14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Það voru aðeins tvö atriði í ræðu háttv. frsm. (JK), sem jeg vildi andmæla. Annað var það, að hann kvað 1. vetrardag hafa verið ákveðinn fyrir kjördag áður en lögin um kosningu fjarstaddra manna voru sett. Þar til er því að svara, að 1. vetrardagur var að vísu ákveðinn kjördagur á þinginu 1909. En sá dagur var endursamþyktur í núgildandi kosningalögum frá 1915, en þá var fyrir ári síðan (1914) búið að setja lögin um kosningu fjarstaddra manna. Sú ástæða hv. frsm. (JK), að 1. vetrardagur hafi verið ákveðinn af því, að menn hafi ekki getað neytt atkvæðisrjettar utan kaupstaða, er því með þessu hrakin.

Hitt atriðið var það, að um þetta leyti væru togararnir hjer í Reykjavík inni, og ættu sjómenn því hægt með að neyta rjettar síns. En þó svo sje, að togararnir liggi hjer, þá eru menn einmitt um þetta leyti í óðaönn að búa sig undir síldarveiðarnar eða aðra þá atvinnu, sem menn ætla að stunda að sumrinu, og margir farnir burt, eins og áður er sagt. Myndi það koma mörgum afarilla að mæta um þetta leyti þeim töfum, sem af kosningu leiða.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vildi gera lítið úr undirbúningnum undir kosningarnar. Jeg er honum mjög ósamþ. í þessu. Þeir, sem áhuga hafa fyrir kosningum, halda fundi og sækja þá, hljóta að eyða til þess miklum tíma, og að það sje ekki hentugt að hafa kosningaundirbúninginn á mesta annatíma ársins, hljóta allir að skilja. Enda mun hafa komið sjer illa áður, eins og sjá má af vísunni um einn alkunnan áhugamann í kosningum, og sagt er um:

Komst því ekki til af túni töðu að hirða

þessi fleina-freyrinn mætur

fyr en undir veturnætur.

Og ekki hefir hann lagt lítið í sölurnar fyrir áhuga sinn. Verður varla um það deilt, að haustið sje hagfeldasti tíminn til þessa undirbúnings, því þá eru menn alment fæstum störfum bundnir. Sje jeg yfirleitt ekki, að neinar ástæður hafi komið fram, sem mæla með því, að kjördagurinn verði fluttur. Tel jeg þá rýmkun alveg nægja, að heimilt sje að skifta hreppi í 2 kjördeildir. Gæti jeg líka vel fallist á það, að mjög víðlendum hreppum væri skift í 3 kjördeildir, og mætti þá heita, að sæmilega væri úr þeim vandkvæðum ráðið.