14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki lengja mikið þessar umræður, en jeg vil aðeins mótmæla ástæðum háttv. þm. Barð. (HK) fyrir því, að færsla kjördagsins sje óheppileg vegna vorvertíðarinnar á Vesturlandi. Vertíðarlok voru fyrrum 12 vikur af sumri, og hefði þá mátt þetta til sanns vegar færa, en þetta hefir breyst svo síðustu árin, að allir, sem nokkurn búskap stunda, eru komnir heim aftur í lok 11. viku sumars. Svo er þetta á Vestfjörðum, og jeg hygg víðar. Öðru þarf jeg ekki að bæta við það, sem tilfært hefir verið til stuðnings færslu kjördagsins til 11. viku sumars. En viðvíkjandi 7. brtt. nefndarinnar vil jeg henda á, að það er næsta óviðkunnanlegt að hafa ákvæði um gildi kjörseðla eftir því, hvar er kosið og hvort kosið er til kjördæma eða landskosninga. Í 71. gr., 4. lið laga frá 3. nóv. 1915, stendur svo, að seðill sje ógildur er kjósandi hefir: „sett á hann strik eða rispu eða önnur slík einkenni, er ætla má að gert sje til þess að gera seðilinn þekkjanlegan.“ Þetta sama orðalag er og í lögum nr. 11, 18. maí 1920, um þingmannakosning í Reykjavík. En í 36. gr. laga frá 3. nóv. 1915 (um kjördæmakosningar) er þetta orðað dálítið á annan veg. Þar stendur: „Engin merki má á seðilinn gera önnur en stimpla yfir auða reitinn, hvorki rispu nje blýantsstrik nje önnur slík einkenni, er gert geta seðilinn þekkjanlegan frá hinum seðlunum.“ Jeg tel óhjákvæmilegt að laga það ósamræmi, sem á sjer stað í þessu efni í kosningalögunum, og því er fyrirhafnarminst og eðlilegast að breyta til eins og hv. allshn. fer fram á.

Viðvíkjandi öðrum mótbárum gegn 7. brtt. verð jeg að segja, að þær eru fjarstæður einar. Þegar því er t. d. haldið fram, að fyrir geti komið í tvímenningskjördæmi, að annaðhvort aðeins einn eða enginn verði kosinn, tel jeg það vera hreinustu fjarstæðu. Jeg hygg, að þar sem tveir menn eða fleiri hafa boðið sig fram og fengið meðmælendur, geti það alls ekki komið fyrir, að ekki nái tveir menn kosningu. Kæmi slíkt fyrir, væri það af því, að meðmælendur hafa verið blekking ein og maðurinn, sem þau meðmæli fjekk, hefir ekki haft neitt fylgi. Jeg vil svara hv. flm. frv., 2. þm. N.-M. (HStef) því, er hann ljet um mælt, ef kjósandi greiddi aðeins einum atkv., þá neytti hann aðeins til hálfs atkvæðisrjettar síns, og bæri því að reikna atkvæði þess kjósanda sem hálft atkvæði því þingmannsefni, er það hlyti. Þetta er röng ályktun. Það er að vísu rjett, að kjósandi átti kost á að kjósa tvo menn, en kaus aðeins einn, og hefir því aðeins neytt hálfs atkvæðisrjettar síns. Það væri að taka hálfan rjettinn af kjósendum, ef slíkt væri gert, eða þvinga hann til að kjósa öðruvísi en skoðun hans og sannfæring býður honum. Það er næsta óviðeigandi, ef einn frambjóðandi hefir tvímælalaust yfirburði fram yfir alla aðra, að það fái hvergi að koma fram í kosningunni, vegna þess, að menn eru neyddir til þess að kjósa fleiri en einn frambjóðanda. Yfirburðir þessa þingmannsefnis eru þurkaðir út, af því að hann er í kjöri í fleirmenningskjördæmi, en fylgismenn hans þvingaðir til þess að kjósa á móti sinni eigin skoðun og sannfæringu, til þess að missa ekki kosningarrjett sinn.