14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

39. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við 7. brtt. hv. allsherjarnefndar, þar sem nefndin leggur til, að gildur sje seðill úr tvímenningskjördæmi, þótt aðeins einn sje kosinn, þá vil jeg snúa því alveg við og lögfesta, að sá seðill sje ógildur.

Eins og menn muna, varð töluverður ágreiningur við síðustu kosningar, hvort slíkir seðlar væru gildir eða ógildir samkvæmt kosningalögunum. Jeg tel því rjett af hv. allshn. að taka þetta til íhugunar og leggja til, að lögin mæli beint fyrir um þetta. Það er einungis niðurstaða nefndarinnar, sem jeg tel ekki rjetta.

Jeg þarf ekki að tala langt mál um þetta, þar sem tveir hv. þm. hafa þegar mælt í gegn brtt. nefndarinnar, og hefi jeg litlu við það að bæta.

Eins og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) drap á, eru menn kvaddir saman í tvímenningskjördæmum til að kjósa 2 menn, og er sú athöfn til þess ger, að kjördæmið fái 2 þingmenn, en ekki einn. Það er því óeðlilegt, ef einstökum mönnum, sem á annað borð neyta rjettar síns til að taka þátt í þessari athöfn, yrði leyft að gera annað en athöfnin er ætluð til, eða kjósa einn mann í stað tveggja. Þá gætu allir kjósendur gert slíkt hið sama, og er þá hugsanlegt, eins og hv. 2. þm. Árn. (JörB) tók fram, að kjördæmi geti fengið aðeins einn þm., þó að tvímenningskjördæmi sje. (MJ: Getur verið, að það fái engan). Það verður ekki, nema enginn kjósi, en með þessu móti gæti tvímenningskjördæmi fengið 1 þm., þó að kosningarathöfnin fari löglega fram. Menn munu ef til vill halda því fram, að þetta sje óhugsandi, þar sem hvert þingmannsefni þurfi ákveðna tölu meðmælanda. En engin vissa er fyrir því, að meðmælandi kjósi þann, sem hann hefir lofað að styðja, og þannig gæti líka staðið á, að enginn meðmælandi neytti kosningarrjettar síns.

Eins og tekið hefir verið fram, er þetta, að kjósa aðeins einn frambjóðanda í tvímenningskjördæmi, einhver besta auðkenning, sem gerð verður á seðlunum. En aðalatriðið í þessu máli er þó frá mínu sjónarmiði það, að þetta ákvæði miðar ekki að því, að kosið verði um stefnur, heldur mundi hver frambjóðandi þá reyna að ota fram sínum tota og kjósendur síður skiftast um mál þau, sem fyrir liggja. Þetta er alveg augljóst. Margir kunna nú að líta svo á, að þetta sje í raun rjettri enginn galli, mestu varði að velja góða menn og gegna á þing, hvaða stjórnmálaflokki sem þeir sjeu í. En þau mál geta þó legið fyrir, að nauðsynlegt sje að kjósa um þau, en álit á hverjum einstökum frambjóðanda verði frekar að lúta í lægra haldi. Jeg skal nefna til dæmis uppkastið 1908 og kosningarnar um það. Hvaða maður, sem vildi ekki líta við því frumvarpi, hefði látið sjer koma til hugar að kjósa heimastjórnarmann, hversu mætur maður sem hann hefði verið, og hvaða heimastjórnarmaður hefði þá kosið sjálfstæðismann, þó að hann hefði hið mesta álit á honum?

Þannig getur komið fyrir, að nauðsynlegt sje, að þjóðin gangi til kosninga beinlínis til þess að skera úr þeim málum, sem fyrir liggja, en þessi brtt. nefndarinnar miðar að því að gera kjósendum auðveldara að skiftast eftir persónulegu fylgi, heldur en eftir málefnum. En eins og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) tók fram, væri það miklu heppilegra að skifta þeim tvímenningskjördæmum, sem eftir eru, í einmenningskjördæmi, ef menn kenna svo mjög í brjósti um kjósendur, að þeir þurfi að kjósa 2 þingmenn.

Jeg vil nota tækifærið að beina fyrirspurn til hv. allshn. Jeg sje, að hún leggur til, að þar sem hreppi sje skift í 2 kjördeildir, sje hreppstjóri sjálfkjörinn oddviti annarar kjördeildarinnar, en hreppsnefndaroddviti hinnar. Jeg tel rjett, að ákveða þetta með lögum, en í brtt. er ekki tekið fram um, hvað gera skuli, ef hreppstjóri og oddviti eru báðir í sömu undirkjördeild. Vjer getum hugsað oss, að í einum hreppi sjeu 2 dalir, og að kjördeildunum sje skift um fjallið á milli þeirra, en báðir þessir menn búi í sama dalnum. Er þá ætlast til, að annar þeirra fari úr sinni eigin kjördeild til þess að vera oddviti hinnar? (JK: Já). Þá yrði oddvitinn að greiða atkvæði sem utanhjeraðsmaður, því að jeg geri ráð fyrir, að sjerstök kjörskrá yrði fyrir hvora kjördeild.

Jeg tel mikla bót að því að færa kjördaginn fram á vor, en skal ekki bæta neinu við það, sem sagt hefir verið því til stuðnings.

Þá hefir verið um það rætt, hvort kjörgögnin sjeu heppileg. Flm. frv. leggja til, að þeim sje breytt enn og blýantskrossinn tekinn upp aftur, þar sem stimpillinn hafi gefist illa. Jeg get ekki annað sagt, að mjer stendur nákvæmlega á sama um, hvor aðferðin er höfð. Mjer finst báðar mjög einfaldar, og er þeim varla við hjálpandi, sem ekki geta komist klaklaust fram úr hvorri sem er. Ef nokkur munur er, hygg jeg, að mönnum muni vera heldur handhægra að beita blýantinum heldur en stimplinum.