14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

39. mál, kosningar til Alþingis

Hákon Kristófersson:

Jeg get verið mjög stuttorður, því hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa. Þó get jeg ekki stilt mig um að geta þess, að þegar jeg leit þetta nál., þá duttu mjer í hug þessi orð eins látins heiðursmanns: „Jeg sje eftir pappírnum.“ Mjer fór líkt, er jeg leit þetta nál.; jeg sá eftir prentkostnaðinum.

Jeg vildi helst, að háttv. allshn. hefði lagt það til, að frv. yrði felt. Jeg get ekki sjeð, að neinar breytingar þar sjeu til neinna verulegra bóta.

Hv. frsm. (JK) sagði, að lítið væri um störf í sveit á þessum tíma árs. Það getur hann aðeins sagt af því, að hann er nú orðinn næsta ókunnugur háttum sveitamanna. Jeg verð, sem kunnugur maður, að halda því fram, að sjaldan sjeu meiri annir í sveitinni en einmitt um þann tíma. Þannig víkur þessu einnig við víða við sjávarsíðuna. Sjóróðrar hamla mönnum ekki síður þá en endranær að sækja kjörfund. Hvað það snertir, að þeir menn geti þá kosið þar, sem þeir eru staddir, þá er þess að gæta, að þeir verða þá að hafa afsalað sjer kosningarrjetti sínum annarsstaðar, en því fylgir meira umstang en svo, að þorri manna nenni eða hafi tíma til að standa í því. Áhuginn víðast hvar ekki svo mikill, að menn vilji vinna það til að sleppa góðum fiskiróðri. Verð jeg einnig að líta svo á, að ef sú breyting kemst á, að hreppi, sem víðlendur er, verði skift á tvo kjörstaði, þá tel jeg það einhlítt. Það getur þá varla orðið svo örðugt, þótt að haustlagi sje, að komast til kjörstaðar, að þörf sje þessvegna að breyta kjördeginum.

Jeg skal ekki fara langt inn á deiluna um það, hvort rjett sje að telja kjörseðil gildan, þótt aðeins einn maður sje kosinn á honum, þar sem um tvímenningskjördæmi er að ræða, því að það getur naumast talist neitt aðalatriði. Þó skal jeg taka það fram, að jeg mun hallast að því, að tæplega sje rjett að ógilda atkvæði, þó kjósandi hafi ekki viljað nema einn af þeim, sem á kjörseðli standa. Því jeg tel í rauninni ósanngjarnt að kúga menn til að neyta rjettar, sem þeir vilja ekki notfæra sjer. Og jeg get ekki skilið þann hugsunarhátt hv. 2. þm. Árn. (JörB), að með þessu sje sumum veittur tvöfaldur atkvæðisrjettur, en öðrum aðeins einfaldur. Því allir hafa hjer jafnan rjett, hvort sem þeir vilja neyta hans eða ekki. —

Annars er það skoðun mín, að tvímenningskjördæmin ættu ekki að vera til.

Þá röksemd hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), að stimpilaðferðin sje ónothæf, sökum þess, hve hún sje myrk og galdraleg, get jeg varla tekið alvarlega. Veit jeg ekki, af hverju sú kukl-kend hv. þm. stafar, nema ef vera skyldi af því, að svertan er svardökk á litinn. En mjer finst þá muna minstu á henni og blýantinum, enda mun sú raunin á, ef um verulega myrkfælinn mann er að ræða. Hv. þm. (ÁJ) kvað stimpilaðferðina slæma fyrir taugaóstyrka menn. Myndu þá taugar þeirra styrkjast við það að nota ritblýið. Ekki held jeg það, að reynslan hafi sýnt það, meðan blýanturinn var notaður.

Þessi kosningaaðferð, sem við notum nú, er nú tíu ára gömul, og hefi jeg fáa heyrt kvarta undan henni. Finst mjer óþarft að fara nú að glundra í henni, enda myndi það brátt koma í ljós, að kjósendum yrði enginn hagur í því. Menn eru nú farnir að venjast gömlu aðferðinni, og breyting mundi aðeins valda ruglingi. Finst mjer þetta mál bera þess ljósastan vottinn, að breytingagirni í lagasmíðinni hjer virðist ekki hafa nein takmörk. Finst mjer, að sú minsta krafa, sem gerð verði, er menn fara að breyta svo gömlum og góðum lögum sem þessum, sje sú, að menn finni máli sínu einhver myndarlegri rök en að gamla fyrirkomulagið sje galdralegt. Galdratrúin er nú, sem betur fer, liðin hjá. (ÁJ: Ekki þó á Vesturlandi.) Hún hefir aldrei náð svo langt þar, að menn sjái draug í svörtum stimpli.

Jeg vona, að þótt svo fari, að háttv. deild samþ. þetta frv. í einhverri mynd, að hún samþykki ekki breytinguna á kjördeginum og kjörgögnunum. Jeg get vel felt mig við það, að hreppunum verði skift, enda verði sú heimild ekki notuð nema þar sem þörf er á. Sömuleiðis get jeg fallist á það, að tíminn, sem kosningin stendur yfir, sje lengdur, en jeg tel það þó ekki neitt mikilvægt atriði.