16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1925

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það voru ummæli háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ), sem gáfu mjer tilefni til þess að kveðja mjer hljóðs; annars hefði jeg varla tekið til máls í þetta sinn.

Hv. þm. A.-Húnv. gat ekki felt sig við brtt. fjvn. við 10. gr. 17, um styrkinn til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, og skal jeg nú skýra það mál nokkru nánar.

Til er fjelagsskapur, sem nefnist Samband Íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, og eru 3 menn í stjórn fjelags þessa hjer í Reykjavík, en 2 á Akureyri. Í síðustu fjárlögum hafði Sambandi ísl. heimilisiðnaðarfjelaga verið veittar 10 þús. kr., eins og sambandið hafði farið fram á, og taldi stjórn fjelagsins það góðs vita, er þingið tók svo vel undir málaleitun þess. En svo kom það í ljós, að hv. fjvn. Nd. hafði bundið við nafn 2600 kr. af upphæð þessari. Þetta taldi stjórn Sambands ísl. heimilisiðnaðarfjelaga mjög illa ráðið og fór fram á það á síðasta þingi, að þetta yrði lagað. Í ár kom fram samskonar styrkbeiðni frá sambandsstjórninni. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar mun styrkurinn hafa verið færður niður í 6000 kr., en ekki bundið styrkveitinguna við neinn annan en sjálft sambandið, nema 600 kr., sem áttu að ganga til handavinnuskóla á Akureyri, yrði honum haldið áfram. Fjvn. Nd. breytti þessu þannig, að 2600 kr. eru bundnar við nafn, og verður þá lítið eftir til skifta milli þeirra tveggja aðilja sambandsins, Heimilisiðnaðarfjelags Norðurlands og Heimilisiðnaðarfjelags Íslands Hv. fjvn. Ed. skildi það einnig, að lítið yrði gert fyrir jafnlitla upphæð og 4400 kr. eru, og sýndi háttv. fjvn. Ed. þá sanngirni að láta sambandið halda þessum 6 þús. kr. óskertum til sinna umráða, en kom fram með brtt. um nýjan lið í fjárlögunum, 1200 kr. til Halldóru Bjarnadóttur. Nú er það svo langt frá mjer að telja frk. Halldóru Bjarnadóttur ómaklega að fá þann styrk, sem þingið telur sjer fært að veita henni. En jeg verð að taka það fram, að starfssvið sambandsins er svo stórt og að það hefir styrkt svo mörg námsskeið, bæði hjer í Reykjavík, á Akureyri og víðsvegar um sveitir landsins, og tel jeg, að þau námsskeið hafi öll komið að meiri eða minni notum. Yrði þá lítið í hlut, ef fjelögin bæði hefðu ekki meiru fje yfir að ráða en 4400 kr. Jeg gerði mig því ánægða með brtt. hv. fjvn. Ed. og taldi, að Samband heimilisiðnaðarfjelaganna gæti vel unað því, þótt styrkurinn væri lægri en í fyrra, ef það aðeins hefði óbundnar hendur um þessa 6000 kr. upphæð. Þess vegna lögðum við til, að frk. Halldóru Bjarnadóttur væru veittar 1200 kr. sem viðurkenning fyrir það gagn, sem hún hefir unnið þessu máli. Hefir hún starfað með áhuga við ýmsa skóla, t. d. á Akureyri og við kennaraskólann, þar sem hún hefir fasta stöðu, og á sjerstökum námsskeiðum í þágu heimilisiðnaðarins, en jafnan þegið laun fyrir þessi störf sín. Er þetta alls ekki sagt til þess að draga úr því, sem hún hefir gert í þessu efni. En jeg verð enn á ný að taka það fram, að það má á engan hátt skerða fje það, sem sambandið hefir handa á milli til útbreiðslu heimilisiðnaðar, bæði norðan lands og sunnan. Þá vil jeg geta símskeytis, sem nýlega hefir borist mjer í hendur og sýnir það, hvaða afstöðu stjórn sambandsins þar nyrðra hefir tekið í þessu máli. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg leyfa mjer að lesa skeytið:

„Lýsum yfir megnri óánægju á samþykt Nd. um ráðstöfun styrksins til fjelaganna, þar sem stór hluti styrksins er bundinn við nafn Halldóru Bjarnadóttur. Teljum algerlega óviðunandi, að þriðjungur styrksins sje nafnbundinn henni, og 600 kr. skólastyrk óverjandi.“

Svo mörg voru þau orð þaðan, og læt jeg svo úttalað um þetta mál.