmölunum mjög góðan tíma til athafna og verða þess valdandi, að flestir frestuðu aðeins kosningu sinni í 2 daga eða fram á síðustu stund, svo hagnaðurinn yrði enginn. Nefndin er því einróma sammála um að leggja til, að breytingar þessar verði ekki samþyktar, og er því ekki að vænta neins sjerstaks nál. um frv. á þskj. 26, þó nefndin hafi hinsvegar haft það til hliðsjónar við samning nál. á þskj. 102, um frv. á þskj. 39.

Þá kemur til athugunar frv. á þskj. 39, og eru það aðallega þrjár efnisbreytingar, sem frv. fer fram á, eins og drepið var á við 1. umr.

Nefndin er sammála um, að fyrsta efnisbreytingin sje heppileg, sú, að skifta megi hreppum í tvær kjördeildir, því víða er það erfiðleikum bundið að sækja kjörstað, eins og nú er. En nefndin hefir álitið það rjettara að leggja það í vald sýslunefnda, hvort skifta skuli hreppi í kjördeildir, heldur en að fela það hreppsnefndum, enda er það betur í samræmi við kosningalöggjöf kaupstaðanna, þar sem kjördeildaskifting er leyfð, en þar fara bæjarstjórnirnar með það vald. En frv. ætlast til, að hreppsnefndir fari með þetta vald.

Önnur efnisbreyting frv. er fólgin í því að flytja kjördaginn, sem nú er hinn fyrsti vetrardagur, til laugardagsins í 10. viku sumars.

Nefndin er ekki sammála um þetta atriði. En meirihl. álítur, að fyrsti vetrardagur sje óheppilega valinn kjördagur; þá er allra veðra von, og getur því farið svo, einkum til sveita, að fjöldi kjósenda geti ekki sótt kjörfund, enda víða langt á kjörstað og oft yfir slæmar torfærur að fara. Því telur meirihl. nefndarinnar heppilegra að velja annan dag, að sumrinu. En laugardagurinn í 10. viku sumars virðist ekki heppilega valinn. Hann getur fallið á tímabilið frá 23. til 29. júní, en það er óheppilegt, þar sem þá er aðal-vorkauptíð til sveita. Þessvegna hefir meirihl. valið laugardaginn í 11. v. sumars, sem fellur á tímabilið frá 30. júní til 6. júlí. Kann að vera álitamál, hvort ekki hefði mátt fara lengra, til laugardagsins í 12. viku sumars, en nefndin þorði ekki að fara svo langt, og jeg hefi átt tal við suma hv. þdm., sem voru henni sammála um það. Það má geta þess strax, í þessu sambandi, hvort ekki væri óheppilegt, að þessi brtt. næði fram að ganga, ef almennar kosningar og kosningar til landskjörs færu fram sama árið, en þær kosningar eru ákveðnar, eins og kunnugt er, 1. júlí. En okkur þótti ekki ástæða til að flytja brtt. um landskjörskosningarnar nú á þessu þingi, þó heppilegra væri, að ef svo fjelli, að hvorttveggja kosningin væri sama árið, að sami kjördagurinn væri þá fyrir báðar.

Þriðja efnisbreytingin, sem frv. fer fram á, er sú, að breytt sje algerlega um kjörgögn, að stimpillinn sje lagður niður, en í stað þess tekinn upp blýantur og með honum krossað eins og við landskjörið.

Nefndin er alveg sammála um, að ekki sje heppilegt að breyta þessu, þar sem menn eru nú farnir að venjast kjörgögnunum, og gæti því breytingin orsakað truflun og rugl hjá kjósendum. Og þó önnur gögn sjeu við landskjörið, þá er þess og að gæta, að þar er alt annað fyrirkomulag, listar og annað alt öðruvísi útlítandi en við almennar kosningar. Nefndin leggur því eindregið með því, að breyting þessi verði feld, en stimplunum haldið. Hinsvegar verða kjörstjórnir að sjá um, að þessi gögn sjeu í góðu standi. Og nefndin leggur áherslu á það við hæstv. stjórn, að hún viti þær kjörstjórnir, þar sem misbrestur varð á þessu við síðustu kosningar.

Nokkrar fleiri breytingar eru það, sem nefndin leggur til, að verði samþyktar, og eru þær sumar bein afleiðing af þeim aðalefnisbreytingum, sem nefndar hafa verið. Svo er um það, að kjörskrárnar gildi frá 20. júní til 19. júní næsta ár á eftir. Nú gilda þær frá 1. júlí til 30. júní næsta ár á eftir, en væri það látið haldast, en kjördagurinn fluttur eins og nefndin leggur til, yrði það til þess, að ýmist yrði kosið eftir gömlum kjörskrám eða nýjum. Leiðir því þessi brtt. nefndarinnar beint af annari aðaltillögunni.

Meirihl. vill og gera breyting og viðauka á 36. gr. kosningalaganna, og er það í því fólgið, að nefndin vill koma samræmi á milli almennu kosningalaganna og ákvæða þeirra, sem gilda um alþingiskosningar í Reykjavík, um það, hvort merki eða einkenni á atkvæðaseðli geti gert hann ógildan. Eftir ákvæðum almennu kosningalaganna má ógilda hvern seðil, sem eitthvert merki er á, en eftir ákvæðum kosningalaga þeirra, sem gilda hjer í Reykjavík, má því aðeins gera seðilinn ógildan, að merkið sje viljandi gert, til þess að gera seðilinn þekkjanlegan, þ. e. „er ætla má, að gert sje til þess að gera seðilinn þekkjanlegan“, eins og greinin orðar það. Lítur meirihl. svo á, að það sje nær anda kosningalaganna.

Þá vill meirihl. með viðbætinum við 36. gr. slá því föstu, að seðill verði ekki ógildur í tvímenningskjördæmi, þótt aðeins einn sje kosinn. Má vera, að þetta sje deilumál, og líta ýmsir svo á, að það sje heimilt samkv. kosningalögunum að kjósa aðeins einn, enda meirihl. nefndarinnar þeirrar skoðunar. Meirihl. fanst sem dregið væri úr rjetti kjósanda, ef hann væri skyldaður að kjósa tvo frambjóðendur. Getur vel staðið svo á, að einhverjir vilji aðeins kjósa einn af frambjóðendunum, og hefir því ekki um annað að velja, eins og nú er, en annaðhvort að gera seðil sinn ógildan eða kjósa einhvern þeirra, sem hann vill ekki eða telur vist, að komist ekki að, og gæti jafnvel leitt til, að maður með litlu fylgi yrði kosinn. En þar sem það hefir verið föst venja hjá kjörstjórnum að ógilda þá seðla, þar sem aðeins einn væri kosinn, er tvo átti að velja, vill nefndin taka af allan vafa með því að tilgreina þetta með berum orðum í lögunum. Annars má minna á, þessu til stuðnings, að Alþingi hefir, með því um árið að ógilda aðeins kosning annars þingmannsins hjer í Rvík, gefið úrskurð um það í rauninni, að seðlar sjeu ekki ógildir fyrir þetta atriði. Einnig liggur og sama til grundvallar, þar sem við landskjörið er ekki skylt að hafa á lista eða kjósa jafnmarga og kosning eiga að ná.

Ein brtt. nefndarinar, sú við 38. gr. kosningalaganna, er aðeins smávægileg, að lágmark þess tíma, er kosning skuli standa yfir, sje lengt úr 3 upp í 5 klst.

Um aðrar brtt. nefndarinnar sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða. Aðeins vil jeg taka það fram aftur, aðaðallega er um þrjár efnisbreytingar að ræða og leiðir hinar flestar af þeim.

Jeg heyrði, að hæstv. forseti skýrði frá, að nú hefði verið útbýtt hjer brtt. umkosningarnar í tvímenningskjördæmunum; jeg hefi ekki sjeð hana enn, en þar sem jeg geri ráð fyrir, að hún sje þess efnis að fella ákvæði nefndarinnar, mun meirihl. að sjálfsögðu leggjast á móti henni; ræður hann til, að brtt. nál. verði allar samþyktar en aðrar brtt. feldar.